Í fréttaskýringaþættinum Kveik var nýverið fjallað um upprunavottorð grænnar raforku. Af umræðu í þættinum og eftir þáttinn er ljóst að margir eiga í nokkrum vandræðum með að skilja hvað felst í slíkum upprunavottorðum. Sem kannski er ekki skrýtið, því hagsmunaaðilum sem vilja fá þess konar vottorð frítt hefur tekist nokkuð vel að rugla fólk í ríminu um hvað vottorðin merkja.
Einfaldast er að lýsa upprunavottorði vegna grænnar raforku svo að með slíku vottorði er staðfest að tiltekin orkueining hefur verið framleidd með endurnýjanlegum hætti (svo sem fyrir tilverknað vatnafls, vindafls, jarðgufu eða sólar). Það er orkuframleiðandinn sem fær heimild til útgáfu slíks vottorðs. Og sá sem kaupir vottorðið er raforkunotandi sem vill styðja við endurnýjanlega raforkuframleiðslu og um leið fá tækifæri til að kynna þann stuðning sinn í samræmi við reglur þessarar evrópsku samvinnu (svipað kerfi má líka finna í löndum utan Evrópu).
Hvaðan nákvæmlega orkueiningin kemur, sem kaupandi vottorðsins notar, er ekki aðalatriði. Heldur snýst þetta kerfi um það að orkunotandinn hefur með kaupum á viðkomandi upprunavottorði stutt við framleiðslu á sama magni af grænni orku. Og raforkuframleiðandinn má auðvitað ekki selja upprunavottorð vegna þessarar tilteknu orkueiningar á ný, enda væri hann þá að tvíselja upprunavottorðið.
Umrætt kerfi er hluti af samstarfi Evrópuríkja til að sporna gegn losun gróðurhúsalofttegunda. Í heild stuðlar kerfið að því að græn raforkuframleiðsla verður samkeppnishæfari en ella og því líkleg til að aukast meira eða hraðar en ella. Hversu áhrifamikið eða gott þetta kerfi er, er samt umdeilanlegt, rétt eins og á við um mörg önnur mannanna verk. En þetta er eitt atriði af mörgum sem hvetur til framleiðslu á meiri grænni orku og er því til þess fallið að spyrna gegn nýtingu kola eða jarðgass.
Greinarhöfundur lýsti þessu kerfi hér á vef Morgunblaðsins fyrir um hálfum áratug. En skilningur margra á kerfinu virðist lítt betri núna en var þá. Sem er kannski skiljanlegt því reglulega sprettur upp nokkuð þungur áróður gegn þessi kerfi. Sá áróður á einkum rætur að rekja til fyrirtækja sem vilja fá upprunaábyrgðirnar frítt. Þeir hinir sömu reyna að halda því fram að kerfið skerði græna ímynd Íslands. Slíkt er auðvitað fjarstæða. Enda er græn ímynd Íslands í dag a.m.k. jafn sterk og var fyrir fimm árum, þegar líka var mikið fjallað um hættu á skemmdum á ímynd Íslands vegna viðskipta með upprunavottorð.
Jafnvel þó svo þetta kerfi upprunaábyrgða sé til þess fallið að hafa jákvæð áhrif á loftslag og umhverfi, þá er kerfið ekki skylda heldur valkvætt. Íslenskum orkufyrirtækjum ber engin skylda til að taka þátt. En hafa má í huga að sala á upprunavottorðum hefur aukið árlegar tekjur Landsvirkjunar um hundruð milljóna króna. Greiðendurnir, þ.e. kaupendur vottorðanna, eru fyrst og fremst erlend fyrirtæki, meðan tekjurnar renna fyrst og fremst til fyrirtækis í eigu íslenska ríkisins. Hvort það er jákvætt eða neikvætt fyrir Ísland verður hver að meta fyrir sig.
Slíkar auknar tekjur Landsvirkjunar eru jákvæðar fyrir fyrirtækið, eiganda þess og þar með alla landsmenn. Um leið efla tekjurnar möguleika Landsvirkjunar til að bjóða raforku á lægra verði en ella. M.ö.o. þá verður Landsvirkjun samkeppnishæfari. Það væri nokkuð einkennileg afstaða ef íslenskir stjórnmálamenn vildu skera burt þessar tekjur Landsvirkjunar og þar með minnka arðsemi þessa mikilvæga fyrirtækis Íslendinga.
Ísland er land grænnar raforkuframleiðslu. Og orkuímynd Íslands er sú grænasta í heimi og vekur athygli sem slík. Upprunavottorð og viðskipti með slík vottorð skerða á engan hátt þá ímynd. Þvert á móti er geta íslenskra raforkufyrirtækja til að selja upprunavottorð til marks um hversu raforkuframleiðsla á Íslandi er græn. Í því liggja hrein og klár verðmæti.
Að afhenda stórnotendum raforku eða mengandi iðnaði þau verðmæti án endurgjalds væri undarleg ráðstöfun. Aftur á móti er umhverfisleg gagnsemi upprunavottorða varla afgerandi og því kannski ekki stór skaði ef þetta kerfi yrði lagt af. Munum samt að þetta kerfi styður við græna orku. Þess vegna er varla ástæða til að leggja kerfið af nema sýnt verði fram á óumdeilanleg og raunveruleg neikvæð áhrif þess. Það hefur ekki verið gert.
Höfundur er framkvæmdastjóri vindorkufyrirtækisins Zephyr Iceland.