c

Pistlar:

8. mars 2020 kl. 11:05

Ketill Sigurjónsson (hreyfiafl.blog.is)

Tekist á um 200 milljarða króna i Straumsvík

Risafyrirtækið Rio Tinto segist íhuga stöðu og jafnvel lokun álversins í Straums­vík. Vegna þess að ál­ver­ið sé ekki sam­keppn­is­hæft og verði það ekki nema ál­verð hækki eða raf­orku­verð ál­vers­ins lækki. Þar sem raf­orku­samn­ing­ur álfyr­ir­tæk­is­ins og Lands­virkj­un­ar kveð­ur á um háa kaup­skyldu ál­vers­ins á raf­magni og til­tekn­ar ábyrgð­ir Rio Tinto þar að lút­andi, eru þó senni­lega meiri lík­ur en minni á því að ál­ver­ið haldi áfram starf­semi. Þarna er þó ekk­ert öruggt.

Hvort sem álverið í Straums­vík er að fara að loka eður ei, er rétt að hafa í huga að of­fram­boð af áli í heim­in­um er stað­reynd. Og það of­fram­boð virð­ist lang­var­andi. Of­fram­boðið núna má fyrst og fremst rekja til Kína, þar sem álver hafa verið reist hraðar en sem nemur vexti í álnotkun. Ein af­leið­ing þessa of­fram­boðs er að mörg­um ál­ver­um utan Kína hef­ur ver­ið lok­að, svo sem í Banda­ríkj­un­um. Enn er samt fátt sem bend­ir til þess að ál­verð muni hækka á næst­unni. Þvert á móti virðist lík­legra að of­fram­boð af áli í Kína haldi enn áfram að auk­ast.

Ís­land er stærsti ál­fram­leið­andi heims mið­að við höfða­tölu og vegna of­fjár­fest­inga í ál­ver­um í Kína er orð­ið mun áhættu­sam­ara en áð­ur að reiða sig á ál­ver sem orku­kaup­endur. Það er alls ekki öruggt að stærstu orku­fyr­ir­tæk­in í eigu okk­ar Ís­lend­inga, Lands­virkj­un og Orku­veita Reykja­vík­ur, geti áfram um langa fram­tíð selt stærst­an hluta raf­orku­fram­leiðslu sinn­ar til ál­vera. 

Landsvirkjun-tekjur-skipting-2019_Askja-Energ-Partners-2020-MBLSamkvæmt orku­samningi Lands­virkj­unar við ál­ver Rio Tinto í Straums­vík ber orku­fyr­ir­tæk­inu að út­vega ál­verinu raf­orku allt fram til árs­ins 2036. Raf­ork­an sem fer til Straums­vík­ur er á bil­inu 20-25% af allri raf­orku­fram­leiðslu Lands­virkj­un­ar. Fyr­ir fá­ein­um áru­m námu tekj­urn­ar af þess­um við­skipt­um Lands­virkj­un­ar og ál­fyr­ir­tæk­is­ins um þriðj­ungi raf­orku­tekna Lands­virkj­un­ar. Í kjöl­far tjóns í ein­um ker­skála ál­ver­sins um mitt síð­asta ár (2019) minnkuðu við­skiptin og nema nú um fjórð­ungi allra tekna orku­fyr­ir­tæk­is­ins af raf­orku­sölu. Sbr. tafl­an hér til hliðar.

Þarna er um mikla fjár­hags­lega hags­muni að ræða fyrir bæði Lands­virkj­un og Rio Tinto. Verð­mæti raf­orkusamn­ings fyr­ir­tækj­anna, sem er að uppistöðu frá 2010, nemur um 250-300 milljörð­um króna að nú­virði, þ.e. sam­an­lagð­ar tekj­ur Lands­virkj­un­ar og Lands­nets af samn­ingn­um all­an samn­ings­tím­ann. Þar af eiga um 150-200 milljarð­ar króna eft­ir að greið­ast vegna samn­ings­tím­ans fram til 2036. Og það vel að merkja allt í bein­hörð­um er­lend­um gjald­eyri!

Álver nota gríðarlega mikið af raforku; eru s.k. stórnotendur eða stóriðja. Ef ál­ver dreg­ur veru­lega úr fram­leiðslu sinni eða lok­ar tek­ur lang­an tíma að t.a.m. nægj­an­lega mörg gagna­ver rísi til að geta leyst álver af hólmi í raf­orku­notkun. Og meira að segja nýtt kís­il­ver dugar þar skammt. Lang­var­andi of­fram­boð af áli og sú stað­reynd að stór­fyr­ir­tæk­ið Rio Tinto skuli nú alvar­lega íhuga lok­un ál­vers­ins í Strams­vík ætti að sýna okk­ur Ís­lend­ing­um öll­um hversu mik­il­vægt það er að Lands­virkj­un eigi sem greið­ast­an að­gang að góð­um og fjöl­breytt­um hópi við­skipta­vina.

Í reynd er fyrst og fremst einn mögu­leiki sem gæti skap­að ámóta eft­ir­spurn eftir raf­orku Lands­virkj­un­ar eins og ál­ver ger­ir. Sem er sala á grænni orku um sæ­streng til Evrópu. Það að Rio Tinto gef­ur nú í skyn að fyrir­tæk­ið hygg­ist mögu­lega gef­ast upp gagn­vart of­fram­boði á kín­versu áli er mik­il­væg áminn­ing. Áminning um að hugað sé að nýj­um stór­um kaup­anda að hluta þeirr­ar miklu end­ur­nýj­an­legu orku sem opin­beru orku­fyr­ir­tæk­in, Lands­virkj­un og Orku­veita Reykja­vík­ur, fram­leið­a í virkj­unum sínum.

Mögulega sér Rio Tinto að sér og tryggir far­sæla starf­semi ál­vers­ins í Straums­vík enn um langa fram­tíð. En í ljósi þess að kín­versk­ur ál­út­flutn­ing­ur er lík­leg­ur til að halda áfram að vaxa, kann að vera að álverinu verði lokað, hvort sem það verður fyrr eða síðar. Það væri því skyn­samlegt að ís­lensk stjórn­völd leggi auk­inn kraft í að kanna sæ­strengs­verk­efnið. Þetta mál snýst um afar mikil­væga við­skipta­hags­muni okkar sem þjóðar.

Höfundur er fram­kvæmda­stjóri vind­orku­fyrir­tækis­ins Zephyr Iceland og sem Íslend­ing­ur einn af óbein­um eig­end­um Lands­virkj­un­ar, rétt eins og lang­flestir ef ekki all­ir les­en­dur grein­ar­innar.

Ketill Sigurjónsson

Ketill Sigurjónsson

Hér birtast hugleiðingar um hin ýmsu málefni; einkum um orkumál. Höfundur er framkvæmdastjóri vindorkufyrirtækisins Zephyr á Íslandi (Zephyr Iceland), sem er dótturfyrirtæki norska Zephyr.
Meira