c

Pistlar:

5. nóvember 2014 kl. 17:18

Sif Jóhannsdóttir (gullrikid.blog.is)

Cougar Town

IMG_5304Ég hef verið dyggur áhorfandi sjónvarpsþátta síðan ég var krakki. Fyrstur upp í hugann er Derrick hinn þýski, svo var það hin fagra Angela í Murder She Wrote, Hasselhoffinn í Baywatch og loks yndislegu Vinirnir sem fylgdu mér lengi og gera raunar enn því ég horfi reglulega á allar 10 seríurnar. 

Og í síðustu viku var ég svo heppin að standa í sama herbergi og ein af Vinum mínum og sjá hvernig sjónvarpsþáttur verður til. Yndisleg kona sem starfaði eitt sinn við nýjustu þáttaröð Courtney Cox gerðist fylgdarkona mín einn dag og lóðsaði mig um kvikmyndasettið þar sem þátturinn er tekinn upp. Þátturinn heitir Cougar Town, Courtney leikur þar aðalhlutverið og með henni eru t.d. Christa Miller (Gerði garðinn frægan sem kaldhæðna eiginkona Dr. Cox í Scrubs), Busy Phillips (lék til dæmis Audrey í Dawson Creak)og hinn myndarlegi Josh Hopkins (hann hefur komið víða við, Private Practice, Brothers and Sisters, Cold Case, Ally McBeal og svo mætti telja endalaust áfram). Ég hef nú ekki horft á allar seríurnar, horfði á fyrstu tvær en nú eru þær orðnar fimm og verið að taka upp þá sjöttu og síðustu.

IMG_5305Ég hef aldrei áður stigið á svona sett. Ég var með hjartað í buxunum af spenningi þegar við gengum inn í Culver City Studio þar sem þátturinn er tekinn upp. Þetta er eitt sögufrægasta stúdíóð hér í borg, King Kong var tekinn þarna upp og Galdrakarlinn í Oz en Cougar Town er sennilega það stærsta sem er tekið upp þar í dag. Það vantar ekki sjarmann og leikarar ferðast þarna um á fögrum fákum (sjá mynd) og sáum við einmitt hjól Courtney og Busy sem voru auðvitað merkt þeim.

Vinkonan byrjaði á að kynna mig fyrir fyrrum samstarfsmönnum hennar, hún starfaði sem Art Director. Ég hitti allt liðið í art deildinni, fólk sem sér um að láta drauma aðalhönnuðarins verða að veruleika og sjá til þess að allt settið líti út eins og það á að líta út. Ég hitti mann sem er Transport Director, guð má vita hvað það felur í sér, ætli hann hafi ekki mest að gera þegar að þeir þurfa að fara á flakk í tökum, það gerist stundum. Mér fannst stórmerkilegt að sjá hvað það starfsmennirnir sátu þröngt, enginn glæsibragur yfir þessu og þarna hrósuðu þau happi yfir því að hafa glugga, það þykir víst eins flott og það gerist. Svo var labbað með mig inn á sett, inn á barinn þar sem Grayson (Josh) vinnur sem þennan tiltekna dag var dekkaður upp fyrir PROM þáttinn þeirra. Svo löbbuðum við fyrir horn og vorum þar komin í "blue room" þar sem leikararnir sitja milli sena (ef þeir eru ekki í herberginu sínu), sminkurnar bíða milli takna og allur herinn sem kemur að upptökunni valsar í gegn. Þarna situr líka leikstjórinn þegar er verið að taka upp og horfir á einn fjögurra skjáa. Leikstjórinn þennan daginn var enginn annar en Josh, að leikstýra sínum fyrsta þætti, Courtney hefur leikstýrt þeim ófáum. Hann var því allt í öllu, skiptist á að leika og leikstýra.


IMG_5312Ég tyllti mér aðeins niður í Blue room og horfði á skjáina. Á þeim sá ég undirbúning fyrir næsta tökuatriði þar sem fjórir leikaranna standa saman og horfa á eitthvað gerast. Leikararnir sjálfir hanga ekki inni á settinu meðan allt er undirbúið heldur hefur hver leikari sinn eigin uppfyllingar mann. Hæfniskröfurnar eru tvær geri ég ráð fyrir. Þú þarft að vera í sömu hæð og leikarinn sem þú fyllir inn í fyrir og svo þarftu að vera sérlega góður í að standa kyrr. Svo stendurðu þarna meðan allt er mælt, hvar hinn eiginlegi leikari eigi að standa, hvernig stilla eigi ljósin svo allt komi sem best út og svo mætti lengi telja. Undirbúningurinn virðist endalaus og þessi 140 manna her sem starfar við gerð þáttanna hleypur um allt. Fyrir nýgræðing virðist þetta allt ósköp stefnulaust en í raun hefur hver mikilvægu hlutverki að gegna. Úr Blue Room héldum við svo yfir í eldhús Jules (Courtney) sem leikur stórt hlutverk í þáttunum og það var frekar fyndið að standa þarna inni í því miðju eins og ekkert væri. Á leið minni yfir í næsta hús þar sem eldhús Ellie rekst ég á leikstjórann og leikarann, Josh, sem sat og fór yfir handritið fyrir næstu senu. Ég réðst auðvitað á manninn, kynnti mig óðmála og lét smella af mynd af mér með honum. Hann var raunar eini leikarinn sem gaf færi á sér, ég sá Courtney bara útundan mér, það var brjálað að gera þarna þennan dag og hún virtist eiga nóg með sitt. Ég fékk líka að hitta smiðina sem byggja frá grunni allt sem við sjáum á skjánnum og hitta manninn með búningana. Búningaherbergið var eins og fjársjóðskista þar sem slárnar eru flokkaðar eftir karakterum og hægt að finna allt frá nærfötum til útskriftarkjóla. Á slá Courtney hengu til að mynda einir 6 brjóstahaldarar sem mér fannst stórmerkilegt. Ég veit að Courtney  þarf að vera í brjóstahaldara og kannski þarf persónan Jules einn líka, en að þurfa heila 6 haldara sem hanga svo þarna frammi fyrir augum allra, hver vill láta viðra undirföt sín úti á gangi þar sem 140 manns ganga hjá á degi hverjum. Skálarstærð hennar er allavegana ekkert leyndarmál!

