c

Pistlar:

22. janúar 2015 kl. 10:11

Hrefna Óskarsdóttir (hrefnaoskars.blog.is)

Dagurinn sem ég bjargaði heiminum.

Ég man ekki hvað ég var gömul þegar ég áttaði mig á því að það allra besta, í öllum heiminum, er að vera í gleði. Og Guð hvað ég man vel eftir þeirri dásamlegu tilfinningu að vera glöð yfir því einu að vera til. Hoppandi yfir blómabeðið á Vesturveginum, aftur og aftur og fram og til baka, af þeirri ástæðu einni  að það var bara svo hrikalega gaman.   

Hvort sem það er vegna erfða eða uppeldisaðstæðna, þá hef ég alltaf þurft að hafa fólkið í kringum mig í gleði svo ég geti sjálf geti leyft mér mína gleði. Það skyggir á gleðina ef einhver er reiður, pirraður eða leiður í kringum mig. Ég tala nú ekki um ef pirringurinn og ergelsið snýr að mér. Þá fæ ég samviskubit sem beyglar alltaf gleðina.

Sem barn ég ekki skilið hversu skelfilega gleðisnauð fullorðinsárin geta verið.  Hversu mikið það tætir gleðina að „bera ábyrgð“,  „vera raunsær“ og  að „standa sig í lífinu“. Ég hélt nefnilega í minni barnslegu einfeldni að þegar maður yrði fullorðinn og réði yfir sér sjálfur, að þá myndi  maður bara alltaf velja það sem gefa mesta gleði - og að sleppa því að gera það sem er ekki  jafn skemmtilegt.  Bara af því að það er svo gaman að vera í gleði.

En þetta er ekki alveg svona einfalt...  eða hvað?

Það getur verið dáldið flókið mál að langa það mest að öllu að vera í gleði og hafa gaman en geta það ekki  út af því að einhver annar er í vondu skapi. En þegar maður er úrræðagóður finnur maður margar góðar og sniðugar (en stundum algerlega fáránlegar) aðferðir til að gleðja þá sem halda góða skapinu manns í gíslingu. Ég hef látið ýmislegt yfir mig ganga og hef meira segja oft brotið á eigin sannfæringu fyrir þessa ótrúlega sterku  þörf fyrir að hafa fólkið mitt í gleði. Því þá loksins get ég einbeitt mér að minni gleði.  Sektarkennd og gleði eiga nefnilega enga samleið.  

Þegar það svo nægir ekki að breyta sjálfri mér til að „bjarga tilfinningum“ þessa fólks, þá reyni ég að breyta þeim sjálfum eða aðstæðum þeirra. Ég kem með ótrúlega sniðugar lausnir og hugmyndir (að eigin mati) til að þessir einstaklingar finni nú loksins gleðina sína . Ó hve ljúfir þeir dagar eru, þegar fólk gerir  bara eins og ég segi!  En ef þessi  björgunarleiðangur dugir heldur ekki til – þá verð ég reið og sár og stundum verulega pirruð.  Það er stór fórnarkostnaður á eigin lífsgleði og hamingju að taka ábyrgð á tilfinningum annarra.

Ég veit, ég veit – ég bjarga kannski ekki heiminum upp á mitt einsdæmi (missti mig pínu í dramanu í fyrirsögninni) en ég get klárlega gert heiminn að aðeins  betri stað til að búa á. Og það gerði ég klárlega daginn sem ég ákvað að það væri ekki mitt að bera ábyrgð á tilfinningum annarra. Að annað fólk velur sér sjálft sína líðan og ef það vill vera í reiði,  pirringi eða gremju – að þá megi þau það bara! Að mín ábyrgð snúist eingöngu um að hlú að minni eigin gleði og að sinna henni.

Þegar við erum að streða og reyna  að gera allt sem í okkar valdi stendur til þess að standa undir þessari helvítis „ábyrgð“ sem fylgir fullorðinsárunum, þá gleymum svo oft gleðinni. Við höfum ekki tíma fyrir hana, en þurfum samt svo tilfinnanlega mikið á henni að halda. Lífið er nefnilega ansi tómt án gleði.  Og svo kemur dagurinn sem maður fær nóg af streðinu og segir bara „Fokk-it! Lífið hlýtur að eiga bjóða upp á eitthvað  meira en bara þetta. Og við finnum eitthvað – bara eitthvað - sem gefur einhvað smá kikk í annars gleðisnautt líf. Eitthvað sem kannski særir aðra en við réttlætum það með því að halda því fram að við eigum líka rétt á því að vera glöð.

Við eigum öll rétt á því að vera glöð. Og ekki bara á sérstökum dögum og af sérstökum ástæðum, heldur mjög  oft og bara af því bara!

Elsku þú. Viltu hafa í huga það sem Ghandi sagði eitt sinn, að eina leiðin til að breyta heiminum væri með því  að breyta sjálfum sér.  Ímyndaðu heim þar sem allir sinna sínu. Sjá um sína eigin gleði –  með gleði og í gleði.  Með vúhú-um og vííí-um og „ómægod“-dramaöskrum fyrir allan peninginn. Hversu dásamlega skemmtilegur heimur væri það að búa í?  En ekki samt misskilja mig - ég er ekki að tala um að gera hluti sem særa eða meiða eða láta þig fá samviskubit - það veitir engum sanna gleði. Ég er að meina að finna hvað það er sem þér finnst gaman að gera,  það sem kallar fram bestu hliðarnar þínar og lætur þig finnast þú  vera skemmtilegasti og áhugaverðasti einstaklingurinn sem þú þekkir – það sem lætur þig líða alveg ótrúlega vel með sjálfan þig - og gera það svo oft.

Elsku þú. Fyrir börnin þín og fjölskylduna, fyrir vini þína og alla hina. Ertu þá til í að setja gleði þína í forgang. Ef þú hugar að þinni gleði, þá geta hinir einbeitt sér að sinni gleði. Gleði (alveg eins og vont skap) er ótrúlega smitandi og hún kallar fram bestu hliðarnar okkar. Þó ég sé ekki hrifin af því að líkja fólki við skít, þá get ég samt lofað þér því að þú yrðir sennilega eins og þessi margfræga mykjuskán sem mýið sópast að. Það er sjaldgæfur eiginleiki að dvelja  í gleði og við sækjumst óhjákvæmilega  í þá sem okkur líður vel í kringum.

Elsku þú. Fyrir sjálfan þig – ertu þá til í að taktu áhættu og gera eitthvað ótrúlega skemmtilegt. Gera eitthvað klikkað, eitthvað sem fær þig til að finnast lífið vera þess virði að lifa því. Ég veit nefnilega af eigin reynslu hversu lífshættulegt það er að svelta lífið allri gleði. Gerðu það sem gefur þér gleði, gerðu það oft og gerðu það þar til að þér dettur ekki í hug að gera neitt annað.

Því þá fyrst veistu hvað það er að lifa.  

Hrefna Óskarsdóttir

Hrefna Óskarsdóttir

Fædd á því gæðaári 1975. Iðjuþjálfi, dáleiðslutæknir og nemi í geðheilbrigðisvísindum við Háskólann á Akureyri þessa dagana. Með óendanlegan áhuga á mannlegu eðli, sérstaklega því sem eykur vellíðan, hamingju og lífsgleði og því sem dregur úr hausarusli og tilfinningadrasli. Finnst fátt betra en að lesa, skrifa, hlusta á góða tónlist og eiga góða stund með fjölskyldu og vinum (en ekki endilega í þessari röð).

Meira