c

Pistlar:

23. apríl 2015 kl. 20:36

Sif Jóhannsdóttir (gullrikid.blog.is)

Fögnum fjölbreytileikanum!

674cba6dca7fe22e1254db64bc4668f3Frá því ég man eftir mér hef ég átt í baráttu við sjálfið mitt. Fundist ég ekki nógu góð, ekki nógu sæt, ekki nógu mjó, ekki nógu klár, bara alltaf „ekki nógu“! Lengi vel eyddi ég tíma í að velta mér upp úr vanköntum mínum í stað þess að fagna því góða í fari mínu og leyfa mér að njóta þess einfaldlega að vera ég sjálf. Ég hef, eins og flestar konur, misþyrmt mér í þeim tilgangi að líta betur út, sem betur fer án þess að hljóta af því alvarlegan skaða. Fyrir ferminguna ákvað ég að hvíti kyrtillinn passaði betur við sólbrúnt hörund en minn hrímhvíta lit. Ég heimsótti því í ófá skipti ljósabekkinn í Vesturbæjarlauginni en það eina sem ég hafði upp úr krafsinu var sólbrunninn rass. Ég fór í svona rafstuðstæki sem átti að gera mig mjórri, tók Herbalife með trompi, svelti mig, gekk á skóm sem mig verkjaði undan, plokkaði, litaði og svitnaði, allt í nafni þess að vera einhver önnur en ég er.

Samfélagið rembist við að troða upp á okkur lausnum til að losa okkur undan göllum okkar og hamast við að fella okkur öll í sama formið. Feitt fólk sætir ofsóknum og umræðan einkennist af fordómum og mannhatri í stað þess að byggja á ást og að kenna okkur að elska okkur eins og við erum. Líkamsvirðing væntanlega betur til þess fallin að hjálpa fólki eins og mér í stað þess að suða stöðugt um það hve mikill baggi ég er á heilbrigðiskerfinu.

Ég á tvær ungar dætur. Samfélagið hefur enn ekki náð að læsa klónum í þær og segja þeim að þær séu ekki nógu góðar. Önnur er svolítið búttuð og hin ógurlega grönn, líklegast að báðar yrðu þær fórnarlömb þeirra sem þola ekki að við séum ekki öll eins, annarri sagt að hún sé of feit og hinni að hún sé of mjó, það á enginn séns í að vera til þessa dagana! En ég hef miklar áhyggjur fyrir þeirra hönd. Það sem ég óska þeim er að þeim líði vel í eigin skinni og að enginn muni telja þeim trú um að þær séu „ekki nógu“ eitthvað, hvað svo sem það kann að vera.

En það er erfitt að halda í vonina þegar að fylgst er með fréttum.

Óteljandi stúlkur taka nú þátt í áskorun í nafni Kylie Jenner (einni af Kardashian- klaninu) til þess að fá þrútnar varir. Þær nota flöskustút sem þær troða vörunum inn í og halda þeim þannig í 30 mínútur eða lengur. Niðurstaðan eru bólgnar og marðar varir sem þeim virðast fallegar, en eins og með svo margt er þetta ekki hættulaust. Dæmi eru um alvarlegan og varanlega skaða af þessari tilraun en þrátt fyrir aðvaranir bætast stöðugt við myndir af stúlkum með þrútinn stút á vörunum. Kylie Jenner kom seint og um síðir opinberlega fram og sagði stúlkum að þær ættu ekki að reyna að líkja eftir neinum heldur að vera þær sjálfar en það var of seint, faraldurinn fer um netheima eins og eldur um sinu.

Svo er það hin 21 árs gamla Eloise Perry sem lét lífið eftir að hafa tekið inn eitraðar megrunarpillur keyptar á netinu. Hún tók langt umfram banvæna skammtinn og brann upp innan frá meðan læknarnir stóðu ráðalausir hjá. Hún ætlaði bara að skafa af sér einhver kíló, kannski sagði henni einhver að hún væri of feit, kannski voru gallabuxurnar of þröngar þennan morguninn eða hún hafði áhyggjur af því að komast í kjólinn fyrir jólin.

Allt þetta á meðan Bjarnheiður er í stofnfrumumeðferð á Indlandi eftir að hafa svelt sig nánast í hel, svo mjög að hún fékk hjartastopp og endaði lömuð í hjólastól.

Allt er þetta gert í nafni fegurðarinnar, einhverra staðla sem þröngvað er upp á okkur og sem við, venjulegt fólk, eigum aldrei séns í, enda ekki með endalausa uppsprettu fjármagns sem má nýta í fegrunaraðgerðir og myndvinnsluforrit til að hreinsa upp það sem ekki mátti laga með hníf.

Og svo er það söngkonan Jamelia í Bretlandi sem hafði það að segja um feitabollurnar að það ætti að hætta að selja föt fyrir þær á Oxfordstræti því það myndi bara hvetja þær til að vera feitar áfram í stað þess að fara í megrun. Skömmin myndi reka þær af stað því þegar að þær ættu bókstaflega ekkert nema sorpsekk til að fara í. Akkúrat. Því það er þetta með skömmina, hún er öflugt verkfæri í höndum þeirra sem hata, vopn sem hægt er að beina að svo gott sem hverjum sem er.

Það þurfti það til að ég eignaðist dætur mínar til að ég tæki sjálfa mig í sátt. Ég uppgötvaði þá að það mikilvægasta sem ég gæti kennt þeim væri að líða vel í eigin skinni, elska sjálfar sig. Ég veit nú að lífshamingja mín veltur ekki á tölunni á vigtinni eða andlitinu í speglinum. Lífið er núna. Ekki þegar ég er búin að missa x mörg kíló. Og ég ligg á bæn um að mér takist að telja dætrum mínum trú um það sama. Mín ósk til þeirra er sú að þeim haldi áfram að líða vel í eigin líkama og að öðrum takist ekki að þröngva upp á þær skoðunum sínum um hvernig við eigum að líta út. Að aðrir nýti sér ekki útlit þeirra til að gera lítið úr þeim, draga úr þeim lífsgleðina og kraftinn. Kennum börnunum okkar að elska sig og aðra og að koma fram við fólk af virðingu og ást. Fögnum fjölbreytileikanum, mikið væri lífið leiðinlegt ef við litum öll út eins og Kylie Jenner!

Sif Jóhannsdóttir

Sif Jóhannsdóttir

Sif Jóhannsdóttir er 34 ára húsfrú í Los Angeles þótt hún verði alltaf Vesturbæingur í hjarta sínu. Í fyrra lífi starfaði hún hjá Forlaginu sem verkefnastjóri útgáfu enda eru bækur hennar helsta áhugamál. Nú sinnir hún dætrunum tveimur og heimilinu í fullu starfi í sól og sumaryl. Nýja starfið er ansi krefjandi sem veldur því að hún lætur sig stöðugt dreyma um starfsframa, nám eða hvað sem er utan heimilis. Hún byrjaði að blogga í aðdraganda flutninganna til að halda utan um þær breytingar sem voru að eiga sér stað í lífi hennar.

Meira