Hvað er að vera í blóma lífsins? Hvenær er það? Á hvaða aldri eða lífsskeiði er fólk í blóma lífsins? Skv. skilgreiningum fellur þar margt undir og yfirleitt í textasamhengi við annað. Allt frá því að vera ungur, heilbrigður, vera á besta aldri og að því að vera einfaldlega á lífi. Flest skiljum við þetta örugglega þannig að vera ungur og iðinn og þannig á hátindi lífsins. En þá má að sama skapi spyrja hvað er hátindur lífisins? Ok ég veit að þetta er kannski orðið of heimspekileg hugsun en á sama tíma eru hátindur mannsins á misjöfnu æviskeiði. Má kannski það sama segja um það að vera á besta aldri? Hvenær er þá besti aldurinn og hver ákveður það?
Svarið við þessum spurningum held ég að sé frekar augljóst. Við sjálf ákveðum hvenær við erum á besta aldri og hvenær við erum á hátindi lífsins. Við auðvitað veljum kannski ekki sjálf hvenær við erum á lifi og hvenær ekki en það er kannski einfaldlega sú breyta í þessum ofangreindum skilgreiningum sem ætti síst heima þar? Bakgrunnur okkar, uppeldi, félagslegar og efnahagslegar aðstæður eiga sinn þátt í því að skýra hvenær við erum uppá okkar besta en samfélagið ákveður kannski eitthvað annað. Það skýrist oft í setningum eins og „hvað er hann að vera að eignast barn á gamalsaldri? Af hverju klæðir hún sig svona kominn á þennan aldur? Hvað er hann að fá sér svona unga konu kominn á þennan aldur? Hvað er að henni að vera með svona gömlum manni? Hvað er að henni að fara til Mallorca án barnanna með nýja kærastanum osfrv? Eru þetta ekki hleypidómar sem samfélagið ákveður?
Auðvitað vitum við það að það kemur engum öðrum við hvað við gerum og hvernig við högum okkar lífi. Það snertir bara okkur sjálf og okkar nánustu og enga aðra. Auðvitað eru það allnokkrir sem að eru að hneykslast yfir sig á öðrum og þurfa að tjá það við hvern þann sem nennir að hlusta. Ætli sá hinn sami sé í blóma lífsins eða lífs síns? Það er spurning.
Kannski er það að eignast barn á sjötugsaldri eitthvað sem einhverjum finnst hann kannski einmitt þá vera í blóma lífsins. Einhver klárar kannski menntagráðu á áttræðisaldri og það er bara afrek sem að yngir hann og gerir hann ánægðari með sitt líf. Kannski finnst einhverjum hann vera í blóma lífsins þegar hann klárar stúdentspróf. Kannski finnst einhver hann vera í blóma lífsins þegar hann hættir í neyslu og öðrum kannski þegar þau verða foreldrar, afar eða ömmur.
Hvað sem öllu líður þá erum við í blóma lífsins okkar þegar okkur líður þannig og við veljum það sjálf. Ég myndi segja að það væri huglægt eins og aldur hvers og eins og hans heilsa.