c

Pistlar:

20. september 2014 kl. 15:03

Sif Jóhannsdóttir (gullrikid.blog.is)

Gengin upp að hnjám!

Unknown-2 

Fyrir ekki svo löngu las ég þrælskemmtilega grein eftir höfundinn David Sedaris. Greinin fjallaði um það þegar hann fékk sér Fitbit skrefamæli sem síðan tók yfir líf hans. Áhugi minn var vakinn og mér áskotnaðist svona gripur fyrir rúmri viku síðan. Markmiðið er að ganga að minnsta kosti tíu þúsund skref á dag sem mér reynist auðveldar en ég átti von á. Það sem ég átti ekki von á er keppnisskapið sem kom samhliða. Fyrstu dagana var notalegt að fá hina ýmsu viðurkenningarskildi. Fyrstu 5.000 skrefin sem ég gekk, fyrsta sinn sem ég náði tíu þúsund skrefum, fimmtán þúsund skrefum og þegar ég braut 50 þúsund skrefa múrinn (ekki á einum degi, það tók mig rúma þrjá daga að ná því saman). En svo gerðist það að ég eignaðist vini og þar er hægt að fylgjast með árangri vina þinna.

Ég á ljúfa nágrannakonu. Hún er með tvo stráka á sama aldri og stelpurnar, bresk, og við höfum náð ágætlega saman. Eldri krakkarnir í sama skóla og okkur öllum orðið vel til vina. Hún er algjör göngugarpur, henni er meinilla við að keyra og hatar að leggja bílnum sínum sem þýðir að hún gengur allt sem hún fer og það er þó nokkuð. Fljótlega eftir að ég fékk skrefamælinn barst mér vinabeiðni í Fitbit appinu frá henni. Slæmar fréttir fyrir mig því það lítur enginn vel út í samanburði við hana. Ég var því svolítið lengi að svara henni en ákvað að ég gæti ekki verið svona mikill heigull heldur yrði ég að takast á við sjálfa mig og minnimáttarkenndina enn einu sinni. 

Þetta hefur reynst mér hin besta hvatning. Í gær var einhver met dagur hjá henni. Um miðjan dag var hún 5 þúsund skrefum á undan mér og í fyrsta sæti á vinalistanum. Óásættanlegt. Ég dreif því vinkonu (auðvitað aðra en hana) með mér út og þrammaði hér vítt og breytt um bæinn. Rétt mjakaðist upp fyrir hana og þurfti því að rífa börnin út eftir kvöldmat aftur því ég vissi að hún átti eftir að fara út með hundinn fyrir nóttina.  Mér tókst að halda fyrsta sætinu mínu en með herkjum. Upp úr níu í gærkvöldi var ég komin upp í rúm. Gengin upp að hnjám, algjörlega úrvinda en um varir mínar lék bros sigurvegarans. 

 Gleðin var skammvinn get ég sagt ykkur. 

Ég var ekki fyrr komin á fætur en beyglan var komin tvö þúsund skref á undan mér. Hún hlýtur að ganga í svefni. Ég þarf því augljóslega að reima á mig íþróttaskónna því það er ljóst að ekki næ ég henni með því að mífrast hér um á sandölum, nú þarf að láta verkin eða sporin tala.

David Sedaris hefur því tekist að fylla mig af sömu þráhyggju og hann sjálfur lýsir í greininni og ég gerði góðlátlegt grín að. Mögulega ætti ég að reyna að gerast vinur hans í gegnum skrambans tækið og sjá hvort ég geti skorað á uppáhalds höfundinn líka. Nei, hann er algjörlega óður og myndi vinna mig í hvert sinn.

Þeir sem vilja lesa greinina sem kom þessu öllu af stað geta gert það hér. 

Markmið dagsins í dag. Mig dreymir um að ná yfir 20 þúsund skrefum... sjáum hvað setur! 

Sif Jóhannsdóttir

Sif Jóhannsdóttir

Sif Jóhannsdóttir er 34 ára húsfrú í Los Angeles þótt hún verði alltaf Vesturbæingur í hjarta sínu. Í fyrra lífi starfaði hún hjá Forlaginu sem verkefnastjóri útgáfu enda eru bækur hennar helsta áhugamál. Nú sinnir hún dætrunum tveimur og heimilinu í fullu starfi í sól og sumaryl. Nýja starfið er ansi krefjandi sem veldur því að hún lætur sig stöðugt dreyma um starfsframa, nám eða hvað sem er utan heimilis. Hún byrjaði að blogga í aðdraganda flutninganna til að halda utan um þær breytingar sem voru að eiga sér stað í lífi hennar.

Meira