c

Pistlar:

15. október 2014 kl. 10:21

Hrefna Óskarsdóttir (hrefnaoskars.blog.is)

Ef ég bara þyrði...

Ég elska September. Sko plötuna hans Bergsveins. Og þó ég syngi kannski ekki vel, þá elska ég nú samt að syngja með. Af öllum lífs og sálar kröftum. Ég elska að setja Pink í botn og dansa með -  eins og engin sé að horfa. En ég lít samt alltaf í kringum mig til að athuga hvort ég sjái einhvern. Þú veist, að horfa. Mér þykir nefnilega enn pínu vont að vera álitin kjánaleg.

Ég er dáldið feimin og er bara ekki alveg komin á þann stað að vera sama um hvað fólki finnst. Eina ástæðan fyrir því að ég fæ mér í glas er sú að það losar um hömlur og hleypir ófeimnu útgáfunni af sjálfri mér fram. En svona í seinni tíð er mig samt farið að gruna að fólk pæli minna í mér en ég ætla. Það gæti jafnvel, hugsanlega, kannski verið að fólk ætti bara nóg með sjálft sig og hafi jafnvel bara ekki tíma, orku eða nenning í að vera endalaust að spá í mér og því sem ég er að gera.

Við pælum nefnilega ofboðslega mikið í því hvað öðrum finnst, sérstaklega ef við teljum okkur ekki standa undir eigin væntingum.  Við tökum flottustu og eftirtektarverðustu eiginleikana hjá öðrum og miðum okkur við það. Niðurstaðan er yfirleitt sú sama; hversu meingölluð og ótrúlega ófullkomin við erum. Allir þeir eiginleikar sem við dáumst að í fari annarra – þú veist, hvað hún Sigga er ótrúlega falleg (með flottan kropp og hvað hún er einstaklega dugleg í ræktinni),  hvað hann Jón er hrikalega rómantískur (hann er alltaf að gefa konunni sinni eitthvað og-veistu-bara-hvað, hann kveikir meira að segja á kertunum fyrir hana) og hvað hún Gunna er nú dugleg í eldhúsinu (ómægod, það er ekki nóg með það að hún eldi sjúklega góðan mat, þetta er allt saman glútleinlaust) – þetta er einfaldlega eins og toppurinn á ísjakanum. Við viljum nefnilega svo gjarnan að fólk sjái bara sparihliðarnar okkar – þær hliðar sem við viljum að aðrir dáist að og dásami okkur fyrir.

Við eigum öll svo marga dásamlega, skemmtilega og jafnvel eftirsóknaverða eiginleika. En við eigum líka allt hitt sem við reynum eftir fremsta megni að fela fyrir öðrum því við viljum ekki vera talin  minniháttar ef það sést glitta í mannlegu brestina okkar. Í raunverulegu manneskjuna sem er bak við grímuna sem við setjum upp dags daglega til að öðlast aðdáun annara. Það eru samt allir með einhvern farangur úr fortíðinni. Eitthvað sem við hræðumst, skömmumst okkar fyrir eða erum óörugg með. Og það er einmitt þessi farangur sem kemur í veg fyrir að við þorum að fleygja öllum dásamlegu eiginleikunum upp á yfirborðið, láta reyna á hæfileikana og gera grín af göllunum okkar og öllum mannlegu brestunum.

Þessi ótti og óöryggi  gera það að verkum að við verðum sár og reið þegar einhver gagnrýnir okkur. Og þá er nú miklu betra að vera bara í þægindakassanum – þar þarf maður allavega ekkert að reyna neitt nýtt eða óttast hvað aðrir hafi um mann að segja.

En hvernig væri lífið öðruvísi ef maður væri ekki hræddur, óöruggur eða velta sér upp úr áliti annarra? Ég er búin að vera að pæla dáldið í þessu - hvernig mitt líf væri öðruvísi ef ég þyrði bara að láta vaða og hætta að spá í „hvað ef“. Og ég velti líka fyrir mér hverju ég fengi áorkað ef ég væri algerlega laus við óttann um höfnun eða við að mistakast.

Þetta er dáldið mögnuð spurning, því ég er farin að sjá það að möguleikarnir mínir eru nánast takmarkalausir. Ég er alltaf að sjá það betur og betur að það eina sem stoppar mig er óöryggið mitt og efinn um hver ég haldi nú eiginlega að ég sé, að ætla mér þetta eða hitt. En ég er líka farin að sjá það að fólk kann betur við mannlegu, dásamlegu og kjánalegu skvísuna sem ég er, heldur en fullkomnu og gallalausu útgáfuna sem ég reyndi svo lengi að verða. Það sjá flestir nokkuð auðveldlega í gegnum allt svoleiðis fals.

En ef ég væri hins vegar með fullt hús sjálfstrausts, væri fullgildur meðlimur í „mér-er-alveg-sama-þótt-allir-séu-að-hlægja-að-mér“ félaginu og væri ekki hrædd við að vera álitin ófullkomin,  þá væri ég löngu farin með rauðvínshandbókina mína til útgefanda (hún er nefnlega alveg hrikalega flott).  Ég væri búin að senda einhverjum hjá Huffington Post bréf til að athuga af hverju í ósköpunum þeir væru ekki farnir að birta pistlana mína og ég væri líklega í öllum skólum að halda fyrirlestur um hvaða afleiðingar hausarusl og tilfinningadrasl hefur á líkamlega og andlega líðan. Og um það hversu dásamleg samskipti geta verið þegar við þorum að stíga út fyrir óttann. Ég þyrfti þá heldur ekki að fá mér bjór (eða tvo) til að losa um hömlur til að verða (kannski bara aðeins pínulítið) skemmtilegri.  Ég gæfi mér þá einfaldlega leyfi til vera sá kjáni sem ég raunverulega er.

Ef ég hefði hugrekkið með mér í liði leyfði ég hjartanu oftar að ráða för. Þá færi ég á þessi deit sem mér hafa verið boðin. Ég myndi þá líka jafnvel, hugsanlega, kannski þora að verða hrifin aftur. Ég  myndi hoppa af kæti, garga af gleði og syngja úr mér lungun næst þegar hundurinn færi með mig í göngu suður á eyju – án þess að líta í kringum mig og athuga hvort það væri einhver að horfa. Og ég myndi klárlega gera mitt allra besta til að fá Bergsvein til að vera með tónleika á Háaloftinu.

Eins og ég sé þetta þá hef ég núna um tvennt að velja; að tækla óttann og segja skilið við ef-ég-bara-hefði hugsanir, eða ég get haldið áfram að leyfa óttanum að ráða för og setið uppi með fjandans eftirsjána.  

Eins og spekingarnir segja, að þá eru það ekki hlutirnir sem við gerum sem við sjáum eftir, heldur það sem við gerðum ekki.

Svo, Beggi...  hvað segir þú annars um tónleika í Eyjum í vetur?

Hrefna Óskarsdóttir

Hrefna Óskarsdóttir

Fædd á því gæðaári 1975. Iðjuþjálfi, dáleiðslutæknir og nemi í geðheilbrigðisvísindum við Háskólann á Akureyri þessa dagana. Með óendanlegan áhuga á mannlegu eðli, sérstaklega því sem eykur vellíðan, hamingju og lífsgleði og því sem dregur úr hausarusli og tilfinningadrasli. Finnst fátt betra en að lesa, skrifa, hlusta á góða tónlist og eiga góða stund með fjölskyldu og vinum (en ekki endilega í þessari röð).

Meira