Þessi morgun var hlaðinn amerískum staðalímyndum. Einu sinni í mánuði er í skóla stórunnar minnar haldin útisamkoma með foreldrum og börnum. Einhverjir krakkar sýna listir sínar, dregið er úr gulum miðum sem krakkarnir fá fyrir framúrskarandi hegðun í skólanum og þau mynduð til að markera áfangann og svo óhjákvæmilega er fánanum sýnd tilskyld hollusta og þjóðsöngurinn sunginn af ungri stúlku með brostinni röddu enda lagið til þess gert að raddir brotni á hæstu tónum.
En í dag tók steininn úr.
Viðburðurinn byrjaði á klappstýruliði skólans, nýjung sem tekin var upp á þessu ári og flestum finnst til stórkostlegra bóta. Þetta eru krakkar á aldrinum 5-10 ára, svo það sé á hreinu. Það var haldið inngöngupróf fyrir þessu litlu grey þar sem þau þurftu að sýna að þau hefðu það sem þarf til að fá að vera klappstýra. Aftur, þetta eru 5-10 ára gamlir krakkar, á ekki að leyfa öllum að vera með sem það vilja? Þau sýndu listir sýnar í klappstýrubúningum sem líta út eins og klæðnaður starfsstúlknanna á Hooters, hoppuðu, skoppuðu og á tímum fettu sig og hristu eins og þau væru stödd í tónlistarmyndbandi. (Ég segi „þau“ vegna þess að það eru tveir drengir sem hafðir eru með til málamynda) Á þetta horfa dætur mínar og ég óttast það mjög að þeim kunni að þykja þetta eftirsóknarvert. Ég veit ekki hvort er verra, að þær þreyti inngönguprófið og komist inn eða þær þreyti það og komist ekki inn.
Svo kom að því að fánanum væri flaggað, börnin, foreldrar og kennarar stóðu upp, lögðu hönd á hjartastað og sóru fánanum og Bandaríkjunum hliðhollustu sína: „I pledge allegiance to the Flag of the United States of America, and to the Republic for which it stands, one Nation under God, indivisible, with liberty and justice for all.“ Eins gott að það standi þarna „under God“, því var bætt við árið 1954 og er auðvitað til stórkostlegra bóta (lesist með kaldhæðinni röddu). Þegar ég var í Landakotsskóla 1986 hófst hver dagur á því að við nemendurnir stæðum fyrir aftan stólinn okkar og færum með faðirvorið. En það var einkaskóli, ekki almenningsskóli, foreldrar mínir vissu að hverju þau gengu þegar þau settu mig þangað inn, höfðu val um hvort þau vildu að ég tæki þátt í slíkum gjörningi eða ekki.
Svo var það pínlegur söngur stúlkugreys þar sem rödd hennar brast aftur og aftur og aftur. Ég er bara of meðvirk fyrir þetta, í hvert sinn sem ég heyrði í hvað stefndi tók hjartað aukakipp og ég fann svo til með henni. Hvernig verður þetta ef mínar verða einhvern tímann settar í þetta hlutverk. Ætli það setji mig algjörlega á hliðina eða verð ég mögulega orðin nógu amerísk til að standa stolt á hliðarlínunni með vídeókameru í einni og ameríska fánann í hinni?
Eins og þetta hefði ekki verið nóg fyrir þennan morgun þá tók svo við frumflutningur á lagi sem einn faðir í skólanum hafði samið honum til handa, flutt í tvígang undir undirspili. Þetta hefði verið ágætt ef það hefði ekki verið fyrir „ameríska klappið“ sem þá upphófst. Ef þú veist ekki hvað „amerískt klapp“ er þá er bara að horfa á einhverja dramatíska, ameríska mynd. Það byrjar þannig að einn byrjar að klappa með dramatískum tilþrifum og svo tekur einn af öðrum undir þar til loks við sameinumst öll í klappinu. Þetta er staðalbúnaður á öllum sigurstundum í amerískum bíómyndum. Þannig að á meðan stúlkurnar tvær breimuðu í hljóðnemann slagorð skólans (sem er nú alveg ágætt) „be a friend, not a bully“ upphófst þetta svakalega væmna klapp og að lokum stóðum við þarna öll eins og klappandi hálfvitar (nema Íslendingarnir tveir sem horfðu illu og kaldhæðnu auga í kringum sig, eins andfélagsleg eins og hugsast getur).
Mér leið eins og Ameríka hefði ælt yfir mig eða eins og ég væri stödd í kvikmyndinni Alien og einhver vera hefði tekið sér bólstað í mér gegn vilja mínum. Hvað óttast ég mest? Að missa vitið, þ.e.a.s. að hætta að sjá þetta með mínum kaldhæðnu augum og fyllast einhverri undarlegri amerískri væmni þar sem ég fer að kunna að meta þetta í stað þess að gera grín að þessu og fyrirlíta þetta. Plís, ef þið verðið vör við slíkar breytingar í fari mínu, nenniði að koma að sækja mig? Þá er væntanlega orðið tímabært að fara í einhverskonar afvötnum, afameríkuvæðingu!