Það er alltaf gaman að byrja að vinna á nýjum vinnnustað. Tilhlökkunin er til staðar og tekið er vel á móti manni. Í ráðningarferlinu er rætt um þig sem starfsmann og hvernig þú kemur fyrir, hvaða reynslu og menntun þú ert með sem nýtist vinnustaðnum, hvernig þú ert í samskiptum og nú oft hvort að þú hafir eitthvað að fela sem gæti komið þér um koll síðar meir. Þú ert aðalstjarnan í atvinnuviðtalinu. Það gleymist hins vegar oft hjá atvinnuleitandanum að skoða hvernig vinnustaðurinn er samsettur hvað varðar menningu, starfsmannaveltu og hvernig starfsánægjukannanir koma út. Um þetta spyrja ekki margir í atvinnuviðtalinu.Þeir einfaldlega þora því ekki því það gæti verið túlkað sem neikvæðni og minnka líkur á að þú fáir starfið. En er þetta eðlilegt?
Við vitum að það eru til óheilbrigðir vinnustaðir sem fólk flýr í unnvörpum. Ástæðan? Yfirmenn sem styðja þig ekki í starfi, hugsa um eigin hag, vinnustaðapólitík, lélegir stjórnunarhættir, léleg samskiptahæfni stjórnanda eða lítil innsýn í mannauðsmál. En einnig sú að stjórnendur anda ofan í hálsmálið á starfsmönnum (e.micromanagement) og treysta ekki neinum nema sjálfum sér. Að auki getur verið að fókusinn sé á hagnað eða pólitík umfram allt og jafnvel á kostnað starfsmanna.
Líkja má vinnustöðum að mörgu leyti við fjölskyldu. Ef forstjóri er með góð og heil gildi og ber virðingu fyrir starfsmönnum sínum þá litar það menningu vinnustaðarins til yfirstjórnenda og þá niður til millistjórnanda og svo starfsfólks á plani. Starfsmenn fá að njóta sín og spreyta sín í starfinu og þeim er leiðbeint, þau stutt til dáða og fá að vaxa í starfi og þau þora að tjá sig og koma með hugmyndir því þau vita að það er tekið mark á því sem þau segja.
Hins vegar er hægt að líkja slæmum stjórnanda við fjölskyldu alkóhólista. Allir tipla á tánum í kringum hann/hana og vita aldrei í hvernig skapi viðkomandi er. Starfsmenn eru hræddir og þeir þora ekki að tjá sig og andrúmsloftið verður þvingað. Fólki líður ekki vel í þannig aðstæðum og margir eru hræddir við stjórnendurna. Í þeim aðstæðum eru margir að leita sér að nýrri vinnu og vinnuframlag þeirra minnkar sem og starfsánægja. Þarna kemur t.d fram kvíðahnútur í maga starfsmanna á sunnudagskvöldum þar sem vinnuvikan er framundan. Þarna er fólk líka hrætt um að svara starfsánægjukönnun skv. sannfæringu af þeirri hræðslu að svörin gætu verið rakin til þeirra. Ef könnunin kemur ekki vel út er þeim refsað og enginn þorir að tjá sig.
Það er líka hættuleg þróun þegar stjórnendur óheilbrigðra vinnustaða er lítill hópur sem hefur unnið saman í mörg ár því undir þeim kringumstæðum er hætta á að þeirra gildi ríki og aðrir stjórnendur þora ekki að andmæla eða láta aðra skoðun í ljós í hópnum af sömu ástæðu, hættan við að missa vinnuna og hnjóta álitshnekkis í samfélaginu. Þetta á líka við um t.d. fjölskyldufyrirtæki þar sem óljós mörk eru stundum á milli einkalífs og vinnu.
Það er því mikilvægt að kynna sér vel þann vinnustað sem þú sækist eftir. Gerðu lista yfir þau fyrirtæki sem þú vilt vinna hjá og hafðu samband við stéttarfélög jafnvel til að kanna hvort að þau séu þess virði að vinna fyrir í stað þess að byrja án könnunar og eiga á hættu að missa heilsuna vegna erfiðra starfsskilyrða. Ef þú ert í þeirri stöðu að vera fastur á óheilbrigðum vinnustað leitaðu þá til markþjálfa eða sálfræðings og fáðu „ráðgjöf um exit strategy“ Stattu alltaf með sjálfum þér, þú átt það skilið.