Það er okkur öllum hollt og nauðsynlegt að setja okkur sjálfum og öðrum mörk. Það gerum við til þess að verja okkur ágangi annarra sem eru til dæmis ekki alveg með sín mörk á hreinu og hafa engann "stoppara"ef svo má að orði komast. Öll höfum við okkar eigin viðhorf og skoðanir sem eru ekki endilega þau sömu og nágrannans sem ætti ekki heldur að skipta máli.
Heilbrigð skynsemi ætti að segja okkur að það sé í lagi og hver og einn eigi rétt á sínum skoðunum. Með aukinni tjáningu fólks inni á samfélagsmiðlun er eins og neikvæð ótilhlýðileg hegðun hafi aukist. Þar sitja menn á bak við tölvur og gera sig breiða og þurfa því aldrei að horfast í augu við þá aðila sem þeir eru að "blammera". Þeir eiga kannsi 500 vini á Facebook sem að sjá þessi ummæli en jafnvel sjá þetta miklu fleiri. Það á alla vega við um "virka í athugasemdum" t.d. Myndi sá hinn sami og gerir sig breiðan á bak við tölvuna heima hjá sér láta slík orð falla á sviði fyrir framan þessa 500 aðila eða í sjónvarpi með manninn sem hann er að tala um við hliðina á sér? Væri í lagi að sýna svona framkomu undir þeim aðstæðum? Myndir þú sitja undir því? Ef, nei er þá í lagi að sýna svona dónalega framkomu við náungann ef það er gert á netinu?
Það er ekki gott þegar fólk fer í persónulegar árásir á annað fólk fyrir það eitt að vera með aðrar skoðanir og það sjálft. Það er bara ekki í lagi. Hvað þá að missa stjórn á sér og láta vaða alls konar ljót og ærumeiðandi orð eða bara standa og öskra. Það er ljóst að það er eitthvað að hjá þeirri manneskju sem svo gerir. Þar vantar einhvern "stoppara". Auðvitað dæmir svona hegðun sig sjálf en eftir situr að viðkomandi hefur látið ógeðfelld og særandi orð falla á manneskjur sem eiga þau engan veginn skilið. Þá liggur við að sá sem verður fyrir því þarf að verjast þessum árásum. Það er þó ljóst að þeir einstaklingar sem eru staddir á þeim stað að hegða sér svona eru ekki líklegir til að sjá neitt að hegðun sinni og þurfa að sjálfssögðu að eiga við þær afleiðingar á fleiri vettvangi en á netinu. Það er því nauðsynlegt fyrir hann sem fyrir þessu verður að skilja hvað liggur að baki þessarar neikvæðu hegðunar. Þessi vanhæfni viðkomandi í samskiptafærni segir auðvitað meira um hann sjálfan en nokkurn tímann þig sem fyrir henni verður.
Hver er tilgangurinn með því að birta slík ærumeiðandi og særandi orð? Er það til að upphefja sjálfan sig á kostnað annarra af því að færi gefst til? Er það vegna hreinnar mannvonsku? Er það vegna tilfinningalegs vanþroska? Af hverju þessi reiði? Maður spyr sig. Auðvitað liggur stundum þarna að baki vanmáttur þess reiða.
Hins vegar er mikilvægt að minna sig á að það er í sjálfu sér ekkert að þarna nema kannski einhver vandamál þess sem svona lætur. Það hefur í rauninni ekkert með þig að gera. Það á enginn að sætta sig við svona hegðun og fólk hefur fullan rétt á að hafa mismunandi skoðanir og sem betur fer. Það er í lagi að vera ósammála en það er ekki í lagi að fara í manninn í stað málefnisins.Best er að láta ekki tilfinningaleg vandamál annarra hafa áhrif á þitt líf.
Það er líka gott að vera meðvitaður um hvenær best er að þegja í stað þess að svara illa rökstuddum dylgjum. Þannig ver maður sig best og þannig nærist ekki reiðin. Sá vægir sem vitið hefur meira á hér svo sannarlega við.