Ég hef nú oft sagt frá því bæði í ræðu og riti að þegar ég fermdist árið 1992 hafi ég fengið Íslendingasögurnar að gjöf frá foreldrum mínum. Það þótti að vonum nokkuð sérstakt að fjórtán ára gamall unglingur hefði svo brennandi áhuga á fornsögunum íslensku að hann væri tilbúinn að fórna því að fá hugsanlega hljómflutningsgræjur, rúm eða reiðhjól frá þeim sem stærstu gjafirnar gefa á tímamótum sem þessum. Ég var auðvitað svolítið skrýtinn krakki og allt það í jákvæðri merkingu þó, þannig að ég held að vinir mínir og jafnaldrar hafi nú ekkert kippt sér neitt sérstaklega upp við þessa sérvisku mína.
Það sem ég hef hins vegar ekki greint frá varðandi gjöf foreldra minna og opinbera því fyrst núna er að ég hef aldrei opnað þessar bækur, ekki lesið stafkrók í þeim. Ég las að vísu Gísla sögu Súrssonar í tíunda bekk eins og aðrir grunnskólanemar og Njálu í menntaskóla og hafði raunar gaman af en þessar sögur tvær las ég bara í kiljuformi fyrir skólafólk þannig að það er engu logið þegar ég segi að ég hafi ekki opnað Íslendingasögurnar sem ég fékk í fermingargjöf frá foreldrum mínu. Og hvers vegna í ósköpunum? Jú vegna þess að ég hef bara engan sérstakan áhuga á Íslendingasögum og hef sennilega aldrei haft. Og hví þá að biðja um þessa gjöf á sínum tíma? Jú vegna þess að mér fannst það gáfulegt, metnaðarfullt og öðruvísi og þannig vildi ég vera. Varð þessi gjöf þá til þess að auðga líf mitt? Nei ekkert sérstaklega, vegna þess að mig langaði ekki í hana frá hjartanu heldur frá höfðinu, mig langaði að vera sá eða sú sem læsi Íslendingasögur, helst þannig að aðrir vissu það. Og það er ekki fyrr en nú þegar ég er komin á fimmtugsaldur elsku krakkar að ég þori að viðurkenna þetta. Um leið og þetta er auðvitað pínulítið dramatískt þá gætu samt hugsanlega aðrir grætt á því, til dæmis þið sem eruð enn svo ung og eigið allt lífið framundan. Ég ákvað að standa hér í dag og viðurkenna þetta fyrir ykkur í votta viðurvist svo þið mynduð fjórtán ára gömul vita hvað það getur reynst mikið mál og flókið að vera maður sjálfur en um leið hvað það er ótrúlega mikilvægt, vegna þess að ef maður fer í gegnum allt lífið án þess að vera maður sjálfur, þá er maður ekki að lifa.
Hugmyndin að því að segja ykkur þetta kviknaði í viðtölunum við ykkur í vor þegar við vorum að fara yfir Boðorðin 10, Faðir vor og Trúarjátninguna. Þið munið kannski að í lok viðtalsins spurði ég ykkur hvert og eitt spurningarinnar hvers vegna þið ætluðuð að fermast hér í dag. Þess ber að geta að þið stóðuð ykkur mjög vel í þessum viðtölum og svöruðuð lokaspurningunni afar vel en ég minnist þess þó að hafa þurft að benda sumum ykkar á að svara henni frá hjartanu frekar en höfðinu, sum ykkar hélduð nefnilega að þið ættuð að gefa svar sem prestinum þóknaðist að heyra, horfðuð á mig íbyggin á svip, tilbúin að forma svarið eftir mínu höfði, fylgdust með samþykki í svip mínum og sum ykkar sögðu jafnvel „bíddu aðeins, ég er að hugsa...þetta er staðfesting á skírninni“ þar til að ég bað ykkur að svara bara eftir eigin sannfæringu. Þá var bæði fyndið og krúttlegt að sjá hvernig svipur ykkar breyttist um leið og slaknaði á andlitsdráttunum. Þá komu líka svo fín svör frá ykkur og eðlileg og kannski einmitt þá eftir allan veturinn í fræðslunni, fannst mér í raun ég kynnast ykkur betur. Sum ykkar sögðu „af því að ég trúi á Guð“ önnur „ af því að Jesús er flottur gaur“ enn önnur „ vegna þess að það er svo gaman að halda veislu og fá alla fjölskylduna saman“ og svo voru einhver ykkar sem sögðu „ eldri systkini mín fermdust og þau eru mínar fyrirmyndir.“ Ekkert eitt þessara svara er síðra en annað, öll þessi svör ykkar krakkar koma að kjarnanum: Guð, Jesús, veisla, fjölskylda, samvera og góðar fyrirmyndir, það er nákvæmlega það sem þetta snýst um. Hvaða merkingu hefur það að geta sagt hátíðlega að maður sé að staðfesta skírnina? Ég veit ekki einu sinni hvað það þýðir þrátt fyrir fimm ára háskólanám í guðfræði. En Guð, Jesús, fjölskylda, samvera og góðar fyrirmyndir, svörin sem komu þegar þið hættuð að rembast og töluðuð frá hjartanu, er nokkuð sem við getum öll skilið, tekið inn í líf okkar og ræktað hvern einasta dag.
Elsku fermingarbörn, það skiptir öllu máli að vera sannur og trúr sjálfum sér, aðeins þannig stuðlum við að hamingju okkar og þar með annarra. Ef þú hefur ekki áhuga á fótbolta, þá skaltu alls ekki vera að æfa fótbolta, jafnvel þótt vinir þínir geri það. Ef þú hefur meiri áhuga á því að vinna með höndum en sitja yfir fræðibókum skaltu fara í iðnnám, ef þér finnst flott að ganga í gömlum fötum af ömmu þinni skaltu absalút gera það, ef þig langar meira að semja ljóð en að vera á snapchat skaltu líka gera það en ef þig langar meira að vera á snapchat en semja ljóð, þá er það líka í góðu lagi, annað er ekkert merkilegra en hitt. Ef þú ert ekki tilbúinn til að fermast, skaltu ekki gera það, ef þú ert tilbúin til þess, þá njóttu augnabliksins og segðu já hátt og snjallt hér við altarið. Ekki lifa upp í einhverja ímynd til að þóknast öðrum, Guð gaf þér lygamæli sem heitir hjarta, ef hjartað er ekki samstíga ákvörðun þinni skaltu staldra við í kyrrð, til dæmis inn í tómri kirkju og leggja þig eftir svörunum sem búa þarna öll innra með þér.
Guð gefi þér hugrekki elsku fermingarbarn til að vera sjálfu þér trútt svo hamingjan sjálf sé þinn lífsförunautur.
(Ávarp til fermingarbarna á öllum aldri árið 2019)