Snerting. Svo mikill partur af lífi manns. En ég hafði ekki áttað mig á því að það er fjöldinn allur af fólki sem fær litla sem enga snertingu í sínu daglega lífi. Ekki eitthvað sem ég þarf að velta mikið fyrir mér, ég er búin að vera í sambandi síðan ég var rétt rúmlega tvítug og eftir fjórtán ára samband nýt ég þess ennþá að leiða hann um götur bæjarins og knúsa hann daglega. Ormarnir mínir tveir eru stanslaus uppspretta snertingar, stundum einum of og þess utan á ég yndislega vini sem knúsa mig oft og reglulega. Raunar fer ég kannski í þveröfuga átt og nýt þess þegar ég get haft mitt persónulega rými út af fyrir mig en ekki deilt með hinum og þessum. En auðvitað eru margir sem eiga ekki maka eða börn eða beinlínis óttast snertingu. Það er víst líka til í dæminu nefninlega, að vilja ekki undir neinum kringumstæðum láta koma við sig.
Ég hafði lítið velt þessum málum fyrir mér þar til nýverið þegar mér barst boð í partý. Ekki í frásögur færandi öllu jafnan að fá event invite á Facebook, er það? Nema hvað. Boðið hljómaði undarlega. Mjög undarlega. Yfirskriftin var "Kúrpartý fyrir stelpur eingöngu" og innihaldslýsingin boðaði nuddlest (massage train, þú færð nudd og nuddar annan á meðan og svo koll af kolli), Dog pile (vissi ekki hvað þetta var þegar ég fékk boðið en það þýðir að liggja í einni kúrukös á dýnu/gólfi/rúmi, svona eins og litlir hvolpar, knús, kúr, koddaslagur (einmitt) og ýmislegt fleira sem ég átti erfitt með að skilja. Partýið var boðað á föstudagskvöldi og fólk hvatt til að koma í þægilegum fötum, jafnvel náttfötum og muna að boðið væri áfengislaust! Akkúrat það já. Mín fyrstu viðbrögð voru að sjálfsögðu að afþakka þetta stórfurðulega boð, jafnvel þó ég væri forvitin. En þá var rifjað upp fyrir mér áramótaheitið um að segja oftar já en nei og svo voru allir svo svakalega forvitnir sem ég sagði frá og vildu að ég færi í rannsóknarskyni fyrir aðra. Ég smellti á "join" og verð að viðurkenna að því fylgdi hnútur í maga. Hvert var ég eiginlega að fara? Var þetta lesbísk orgía í dulargervi? Hvað ef fólk vildi ólmt vera að þukla á mér allri gegn vilja mínum, gæti ég staðið með sjálfri mér eða yrði þetta eins og þegar ég byrjaði að reykja í gamla daga til að þóknast öðrum?
Sem betur fer tókst mér að sannfæra tvær vinkonur um að fylgja mér, það er styrkur í hópnum sjáiði til. Á föstudagskvöldi, ómáluð og klædd í joggara lögðum við í hann. Gengum inn í notalega íbúð í Vesturbæ Los Angeles. Inni var kósý. Dýnur, koddar og teppi þöktu stofuna alla. Þarna voru milli 15 og 20 konur, allar undir fertugu sem þekktu gestgjafann úr ýmsum áttum. Gestgjafinn hafði verið áður í svona partýi en við hinar óreyndar og margar hverjar stressaðar. Gestgjafinn setti okkur niður í hring, ímyndið ykkur svona stuðningshópsfíling og byrjaði á að leggja grunnreglur kvöldsins. Og þá svitnaði ég all verulega. Hvar í skrattanum var ég lent? Grunnreglurnar voru þessar: Kvöldið allt ætti að vera það sem við í Ameríkunni köllum G rated, sumsé við hæfi barna. Það þýddi að öll snerting þyrfti að vera við hæfi barna, ekki mátt snerta líkama á bikinisvæði, kossar bannaðir og það sem fríkaði mig endanlega út var viðvörun um að ef að við fyndum fyrir kynferðislegri örvun þá ættum við að draga okkur í hlé meðan við jöfnuðum okkur. Þarna fór ég í algjört panikk og fullvissaði mig um að útidyrahurðin væri á sínum stað. Einnig varð að spyrja leyfis áður en snerting hófst og við æfðum okkur í að segja nei takk við slíkum boðum ef okkur líkaði ekki hugmyndin sem lögð var fram. Við deildum svo grunn upplýsingum um okkur, hvernig við þekktum gestgjafann, hvað við vonuðumst eftir að upplifa þetta kvöld, hvað við óttuðumst og eitthvað í þeim anda og gerðum svo hópstyrkjandi æfingar, knúsuðum hver aðra (bara svona snöggt faðmlag) og eitt og annað. Svo var kvöldið gefið frjálst, frjáls snerting mátti nú fara fram innan rammans sem settur hafði verið.
Sjitt. Hvað gerir kona þá? Forvitni var það sem rak mig af stað í þetta partý og nú óttaðist ég að færi fyrir mér eins og kettinum og ég myndi drepast á staðnum. En svo fór ég bara að kjafta við konurnar. Ótrúlegur hópur kvenna, allar úr ólíkum áttum með ólíkan bakgrunn. Og þannig eyddi ég kvöldinu. Í að kynnast konum sem ég hefði annars ekki hitt. Og allt án þess að snerta nokkra þeirra. Kom í ljós að mig langaði ekki til að snerta neinn. Ég var fullkomlega sátt við að sitja þarna og kjafta. Það góða var að það var fullkomlega í lagi, engin neyddur til neins sem hann vildi ekki. En að sama skapi truflaði það mig ekki neitt að einhverjar þarna vildu snertingu, þráðu hana beinlínis og óskuðu eftir henni, ég sagði bara nei takk. Þá rifjaðist upp fyrir mér vinahópurinn sem ég tilheyrði í kringum fermingaraldurinn. Við lágum oft í faðmlögum og knúsuðumst heilmikið, allt án þess að því tilheyrði einhver kynferðisleg spenna eða krafa. Og þegar maður eldist þá hættir maður að kúra með öðrum en maka sínum. Kannski eðlilega. Kannski ekki. Snerting er orðin svo mikið tabú. Svo mjög að kennarar mega ekki taka utan um nemendur sína og gengur svo langt hér í Ameríkunni að í sumum skólum mega börn (krakkar frá 5 ára aldri) ekki faðmast á skólalóðinni. Allir svo hræddir um lögsóknir hingað og þangað að það þarf að banna alla vinalega snertingu. Og mitt í þessari snertingarfóbíu er stórborgin búin að finna lausn með þessum knúspartýum.
Ég fór heim þetta kvöld ansi hugsi. Knúsaði vinkonurnar mínar í bak og fyrir þegar ég kvaddi þær, knúsaði eiginmanninn þegar ég kom heim og kyssti sofandi dæturnar á ennið. Ég er sko ekki með neina snertingarfóbíu, ég er bara lítið fyrir að snerta ókunnuga. Enn sem komið er allavegana. Því næsta kúrupartý er þegar í sjónmáli og ég verð fyrst til að "joina" þann viðburð. Mögulega hendi ég mér beint í "dog-pile" þegar þangað er komið og sit svo föst í nuddlestinni það sem eftir lifir kvölds. Er þetta ekki einmitt það sem vantar á skerið? Ég legg til að byrja á að halda stjórnmálaknúspartý. Fá Framsókn, Sjálfstæðisflokk, VG og Samfylkingu saman í eitt gott kúrpartý, ég meina ástandið getur varla versnað við það?