Síðastliðið fimmtudagskvöld stigum við hjónin út fyrir þægindarammann sitt í hvoru lagi.
Ég skráði mig á námskeið í Community College Santa Monica. Námskeiðið heitir “How to write funny” og er liður í plani mínu um að enduruppgötva sjálfa mig. Ég get eytt miklum tíma í að velta mér upp úr og stressa mig yfir svona hlutum svo ég lét eins og þetta væri ekki að fara að gerast, eins og ég hefði ekki skráð mig í þennan tíma. Ég kom því andlega óundirbúin í skólastofuna og til að bæta gráu ofan á svart rúmu korteri of seint (Umferðin í LA).
Ég var ekki fyrr gengin inn um dyrnar fyrr en angistin helltist yfir mig. Í hvað var ég eiginlega búin að koma mér? Kennarinn, Jonathan, er grínisti sem hefur verið með sketcha hjá Letterman og minnti mest á Woody Allen (sem er í engu uppáhaldi hjá undirritaðri). Vandræðagangur hans átti sér engin takmörk og í tímanum lærði ég meira um hann en ég kæri mig um að vita, t.d. að hann sé einhleypur en þráir að komast í ástarsamband. Fyrrverandi kærastan hans/núverandi besta vinkona hans er ást lífs hans sem gerir ástarsambönd flókin. Hann er með þráhyggjuröskun hvað varðar hreinlæti og dreymir um að taka eitt ár í að lifa með búddamunkum og læra allt um þeirra siði og venjur. Ástæða þess að ég veit allt þetta? Þetta var þriggja tíma kennslustund, ég ætti ekki að vita allt þetta um kennarann minn, er það? Jú, sko. Hans trú og kennsluaðferð gengur út frá þeirri hugmyndafræði að grundvöllur gríns sé sannleikur. Þess vegna verður maður að byrja á sannleikanum og vinna sig frá honum yfir í grínið.
En upplýsingagjöfin var ekki bara bundin við kennarann heldur var ætlast til þess að við, nemendurnir, opnuðum okkur inn að kviku og opinberuðum það sem hann kallaði “core need”, eitthvað sem við brennum fyrir, okkar dýpstu langanir og þarfir. Þeir sem þekkja mig vita að ég er ekkert að hleypa fólki nær mér en ég endilega þarf. Og þarna er ég sest í skólastofu með ókunnugu fólki sem ætlast til þess að ég opni mig. Þegar þetta lá fyrir byrjaði ég að svitna á efri vörinni. Glætan að ég ætlaði að fara að segja þeim eitthvað frá innstu hjartarótum, er það? Samnemendur mínir opinberuðu brostna leikaradrauma, ástarsambönd sem gengu ekki upp vegna ýmissa atriða, vonlausar tilraunir kynlífsfíkils til að hefja ástarsamband, rifrildi tónskálds við samstarfsmann sinn (notabene var umrætt tónskáld fast að sjötugu, enn að reyna að meika það, með alpahúfu í 30 stiga hita) og svo mætti lengi telja. Á meðan þetta gekk á var ég að reyna að skrá eitthvað sem gæti skrifast undir mínar innstu langanir. Það sem rataði á blaðið: Verða fyrsti kvenkyns páfinn, vinna nóbelinn fyrir bókmenntir, verða söngkona frægari og betri en Adele og aðrir hlutir sem ég dæmdi “seif” að segja í þennan hóp. Ekki fer ég að segja fólki sem ég þekki ekki rassgat eitthvað sem mig langar í alvörunni? Ég get varla sagt sjálfri mér það í augnablikinu...
Ég komst lifandi út úr tímanum en það stóð tæpt um tíma. Ég tók meira að segja til máls. Ekkert stórkostlegt en ég lifði það af. Næsti tími verður spennandi, get ekki beðið eftir að fá að vita meira um það hvernig kynlífsfíkillinn ætlar að leysa drauma sína um ástarsamband eða hvernig alpahúfukonunni gengur með samstarfsmanninn ógurlega sem stendur í vegi fyrir að þau verði tónskáld á heimsmælikvarða.
Eiginmaðurinn hafði öðrum hnöppum að hneppa fyrir hönd fjölskyldunnar þetta kvöld. Hann þurfti að mæta í boð ætlað fyrir nýja foreldra í skóla stelpunnar okkar. Boðið haldið í höll með kristalssljósakrónum og sú sem blés til fagnaðarins gerðist svo fræg að leika í Guiding light auk þess sem hún hefur gert það gott í auglýsingaleik. Ég hefði gjarnan viljað vera fluga á vegg þegar eiginmaðurinn gekk inn í þetta umhverfi. Yfir 200 manns úr betri stigum samfélagsins. Sem betur fer fyrir hann þá hefur fólk alltaf áhuga á Íslandi og því gat hann gert uppruna sinn að samtalsefni mestan part kvöldsins. Hann er nefninlega ekki enn orðinn hæfur í samtölum um hlutabréfamöppuna sína sem er vinsælt í þessum hópi. Þess í stað gat hann talað um eldgos og Björk af miklum móð. Hann gat þó ekki setið lengur þegar að gestgjafarnir, Guiding light leikkonan og Ken, eiginmaður hennar, ákváðu að taka höndum saman og flytja lítið lag fyrir gestina, undir kristalssljósakrónunni komu þau sér fyrir, hann á flygilinn og hún við hlið hans, tilbúin að stíga á stokk með heimagert skemmtiatriði. Þar með lauk kvöldi eiginmannsins sem hrökklaðist öfugur út og heim aftur í umhverfi sem hann þekkir betur, heim tölvuleikjanna.
Við hittumst hjónin upp úr 11 það kvöld við matarborðið yfir mjög síðbúnum kvöldverði, bæði uppgefin eftir ævintýri kvöldsins. Eitt er víst, að í borg eins og LA veistu aldrei hvar næsta ævintýri bíður þín. Þess vegna er það mottóið mitt að opna á það, þiggja boð sem berast og sjá hvað gerist, það verður eitthvað óvenjulegt og stórkostlegt, það er það eina sem ég veit.