28 stiga hiti og 92% raki. Svitinn lekur niður bakið á mér og niður í rassaskoruna. Því það er sexí! Já, ég er komin heim til Santa Monica, eftir að hafa farið heim til Íslands. Nú eru tveir staðir sem kallast "heima". Mánuður á Íslandi var yndislegur og erfiður. Alltaf bæði. Yndislegt að vera með fólkinu sínu. Erfitt að átta sig á að tíminn stendur ekki stað. Líf annarra hélt áfram þrátt fyrir fjarveru mína. Yndislegt að vera heima en erfitt að vera ekki heima hjá sér.
En ég er úrvinda eftir þetta frí og þyrfti helst að fara í frí frá börnunum núna. Mánuður með börn í ferðatösku og engri rútínu. Þær áttuðu sig illa á miðnætursólinni og stöðugri birtunni og sofnuðu aldrei fyrr en undir miðnætti. Báðar komnar á þann aldur að hver einasti hlutur vekur upp spurningu, þetta var eins og að vera í endalausum hraðaspurningum í Gettu Betur! Afhverju ertu í þessum skóm mamma? Afhverju er ekki dimmt á Íslandi? Afhverju búum við ekki hér? Afhverju, afhverju, afhverju? Þær voru eins og rassálfarnir í Ronju ræningjadóttur á spítti. Dreptu mig! Ekki bætti úr skák að ísátið stigmagnaðist eftir því sem leið á ferðina og einn daginn var ís í morgunmat, hádegismat og kvöldmat. Yfirleitt hef ég dregið línuna við einn á dag en þann daginn var búið að vefja ömmunni um puttann á sér og spila á alla tilfinningastrengi hennar með gráti og drama sem skilaði sér með þessum hætti.
Við þeyttumst landshorna á milli, keyrðum yfir einbreiðar brýr og í gegnum einbreið göng. Hentumst í sund og á besta veitingastað Reykjavíkur, Bæjarins bestu. Tróðum okkur út af hvítlauks naan á Austur Indía og lifðum fyrir ísinn í Ísbúð Vesturbæjar (þessi blogg póstur er ekki styrktur, ég eyddi öllum íslensku krónunum mínum í dýrðina!). Við drukkum íslenskt vatn beint úr krananum og dáðumst að ofgnótt vatnsins á Íslandi, komandi frá þurrkasvæðinu LA þar sem vatn er skammtað, meira að segja í sturtunni.
Við borðuðum lambakjöt og plokkfisk með bestu lyst, rúgbrauð með þykku lagi af íslensku smjöri. Hjartað barðist í brjósti mér af stolti yfir íslenska fánanum á 17. júní og allt kveikti minningar barnæskunnar. Sigmundur hefði verið stoltur af okkur. Við vorum næstum búin að sækja um vinnu í Áburðarverksmiðju, svona þar til við áttuðum okkur á grimmilegum raunveruleikanum. Verðbólgan upp á sitt besta, húsnæðisverð í hámarki, heilbrigðiskerfið lamað og skammsýnin ráðandi í einu og öllu. Og það versta? Auðmenn á þingi talandi um hvernig ungir sem aldnir ættu bara að æfa sig í að fara betur með peningana sína.
Og svo fórum við heim. Erfiðar kveðjustundir, ótti við að sumar yrðu þær síðustu, að einhverjir yrðu horfnir á braut þegar næst yrði flogið heim. Svo skrítið hvernig algjörlega andstæðar tilfinningar héldust í hendi alla ferðina og enduðu á þeim nótum líka. En svo mundi ég það sem mamma segir: "Gleði og sorg eru systur sem haldast í hendur" og einhvern veginn á það svo vel við um tilfinningar mínar núna. En skrambi var nú fínt þegar dæturnar sofnuðu upp úr 8 í gær, í töluvert betra jafnvægi eftir ferð í amerískan súpermarkað þar sem við keyptum fjall af sumarávöxtum sem þær borðuðu í stað ísa og nammis.
Þar til næst elsku Ísland, plís ekki verða orðið að einni skítahrúgu eftir ferðamennina.