Þegar ég bjó á Íslandi átti ég margra ára birgðir af hálftómum sólarvarnarbrúsum. Brúsarnir voru keyptir ýmist í útlöndum eða þegar sólin lét sjá sig á Fróni en veðrið entist aldrei nógu lengi til að brúsarnir kláruðust og voru birgðirnar í mis góðu ástandi. Sólarvörn er þó nauðsynjavara þegar að maður er fölari en Dracula og á eiginmann með rautt gen í sér. Ég hef nokkrum sinnum á ævinni brennt mig svo illa að ég mun aldrei geta þurrkað sársaukann úr minninu.
Fyrsta brunarústarminningin er á Ítalíu, 8 ára. Pabbi dröslaði mér um borð í einhvern bát og út á eitthvað vatn og æfði sig svo í að að velta bátnum næstum því til að hræða úr mér líftóruna og steingleymdi í hamaganginum að smyrja mig með sólarvörn. Næstu daga á eftir var ég föst inni í íbúðinni sem við leigðum og mamma smurði mig með after sun, jógúrt og öðru sem hún fann í ísskápnum. Minnir að það hafi meira segja verið hringt á lækni.
Næsta brunaminning er þegar ég er á fermingaraldrinum. Það voru allir að tana sig í drasl fyrir hvítu fermingarkyrtlana og kjólana undir. Vond staða fyrir fölu týpuna. Ég fjárfesti í ljósakorti í Vesturbæjarlauginni og sótti þangað grimmt, kláraði eina 8 tíma áður en ég gafst upp enda var rassinn á mér orðinn að slíkri brunarúst að ég sat ekki þægilega í fleiri fleiri daga.
Eftir það var ég frekar passasöm með þetta. Nema í Evrópureisu með ektamanninum upp úr tvítugu einhvern tímann. Við höfðum staðið af okkur hitabylgju í Ítalíu án þess að brenna og litum svo yfir til Sviss þar sem var ekki nema um 20 gráðurnar og gola. Töldum húðina vera orðna vana veðrinu og ákváðum að vera ekkert að splæsa í vörn einn daginn sem við eyddum við eitthvað vatn þarna. Skemmst frá því að segja að eftir 8 tíma dag við vatnið vorum við orðin rauð eins og humrar. Ég gat hvorki staðið né setið og að liggja var hin mesta pína. Ég baðaði mig upp úr aloe vera og hef haldið mig sólarvarnarmegin í lífinu síðan.
Hér í borg Englanna er staðan þannig að búið er að brenna upp fjalli af sólarvarnarbrúsum. Ég komst hjá því að nota mikið af henni fram í mars mánuð en þá byrjaði gamanið og þar erum við enn stödd. Ég hef eytt hundruðum dollara síðan þá í að kaupa nýja og nýja brúsa enda erfðu afkvæmin fölan lit móðurinnar og rauða gen föðursins. Þær þarf því að smyrja með tilheyrandi öskri og grenji sem kemur að mestu frá yngra dýrinu. Hún harðneitar að venjast strandlífinu betur en svo að láta eins og ég sé að handleika hana með pyntingartólum þegar hún er smurð með sólarvörn. Þessi ritúal er að minnsta kosti tvisvar á dag nótabene.
Nú er hitabylgja mætt á svæðið. Hitinn hækkaði um einar 5 gráður í gær og í dag enn meira. Í stað þess að vera með heimferðarblús í gær eftir að hafa keyrt foreldrasettið á flugvöllinn sneri ég vörn í sókn og smalaði vinum á ströndina, eina leiðin til að tækla hitabylgju. Með í för dreggjar af sólarvörn sem dugðu ekki betur en svo að eiginmaðurinn er rauðglansandi brunarúst og ennið á mér er sjálflýsandi. Nú eru góð ráð dýr. Ástandið á okkur býður ekki upp á meiri viðveru á ströndinni. Og hitinn í 34 gráður í dag, engin loftkæling í íbúðinni og tvær dætur sem verða geðstirðar með meiru í hita.
Leit aðeins í blöðin og fann þar lausn á vandamálinu. Fólki er ráðlagt að heimsækja opinber rými í dag sem eru loftkæld og búið að lista upp bókasöfnum og öðrum almannastöðum þar sem fólk getur mætt til að kæla sig. Ætli það verði ekki eitthvað svoleiðis á dagskrá. Eiginmaðurinn verður í langermabol til að klæða af sér brunann og ég með derhúfu til að skýla greyið enninu mínu sem þolir ekki svo mikið sem eina sólarglennu til viðbótar. Við munum því verja deginum á vel völdu safni þar sem loftkælingunni er blastað eins og enginn sé morgundagurinn.
Ó hvað ég gæfi ekki fyrir rok og sudda í Reykjavík núna. Grasið er og verður alltaf grænna hinu megin.