Eins spennt og ég var í upphafi dags fyrir því að hitta Fröken Cox þá minnkaði áhugi minn á því eftir því sem á leið á daginn en á sama tíma jókst bara áhugi minn á því að fylgjast með framleiðsluferlinu! Orkan var engri lík þrátt fyrir að fólk vinni frá 12,5 tímum og upp úr dag hvern og telst það stuttur dagur fyrir flesta í þessum iðnaði. Flækjustigin eru endalaus en fagfólk á alla kanta. Ég var ekki ein um að vera upprifin yfir þessu öllu saman, í bláa herberginu hitti ég ungan strák sem var gestaleikari í þessum þætti og hann virtist frekar upprifinn yfir þessu öllu saman, nánast stökk í fang Courtney og lét smella af sér mynd með henni, áður en þau fóru að taka upp senu saman. Mamma hans sat þolinmóð allan daginn, leikarar undir lögaldri verða að hafa fylgdarmann öllum stundum í kvikmyndaverunum. 

Skemmtilegast við daginn var að sitja eins og fluga á vegg innan um starfsfólkið og hlusta á það slúðra um hitt og þetta. Til dæmis að karakterinn Bobby, fyrrum eiginmaður Jules, var skrifaður snarlega út úr þáttunum á síðasta ári. Hann og Courtney voru að deita sem endaði víst með ósköpum. Óheppilegt þar sem hún er yfirframleiðandi þáttanna, áhættusamt ástarsamband fyrir hann! Mest töluðu þau þó um það sem tæki við þegar að þátturinn kláraðist. Margir úr teyminu hafa verið að vinna saman í fjölda ára, fyrst við þættina Scrubs og svo við Cougar Town og enn vita þau ekki hvað verður þegar þessi sería klárast. Harkið í þessum bransa er nefninlega e20141023_134448ndalaust og enginn veit hvað tekur við þegar einu verkefni lýkur.

Ég var samt mest hissa á því að Josh skildi ekki biðja um símanúmerið mitt, þið sjáið hvað það fer vel á með okkur. Hlýtur að hafa gleymst í önnum dagsins. Ætli hann gangi nú á milli samstarfsfélaga sinna og spyrji um mig? Ég ímynda mér það allavegana. Að skrítna íslenska stelpan sem réðst á hann þar sem hann sat í sakleysi sínu vitji hans í draumum hans. (Og plís ekki láta það vera í martröðunum hans?!?) Josh, ef þig vantar einhvern tímann aðstoðarleikstjóra, þá ekki hika við að hringja!

Þegar að klukkan hringdi í hádegismat, klukkan hálffjögur (þá voru þau búin að vinna sleitulaust frá 9) þá lét ég gott heita. Framundan hjá starfsfólkinu var klukkustundar framleiðslufundur áður en dagurinn gat haldið áfram. Sem betur fer er boðið upp á mat á fundinum og fyrir utan settið stóð kaffivagn og ísbíll, tilbúinn til að þjónusta þá sem vildu. Ég gekk út úr kvikmyndaverinu. Þrá mín eftir að vera leikari að engu orðin en þeim mun meiri áhugi á að koma að framleiðsluferlinu. Verst að það hentar ákaflega illa barnafólki að taka 13 tíma dagana... ætli þeir séu með barnfóstrur þarna á settinu? Ég hitti þær allavegana ekki.

Sif Jóhannsdóttir

Sif Jóhannsdóttir

Sif Jóhannsdóttir er 34 ára húsfrú í Los Angeles þótt hún verði alltaf Vesturbæingur í hjarta sínu. Í fyrra lífi starfaði hún hjá Forlaginu sem verkefnastjóri útgáfu enda eru bækur hennar helsta áhugamál. Nú sinnir hún dætrunum tveimur og heimilinu í fullu starfi í sól og sumaryl. Nýja starfið er ansi krefjandi sem veldur því að hún lætur sig stöðugt dreyma um starfsframa, nám eða hvað sem er utan heimilis. Hún byrjaði að blogga í aðdraganda flutninganna til að halda utan um þær breytingar sem voru að eiga sér stað í lífi hennar.

Meira