c

Pistlar:

26. febrúar 2017 kl. 11:35

Hrefna Óskarsdóttir (hrefnaoskars.blog.is)

Konur sem prumpa

Ég hef stundum kallað sjálfa mig gallagrip, ekki af því að ég líti á mig sem annars-flokks einstakling (eða af því að ég prumpa), heldur einungis vegna þess að ég er blessunarlega laus við fullkomnun - eins og allar aðrar manneskjur sem hafa stigið hér á jörð.

Almennt séð þá hef ég hingað til talið þetta vera staðreynd frekar en skoðun. Þú veist, þetta með að enginn sé fullkominn og allt það. En ég verð að viðurkenna að undanfarið er ég dáldið farin að efast. Þegar ég les samfélagsmiðlana og kommentakerfin líður mér stundum óþægilega – svona eins og ég sé eini gallagripurinn í kerfinu. Svo tala ég við fólk og fæ þessa „hjúkket“ tilfinningu. Það er til fólk eins og ég. Fullt af því meira að segja. (Tvöfaldur broskall á það).

Ég veit ekki með þig en einhvern veginn finnst mér umburðalyndi fyrir samferðafólki okkar, ólíkum skoðunum og mannlegu eðli hafa farið hnignandi. Allt sem ekki er eins og okkur finnst það ætti að vera (í hinum fullkomna heimi, hjá hinu fullkomna fólki) fordæmum við sem „rangt“, „vitlaust“ og „heimskulegt“. Við gerum þær kröfur að fólk hagi sér í alla staði óaðfinnanlega, líti óaðfinnanlega út, eigi óaðfinnanlegt heimili, næli sér í óaðfinnanlega menntun, streði að óaðfinnanlegum starfsframa og ali upp óaðfinnanleg börn. Og sé auðvitað í óaðfinnanlegu hjónabandi. Að öðrum kosti sjáum við okkur tilneydd til að tjá okkur um það á opinberum vettvangi þó við þekkjum ekkert til þessa fólks eða aðstæðna þess.

Og sá vinnur leikinn sem er mest óaðfinnanlegur, hljómar eins og uppskriftin að hamingju til  æviloka. Einfalt. Skothelt.

Skelfilegt.

Þessi krafa um fullkomnun og óaðfinnanlega hegðun, útlit og árangur er að gera út af við okkur og þá ekki síst börnin okkar. Um 20% barna eru að kljást við geðræna erfiðleika sem má að miklu leiti rekja til samfélagsmiðla og þeirra krafna sem samfélagið gerir um fullkomnun. 

Við erum tilbúnari að setja börn á geðlyf heldur en að reyna að skilja þarfir þeirra og breyta kröfum okkar, því erfið og ófullkomin börn eru ekki sérlega vel liðin í samfélagi fullkomnunar. Ekki heldur fólk sem er að kljást við þunglyndi, kvíða og aðrar erfiðar tilfinningakrísur. Ég tala nú ekki um ef þú ert karlmaður. Þú veist, karlmenn gráta ekki og eiga ekki sýna tilfinningar og allt það. Þeir eiga líka alltaf að vera einlægir, blíðir og rómantískir en samt stundum svoldið dularfullir, óheflaðir og töff en umfram allt eiga þeir að geta lagfært allt heimafyrir því annars eru þeir aumingjar sem engin not eru í.

Í hinum fullkomna heimi eiga konur einnig að haga sér óaðfinnanlega, vera blíðar og ljúfar og prumpa bara helst ekki. Ef þær eru með mjúkan maga, eiga þær alls ekki að fara ekki bikiní og eðlilega ættu þær alltaf að vera í megrun til að vera ekki settar í hinn skelfilega „annan flokk“ mannkyns. Þó konur eigi að vera blíðar og ljúfar, megum við samt ekki að vera vitlausar og trúgjarnar og treysta því að fólk haldi loforð. En hey! Það góða við fullkomin samfélög, er að það leyfir heldur ekki gamla karla með úreltar skoðanir. Gott betur en það, allir sem ekki hafa „réttu“ skoðanirnar eru fordæmdir. 

