c

Pistlar:

9. október 2014 kl. 17:56

Sif Jóhannsdóttir (gullrikid.blog.is)

Tvífari óskast...

Unknown

Úff. Ég er á barmi taugaáfalls. Mig dreymir um brúna pappírspoka til að anda ofan í. Þessi skemmtilegi áfangi sem ég valdi mér í skólanum, eitthvað sem átti að vera hressandi og mannbætandi fyrir mig hefur breyst í hreina og klára martröð. Fyrir þá sem ekki muna um hvaða tíma ræðir má lesa nánar um það hér.

Það er stöðug krafa á að við séum að deila hinu og þessu í bekknum, lesa upp úr texta eftir okkur fyrir samnemendur og vinna texta áfram sameiginlega með hugmyndum og ráðum hvert frá öðru. Í síðustu viku gat ég ómögulega fengið mig til að lesa upp það sem ég hafði skrifað heima. Á meðan börðust hinir um athyglina, óðmála og æst yfir þeirri hamingju sem þau upplifðu yfir þessu tækifæri til að hafa rödd og einhverja til að hlusta á. Tíminn mjakaðist áfram og ég sá að það myndi að endingu koma að mér sama hvers mikið ég óskaði þess að sleppa og að bjallan myndi ekki hringja í tæka tíð til að bjarga mér. Þess utan er bévískur kennarinn sérfræðingur í að teygja lopann og ef honum finnst hann þurfa þá heldur hann okkur hálftíma eða lengur eftir að tímanum lýkur. Hvað gerir Sif þá? Jú. Hún stendur snögglega upp og yfirgefur tímann hljóðlega án þess að nokkur taki eftir. Eða, það var allavegana planið. Þar til kennarinn sá hvað ég var að reyna og dró athyglina alla að mér að sjálfsögðu og spurði forundrandi hvort ég væri að fara, ég hefði átt að láta hann vita að ég þyrfti að fara snemma því þá hefði hann byrjað á því að láta mig deila. Ég muldra eitthvað rauðleit ofan í bringuna á mér og hleyp út með loforði um tölvupóst sem viku seinna hefur enn ekki verið sendur.

images

Í millitíðinni fá athyglissjúkir samnemendur mínir frábæra hugmynd og barst mér tilkynning um hana í tölvupósti frá kennaranum. Þeir vilja halda sýningu í lokin á þessu öllu saman. Upplestrarhátíð og bjóða á hana vinum og vandamönnum. Lesa upp textann sinn í áheyrn allra. Einmitt. Af hverju var ég ekki undirbúin undir þetta í landi tækifæranna þar sem allir eru að reyna að meika það? Nema hvað. Svo er dæminu stillt upp þannig auðvitað að ég geti sagt mína skoðun á þessu þar sem ég var ekki á svæðinu þegar málið var rætt og ef ég vilji þetta ekki þá sé auðvitað hægt að hætta við. Eru þau að grínast? Á ég að vera Grýla og stela af þeim jólunum?

Það eina sem kemur í veg fyrir að ég skrái mig úr herlegheitunum er vissan um að kennarinn muni gera sér það að umtalsefni í tímanum á eftir, taugaveiklaða íslenska stelpan sem var of góð með sig til að tala við samnemendur sína um innstu drauma og þrár. Afhverju held ég að hann geri það? Af því að hann eyddi hálftíma í öðrum tímanum að ræða um nemanda sem af einhverjum ástæðum vildi ekki mæta oftar. 

Stundum vildi ég óska þess að ég gæti grafið höfuðið í sandinn. Ef ekki það, þá fengið tímavél að láni og farið aftur og slegið mig utan undir þegar ég fékk þessa frábæru hugmynd um að skrá mig í þennan áfanga.

En úr því það er ekki hægt, þá er fátt annað að gera en að anda ofan í pappírspokann og búa mér til hliðarsjálf sem ég sendi svo í tíma. Og mögulega hugleiða ritstuld, lesa efni eftir einhvern annan á þessu upplestrarkvöldi? Ég ætti kannski að auglýsa eftir svokölluðum Ghost writer nú eða svona tvífara, eins og stjörnurnar eiga og geta notað í áhættuatriðum. Ég gæti þá sent tvífarann minn á upplestrarkvöldið? 

Sif Jóhannsdóttir

Sif Jóhannsdóttir

Sif Jóhannsdóttir er 34 ára húsfrú í Los Angeles þótt hún verði alltaf Vesturbæingur í hjarta sínu. Í fyrra lífi starfaði hún hjá Forlaginu sem verkefnastjóri útgáfu enda eru bækur hennar helsta áhugamál. Nú sinnir hún dætrunum tveimur og heimilinu í fullu starfi í sól og sumaryl. Nýja starfið er ansi krefjandi sem veldur því að hún lætur sig stöðugt dreyma um starfsframa, nám eða hvað sem er utan heimilis. Hún byrjaði að blogga í aðdraganda flutninganna til að halda utan um þær breytingar sem voru að eiga sér stað í lífi hennar.

Meira