Fyrir rúmu ári síðan eða svo fór ég að hafa áhyggjur af því að hér yrði ekki með veglegum hætti þess minnst þegar hálf öld væri liðin frá heimsmeistaraeinvíginu í skák í Reykjavík; sjálfu einvígi allra tíma. Því lítið sem ekkert heyrðist af slíkum áformum. Skemmst er frá að segja að þær áhyggjur reyndust óþarfar, því þrátt fyrir kóf og kostnað tókst Skáksambandi Íslands að koma hér á skákviðburði á afmælisárinu, sem varla hefði geta orðið betri. Þ.e. Heimsmeistaramótinu í slembiskák.
Mér þótti þetta mót heppnast frábærlega vel. Þátttakendurnir voru margir af bestu skákmönnum heims í dag og margir þeirra eru miklir karakterar. Það var dásamleg upplifun að vera á skákstaðnum; horfa á og vera í mikilli nálægð við meistarana, fylgjast með skákunum og spjalla við Sæma Rokk og aðra áhorfendur í hléum. Síðast en ekki síst voru lýsingar þeirra Björns Þorfinnssonar og Ingvars Þórs Jóhannessonar frábærlega skemmtilegar, skýrar og vel heppnaðar. Til hamingju með þennan vel heppnaða viðburð Skáksamband Íslands og öll þau sem að þessu stóðu.
Einu vonbrigði mín með Slembiskákmótið voru þau að ég vildi sjá aðra menn í úrslitum! Nefnilega þá Abdusattorov og Carlsen. Annar þeirra reyndist þó of reynslulítill enn, en á framtíðina fyrir sér. Og hinn, sjálfur heimsmeistarinn og ofurskákmennið, tefldi á köflum alls ekki vel. Þ.a. þegar upp er staðið var sennilega sanngjarnt hverjir kepptu til úrslita. Og rétt eins og 1972 vann sá bandaríski þann rússneska. Nakamura er vel að sigrinum kominn, þó svo ég sé litill aðdáandi þess að láta s.k. Armageddonskák ráða úrslitum á alvörumótum.
Hér í lokin má svo nefna að einhver skemmtilegasta skákmynd allra tíma var tekin nú á Slembiskákmótinu í Reykjavík. Þar sem Carlsen og Nepomniachtchi eru að byrja fyrstu skák sína í undanúrslitunum. Myndasmiðurinn hygg ég að sé Lennart Ootes og vona ég að ég sé ekki að brjóta gegn höfundarréttindum með því að láta þessa frábæru mynd fylgja hér. Og sama er að segja um myndasamsetninguna hér efst, en neðri myndin þar frá úrslitum Slembiskákmótsins er tekin af ljósmyndaranum David Lada.
Það kom mér reyndar á óvart hversu mikið frelsi ljósmyndarar höfðu til að spígspora um salinn og mynda keppendurna að tafli. Og nokkuð augljóst að þetta hefði Fischer aldrei heimilað! Því miður lifði hann ekki til að sjá þetta vel heppnaða afmæli Einvígis allra tíma og líklega er Spassky orðinn of hrumur til að ferðast. En minningin um heimsviðburðinn 1972 og þá báða lifir svo sannarlega.
Slembiskákin, sem að verulegu leiti er uppfinning Fischers, mun alveg örugglega eiga eftir að blómstra og verða enn vinsælli, enda mjög skemmtileg viðbót við annars fullkomna list. Og vonandi verður þetta mót einungis hið fyrsta í endurkomu Íslands sem meiriháttar skáklands. Næsta raunhæfa skref gæti verið að gera Reykjavíkurmótin ennþá flottari og sterkari.