Ég man ekki eftir því að hafa fengið lús sem krakki en gleymi því seint þegar ég fékk hana eftir þrítugt. Dæturnar komu með þær heim af leikskólanum, svona eins og við tökum með okkur verkefni úr vinnunni. Ég taldi að við værum ónæm fyrir svona pöddufaraldri, klassískt „þetta kemur aldrei fyrir mig“ heilkenni. Góð vinkona var búin að kemba sig og börnin sköllótt eftir að þau byrjuðu á leikskóla, þar sem óhjákvæmilegur fylgifiskur er hótunarpóstar um lýs sem uppgötvast höfðu þann daginn eða hinn. Hún skammaði mig reglulega fyrir kæruleysi mitt og hló sig svo máttlausa þegar við iðuðum öll af hlaupandi pöddum. Gott „ég sagði þér það“ móment fyrir hana. Á Íslandi hoppar maður bara út í apótek. Kaupir sér eitthvað lúsasjampó, þvær liðið og kembir og málið er dautt.
Auðvitað er það ekki svo gott hér í Ameríku.
Fyrsti viðvörunarpósturinn um lús á leikskólanum barst á mánudegi. Við skimuðum barnið í fljótheitum, sáum ekkert, vorum með barnapíu á leið í partý, og ég var aftur orðin veik af „þetta kemur ekki fyrir mig“. Á þriðjudagsmorgni fáum við meldingu um að leikskólinn vilji taka á lúsarmálinu af hörku, búið sé að boða til fagfólk í lúsarleitun og við munum fá að vita ef eitthvað leynist í kolli barnanna okkar. Ég var að sjálfsögðu sallaróleg þar til símanúmer leikskólans birtist á símaskjánnum hjá mér upp úr 10 þann morgun. Dómuri fallinn, leitarkonan fann nit, barnið þurfti að sækja hið snarasta.
Ókei, staðlað dæmi hugsa ég, apótek, kemba og málið dautt. Nei, auðvitað ekki. Mér var afhentur miði með upplýsingum um fagfólkið og sagt af leikskólastarfsmönnum að ég þyrfti að meðhöndla barnið, fara svo með það til fagfólksins og fá staðfest að við værum lúsarlaus. Það þyrfti skriflega staðfestingu frá þeim til að barninu yrði hleypt aftur í skólann. Einmitt. Til boða stóð að láta fagfólkið um að hreinsa hausinn á barninu, fyrir litlar 12 þúsund krónur á klukkustund. Áætlaður kostnaður við hausinn á orminum um 18-20 þúsund krónur í hreinsun. Nei takk sagði hagsýna húsmóðirin þá. Ég bókaði tíma í skann til að fá viðurkenningu um að mér hefði tekist að losna við pödduna en rauk svo út í apótek. Þar eyddi ég 8 þúsund krónum í allar þær tegundir af kömbum sem fundust og tvær tegundir af sjampói. Passaði mig á að kaupa eitthvað ægilega fínt sjampó og fékk svo þau ráð að lúsin hér væri eins og sú íslenska á sterum, það þyrfti miklar aðgerðir til að ná henni og það þyrfti að þvo allt hátt og lágt og spreyja með sérstöku spreyji það sem ekki var hægt að þvo. Hah sagði ég, glætan að einhver amerísk aumingjalús sé sterkari en víkingalúsin. Svo tóku við tvær klukkustundir þar sem ég setti allskonar í hárið á barninu og kembdi og kembdi og kembdi. Tók svo tvo kembingarrúnta í viðbót just in case. Þvoði 10 þvottavélar þann daginn, rúmföt okkar allra, allt sem höfuð barnsins gat hafa snert svo sem mjúka bangsa, kodda í sófum og svo mætti lengi telja.
Þá þurfti að aka til fagfólksins eftir viðurkenningarskjalinu. Auðvitað, þegar maður býr í LA, þá er ekkert í næsta nágrenni. Þetta var eins og að keyra til Selfoss nema bíll við bíl alla leiðina. Með börn í aftursætinu sem voru krumpuð eftir kembingar. Móðirin var komin við hættumörk í geðillsku þegar rannsóknin hófst hjá fagfólkinu og dómurinn var ekki lengi að falla. Enn fundust nit í hárinu sem þýddi að ég þurfti að rífa upp veskið. Lokatala dagsins var að ég eyddi 30 þúsund fokking krónum í lús á einum degi. Fyrir einhverja lífræna lúsarmeðferð hjá fagmanneskju með 11 ára reynslu í lúsarleitun!!!!! Fyrir utan 2 klukkustundir heima með kambinnn, klukkutíma í bílnum hvora leið og yfir klukkustund með sérhæfða fólkinu. Sem betur fer dugðu aurarnir fyrir viðurkenningarskjalinu og barnið fór í leikskólann daginn eftir. Og við borðuðum pasta það sem eftir lifði mánaðar. Ég get víst hrósað happi, önnur mamma á leikskólanum var svo óheppin að lúsin hafði dreift sér á alla fjölskylduna meðan litlan mín var ein með þetta hér á heimilinu. Hún hafði því borgað hátt í 100 þúsund þegar yfir lauk í meðferðir og krem og sprey og hvað þetta heitir ekki.
Það er ljóst að ameríska lúsin er ekki á sterum, en hún er sennilega íklædd gucci og prada því dýrari lús getur varla fundist? Er það?
Jákvæði punkturinn í þessu? Tja, ef ég flyt aftur til Íslands þá er ég með skothelda viðskiptahugmynd. Opna mína eigin lúsaleitunarstofu. Verst hvað ég held að ég væri alltaf með blóðugan hársvörð því ég má ekki heyra orðið lús án þess að mig klæji.
Hversu oft klóraðir þú þér í hausnum meðan þú last þetta? Einmitt!