Ég var eitt sinn þekkt meðal vina minna og fjölskyldu fyrir afbragðs gott minni og skipulagshæfileika. Minnið var gæfa mín og bölvun, ég mundi hvert einasta smáatriði sem gat komið sér vel. Til dæmis þegar ég var að rífast við kærastann sem hefur alltaf þjáðst af minnisleysi, ég gat rakið ofan í hann málavexti langt aftur í tímann og hann þurfti bara að kyngja því sem ég sagði, greyið mundi ekkert en ég allt. Þannig gat ég oftar en ekki snúið hlutunum mér í hag. En stundum, þegar mig virkilega langaði til að geta gleymt einhverju eins og vandræðalegu augnabliki, leiðinlegu samtali eða öðru slíku, þá var það ekki í boði og því segi ég að minnið hafi líka verið bölvun mín. Ég sat uppi með minningarnar, góðar og slæmar.
Svo gerðist það að ég varð ólétt. Þið hafið öll heyrt talað um brjóstaþokuna góðu og lélegt minni kvenna með börn á brjósti. Ég varð fórnarlamb þess. Það gerðist trekk í trekk í fyrsta fæðingarorlofinu að ég mætti, sjálf eða með litlu fjölskylduna á rangan stað eða á röngum tíma. Ófá skiptin sem ég stóð í móttökunni í ungbarnaeftirlitinu og staðhæfði að ég ætti bókaðan tíma og varð svo að éta það ofan í mig aftur þegar ég skoðaði málið nánar. Ég vann örlitla fjarvinnu í fæðingarorlofinu, meðal annars við að bóka fundi á ráðstefnu fyrir karl föður minn. Hann hringdi svo reglulega þar sem hann stóð einhversstaðar samkvæmt planinu frá mér en enginn til að hitta hann, fundurinn ýmist liðinn eða hann langt á undan áætlun. Skipulagshæfileikarnir ásamt minninu gufuðu bara upp, ég var orðin óskipulögð og gleymin. Við skrifuðum þetta á brjóstaþokuna og ég gerði ráð fyrir að þetta væri tímabundið. En hér er ég enn. Næstum sex árum síðar. Og sendi enn fólk á rangan stað eða með vitlausar tímasetningar og get treyst því að ef ég skrifa það ekki hjá mér (gleymi því oftast) þá týnist það í gleymskunnar dá.
Fyrir tveimur mánuðum bókaði ég okkur hjónin á uppistand með æskuhetjum eiginmannsins, þeim Jay og Silent Bob. Viðburðurinn var staðsettur á einhverju sem var kallað Brea Improv og á einhverri Brea götu. Þetta hljómaði dável. La Brea gatan er hérna rétt hjá mér, í vondri umferð værum við 30 mínútur á staðinn en á laugardagseftirmiðdegi kannski 20 mínútur. Í vikunni sem leið fór ég svo að undirbúa þetta allt saman, staðfesta barnapíuna og fara yfir tölfræðina, hvenær þyrfti pían að mæta til að við kæmumst á réttum tíma og svona. Henti þessu öllu upp í Google Maps til þess eins að komast að því að viðburðurinn var bara alls ekki í Los Angeles. Hann var á Brea götu já. En það var í bænum Brea í Orange County. 70 km frá okkur. Sem hljómar ekki hræðilega. En bættu við umferðaröngþveitinu sem umlykur okkur og þá ertu kominn með 2 tíma í akstur, HVORA LEIÐ! Og barnapían á 15 dollara klukkutímann, það gerir 60 dollara bara fyrir það að komast á staðinn og af honum og þá á ég eftir að hlusta á klúra brandara þeirra Jay og Bob í tvo tíma. Fokk! Jæja. Við létum okkur hafa það. Keyrðum heila eilfíð, hlustuðum á Jay tala um vandræðaleg móment í kynlífinu, dópið og nýja barnið og komumst svo heil heim.
Nema hvað. Í gær átti ég stefnumót við tvær æðislegar konur og botnlausar mímósur á veitingastað hér í borg. Eiginmaðurinn bauðst til að taka dæturnar og fara með þær í barnaafmælið sem var bókað í dagskránna okkar fyrir einhverjum vikum síðan. Við byrjuðum daginn á að versla afmælisgjöfina, dæturnar skrifuðu á kort og voru frekar spenntar að komast í þetta afmæli enda von á góðri skemmtun. Ég sat áhyggjulaus á meðan með mímósuna mína. Svo hringdi elskan úr garðinum þar sem afmælið var. Bað mig fallega um að líta aðeins betur á boðið sem ég fékk í tölvupósti, hann væri nýbúinn að ryðjast inn í eitthvað afmæli en þar væri ókunnugt barn og allir hefðu horft undarlega á hann. Ég lagði á og skoðaði málið nánar. Hann var á réttum stað á réttum tíma, en auðvitað á röngum degi. Þarna var hann mættur galvaskur með börnin viku á undan áætlun.
Sem betur fer er ég vel gift, eiginmaðurinn hefur töluvert meira af þolinmæðinni en ég. Ég hefði auðvitað öskrað í símtólið hefði ég verið hans megin. En hann kvaddi mig ljúflega og tæklaði vonbrigði barnanna með glæsibrag.
Og ég veit alveg hvað þið ætlið að segja. Afhverju tvítékkarðu ekki hlutina fyrst þú ert svona? Og það eina sem ég hef að segja við því er “AF ÞVÍ ÉG GLEYMDI ÞVÍ!”