Þegar ég bjó á Íslandinu fagra átti ég mér minn eigin verndarengil. Konu sem var fyrir mér eins og álfkonan góða í Öskubusku. Hún birtist heima hjá mér vikulega og breytti svínastíu í paradís. Já, ég var með konu sem þreif heima hjá mér vikulega og ég skammast mín ekkert fyrir það. Þvílík himinsæla sem slík fjárfesting er. Þetta byrjaði allt eftir að ég fór að vinna eftir fyrra fæðingarorlofið því ég kaus að eyða helgunum með gullorminum frekar en að þrífa. Sá aldrei eftir aurnum og hugsaði oft að ég myndi frekar lifa á pasta en að hætta með húshjálp.
Eftir flutningana hef ég hinsvegar ekki komið mér aftur að því að fá húshjálp. Að hluta til vegna þess að reka heimili á einum launum þó góð séu gefur kannski ekki mikið fjárhagslegt svigrúm. Það svigrúm sem við höfum fer í "lúxusinn" leikskóla fyrir yngra afkvæmið enda verður geðheilsa mín seint metin til fjár. En ég er farin að hallast frekar að því að þetta sé húsmóðursamviskubitið sem ég þjáist af. Ég er þegar að taka stóran hluta af launum sem ég vinn mér ekki inn fyrir í að borga leikskólaplássið, á ég þá skilið húshjálp líka? Og ég sem hef engar tekjur? En er hægt að vera heimavinnandi húsmóðir og ekki með heimilshjálp? Horfið bara á Mad men þættina, þær voru allar með hjálp. Enda eyðileggur maður ekki góða handsnyrtinguna með því að setja hendi ofan í skúringarvatn. Og jeremías hvað ég sakna álfkonunnar minnar góðu. Ætli hún vilji flytja til LA?
Allavegana. Í dag þreif ég mér til óbóta. Mér er illt í hægri handleggnum af því að hamast við að skúra, skrúbba og bóna. Hamagangurinn var slíkur að ég brenndi fleiri kaloríum en ég hefði gert í sexí spinning með Sveini Andra. Svitinn bókstaflega lak af enninu á mér. En það sér ekki högg á vatni. Kámugir veggir eftir putta sem þurfa að snerta ALLT ALLTAF,
kattahársflygsur, tómatsósa og skítur. Bitur og tuðandi ásaka ég eiginmanninn um að hafa ekki sinnt heimilisverkunum sem skildi og bendi honum á fingraförin á veggjunum. Sár segir hann mér að hann hafi gert allt til að ná þessu af en ekkert gengið. Ég bendi honum þá á töfrasvampinn sem sérstaklega er ætlaður til verksins sem hann segist hafa fullreynt en ekki virkað. Spyr svo álkulega hvort það eigi kannski að bleyta svampinn áður en hafist er handa???!! Ég hefði getað öskrað. En í staðinn settist ég niður og skrifaði þennan póst.
Takk fyrir að bjarga hjónabandinu mínu internet. Ef það væri ekki fyrir þig þá væri ég mögulega búin að ganga berserksgang!