Það getur verið auðvelt að falla undir pressu múgæsings. Sérstaklega á það við ef viðkomandi er hluti af stórum hópi sem er með afgerandi og jafnvel róttæka skoðun á einhverju tilteknu málefni. Það er gott og gilt og auðveldara undir þeim kringumstæðum að gera svo heldur en ekki. Hins vegar má alveg íhuga hvaða afleiðingar það hefur í för með sér?
Um daginn var hringt í mig frá Krakkafréttum RÚV. Þar bar þáttaspyrillinn það undir mig hvort ég væri tilbúin að svara 9 ára gamalli stúlku sem hafði haft samband við þáttinn og spurt þeirrar spurningar hvort fullorðnir leggi líka í einelti? Mjög góð spurning og góð pæling hjá lítilli stúlku. Það var hins vegar erfiðara að svara svona lítilli hreinni sál sem spurði í góðri trú og vonaðist sennilega eftir að heyra að svo væri ekki. Helst hefði ég viljað svara því neitandi til að barnið myndi halda sinni hreinu trú áfram. En því miður er lífið ekki svona einfalt. Það vitum við sem eldri erum að lífið getur verið flókið og á stundum erfitt og samskipti geta sennilega verið enn flóknari.
Heit málefni ýta undir heita umræðu og oft geta tilfinningarnar tekið völdin og skynsemin fokið út um gluggann. Þegar svo er, er þá réttlætanlegt að kalla fólki ljótum meiðandi orðum? Á fólk t.d í embættisstöðum það skilið? Þetta fólk les blöðin og hefur tilfinningar sem hægt er að særa og þetta fólk á jafnvel börn sem skilur ekki af hverju allir eru svona reiðir út í foreldra sína og gráta í koddann sinn. Eiga þau það skilið? Það er vel hægt að skilja reiði almennings á Íslandi í dag. Hins vegar er það líka val hvers einstaklings fyrir sig hvort hann ætlar að ala á reiði sinni og láta hana taka völdin. Völdin í sínu eigin lífi sem og annarra. Afleiðingar á slíku geta ekki haft nema neikvæð áhrif og þá sérstaklega fyrir þann sem í hlut á.
Hrunið er staðreynd. En það er líka staðreynd að það eru að verða 8 ár síðan það varð. Ætlum við sem þjóð að ala á þessu hatri og heift endalaust? Hverjum líður vel með það og hvenær er komið nóg? Þurfum við til þess nýja ríkisstjórn, nýja flokka á þing, nýtt fólk, allt nýtt. Þurfum við ekki bara að vinna saman og eiga góða samskipti? Vinna saman að því að heila þjóðina að nýju? Vera fyrirmyndir fyrir börnin okkar? Viljum við verða eins og maðurinn sem getur aldrei átt í góðum samskiptum við neinn og þarf því alltaf að fá sér nýja konu og nýja vini af því allir eru svo ómögulegir í kringum hann, og neitar sjálfur alfarið að horfast í augu við vandann sem gæti jafnvel legið hjá honum sjálfum? Nú erum við að tala um fullorðna fólkið.
Við kennum börnunum okkar að vera ekki reið og fyrirgefa. Hvað gerum við sjálf? Börnin skilja ekki af hverju allir eru svona reiðir og það er erfitt að útskýra það þar sem þroski þeirra býður ekki upp á það. En þau sjá hegðunina og finna fyrir reiðinni og þau lesa það sem fólk segir á samfélagsmiðlum. Þar er framtíð landsins okkar að nema og læra að reiðin er leiðin til lífsins. Varla getur það verið rétt?