Ég dáist endalaust að fólki sem enn hefur kjarkinn í að hafa skoðun þegar viðurlögin fyrir  „ranga skoðun“ er opinber rasskelling.  Með tilkomu kommentakerfisins og samfélagsmiðla höfum við náð nýjum víddum í skoðunum á skoðunum. Í hinu fullkomna, óaðfinnanlega samfélagi okkar höfum við nefnilega náð að gera hið ómögulega; að þróa hina einu réttu skoðun.

Einhvern tíma heyrði ég því fleygt að karlmenn mættu sýna þrjár „tilfinningar“; þeir mættu vera glaðir, reiðir og fullir. Að sama skapi er bara pláss fyrir tvær skoðanir; hina réttu (sem er, þú veist, þín skoðun – en er samt að öllum líkindum skoðunin sem hinn háværi meirihlutinn aðhyllist. Hin týpíska íslenska hjarðhegðun, skilurðu) og þá röngu  (sem eru allar hinar [kjánalegu] skoðanirnar sem hinn háværi meirihluti er á móti – og þú þá auðvitað líka).

Það að hafa skoðun er allt í einu orðið að einhverskonar like-keppni samfélagsmiðla og tilefni til persónulegra árása á kommentakerfum. Eins fáránlegt og þetta hljómar, þá er þetta sorglegur raunveruleiki margra og við hin tökum þátt með því að skiptast í fylkingar, með eða á móti.

Það gerist hins vegar í gegnum þroskaferli erfiðleika og sjálfsskoðunar að við sjáum að heimurinn er ekki bara svartur og hvítur, heldur með 50 gráa litatóna og um 10 milljónir annarra litategunda sem augað nær að greina.  Erfiðleikar, sársauki, þjáning og margskonar mistök gerir það að verkum að við sjáum mannlega, ófullkomna hegðun annarra í öðru ljósi. Við öðlumst þann hæfileika að geta sett okkur í spor annarra og séð hluti frá mörgum ólíkum sjónarhornum, þar sem hluti af okkur getur verið að einhverju leiti sammála einum meðan annar hluti af okkur getur áttað sig á sjónarmiðum hins. Með auknum þroska sjáum við líka að maður þarf ekki endilega að vera á móti einum til að vera sammála hinum. Maður getur jafnvel séð (mismikla) skynsemi í skoðunum beggja. Eða verið algerlega ósammála báðum. Og svo má maður líka skipta um skoðun. En það allra dásamlegasta við þroskann er að átta sig á því að maður þarf ekki að niðurlægja fólk opinberlega fyrir það eitt að hafa aðra skoðun en þá sem maður sjálfur aðhyllist.

Það þarf þroska til að ræða viðkvæma hluti á málefnalegan hátt og sennilega þyrfti hin íslenska þjóð allhressilega þjálfun í málefnalegum umræðum því oftar en ekki er farið í persónulegt skítkast þegar rök skortir. Við þurfum að hafa það að leiðarljósi að finna lausnir og stuðla að betra, manneskjulegra og umburðalyndara samfélagi, þar sem karlar mega gráta, konur mega prumpa og börn þurfa ekki að kvíða framtíðinni.  

Sem er það allt þetta snýst jú um…  eða hvað?

 

Hrefna Óskarsdóttir

Hrefna Óskarsdóttir

Fædd á því gæðaári 1975. Iðjuþjálfi, dáleiðslutæknir og nemi í geðheilbrigðisvísindum við Háskólann á Akureyri þessa dagana. Með óendanlegan áhuga á mannlegu eðli, sérstaklega því sem eykur vellíðan, hamingju og lífsgleði og því sem dregur úr hausarusli og tilfinningadrasli. Finnst fátt betra en að lesa, skrifa, hlusta á góða tónlist og eiga góða stund með fjölskyldu og vinum (en ekki endilega í þessari röð).

Meira