c

Pistlar:

30. nóvember 2014 kl. 17:01

Sif Jóhannsdóttir (gullrikid.blog.is)

Jól á Rodeo Drive

img_5534.jpgÉg er að tryllast úr jólastemmningu. Ég hef alltaf verið jólabarn í hjarta mínu en það var aldrei tími til að detta á almennilegt jólafyllerí vegna jólabókaflóðsins. Ég hangi á vefmiðlum og les ritdóma og slefa af afbrýðisemi yfir facebook færslum og myndum sem tengjast flóðinu. Þess á milli reyni ég að pumpa pabba um bóksöluna þegar hringt er milli heimsálfa. En það er bara ekki eins. Þannig að. Í staðinn ætla ég að taka Clark Griswold á þetta. Stressa mig svolítið upp yfir jólunum, fara alla leið með þetta!

Í ár erum við að tala um ofurjól. Og líkt og Griswold á ég von á tengdó í jólin og svo mömmu og pabba í gamlárs. Það er því aldeilis ástæða til að setja í fimmta gír!

Ég er byrjuð að baka smákökur og piparkökudeigið er í kæli. Ég er búin að kaupa föndurdót og mun þetta líta út eins og barnaþrælkunarverksmiðja í desember þar sem dæturnar munu sitja við og föndra jóladót, jólakort, perla jólaskraut og gera jólagjafir. Jebb. Heimagerðar jólagjafir eru algjörlega málið. Ég er byrjuð að skreyta og ligg á netinu að skoða jólaskraut og óska þess að ég ynni í lottó eða eiginmaðurinn fengi veglegan jólabónus svo ég gæti gengið með þráhyggjuna skrefinu lengra!

10151857_10152925890202990_7261498319142513611_n_1250494.jpgDæturnar komnar með aðventudagatal og eiginmaðurinn líka. Splæsti rándýru Johan Bulow dagatali á hann (ok, ég keypti það handa mér en sagði honum með rómantískri röddu að ég hefði keypt þetta handa honum). Og svo erum við svo heppin hérna í Ameríkunni að nú höldum við jól með tvennum hætti. Fyrst, hin hefðbundnu íslensku jól. Skyrgámur, Stúfur, Stekkjastaur og allir hinir sönnuðu sig með prýði í fyrra og rötuðu hingað alla leið með skógjafir og ekki á ég von á að raunin verði önnur í ár. Og klukkan 6 á aðfangadag munum við setjast niður og borða jólamatinn og opna svo loks jólagjafirnar. En svo fáum við bónus jól að morgni 25. desember því ég er viss um að herra Santa Claus viti nú af veru okkar hér í Kaliforníu og því munum við samviskusamlega hengja upp jólasokkanna og ég yrði hissa ef við myndum ekki fá glaðning frá honum líka. Ég þarf fyrst að finna út úr því hvernig maður föndrar svona jólasokka, er það ekki annars það sem maður gerir? Læt ekki á mig fá að ég var eina barnið sem féll í handavinnu í Hagaskóla og held ótrauð áfram með hugmyndir mínar um eigin handlagni.

Stelpurnar sitja nú og horfa á jólamyndir, við höfum nú þegar horft á Home Alone 1 og 2 og Miracle on 34th Street. Elf, Home Alone 3 (ég veit, hún er verst), Grinch og ýmislegt fleira eftir á listanum fyrir bíókvöldin og hér mun ekkert óma nema jólalög, oftast væntanlega Jólahjól því það er eins og við vitum langbesta jólalagið.

1970356_10152917812762990_5075935553588704473_n.jpgSvo eru það jólaviðburðirnir. Dagatalið okkar er orðið yfirfullt af slíku. Við reyndar misstum af einum risa viðburði í gær vegna gubbupestar sem herjaði á alla fjölskyldumeðlimi (kom eins og kölluð samt, svaka grennandi og nú hlýt ég að komast í kjólinn fyrir jólin!) en ég er búin að finna annan viðburð til að njóta í dag. Á RODEO drive. Í alvöru, það getur varla orðið betra. Þar verða bæði Jóli og Jóla og gervisnjór og jólaskraut og mögulega, eftir myrkur get ég farið í peysu og sötrað heitt kakó án þess að svitna óhóflega. Svo á morgun er það hin fræga Hollywood Christmas Parade. Um næstu helgi keyrum við upp í fjöll og eyðum helgi í kaldara loftslagi þar sem búið er að lofa snjó, hvort sem hann er ekta eða gervi, skiptir engu, svo er það risa jólapartýið sem við erum búin að blása til, jólaskreytt skip á kanölum og ég veit ekki hvað og hvað.

Best að fara að kveikja á aðventukrönsunum. Já, þið heyrðuð rétt. Fleirtala. Einn er bara fyrir aumingja, tveir eru fyrir jólastjörnur eins og mig!

Sif Jóhannsdóttir

Sif Jóhannsdóttir

Sif Jóhannsdóttir er 34 ára húsfrú í Los Angeles þótt hún verði alltaf Vesturbæingur í hjarta sínu. Í fyrra lífi starfaði hún hjá Forlaginu sem verkefnastjóri útgáfu enda eru bækur hennar helsta áhugamál. Nú sinnir hún dætrunum tveimur og heimilinu í fullu starfi í sól og sumaryl. Nýja starfið er ansi krefjandi sem veldur því að hún lætur sig stöðugt dreyma um starfsframa, nám eða hvað sem er utan heimilis. Hún byrjaði að blogga í aðdraganda flutninganna til að halda utan um þær breytingar sem voru að eiga sér stað í lífi hennar.

Meira