c

Pistlar:

17. desember 2020 kl. 9:52

Hulda Björk Svansdóttir (huldabjorksvansdottir.blog.is)

Jólaóskin mín

Þegar maður á langveikt barn þá lærir maður að njóta litlu hlutanna svo miklu betur og ég er þakklát fyrir að hafa lært það. Öll þessu litlu augnablik verða miklu dýrmætari. Þessi tilfinning verður einmitt miklu sterkari um jólin til dæmis. Þá nýtur maður þeirra allt öðruvísi einhvern veginn. Ég er algerlega farin að sleppa öllu stressinu sem ég var í áður því nú veit ég svo vel hvað skiptir máli. Hvaða máli skiptir það þó ég sé ekki búin að þrífa inni í eldhússkápunum ef ég náði að baka með Ægi til dæmis og eiga þannig góða stund með honum eða gera eitthvað með einhverjum í fjölskyldunni. Jólin koma víst alveg þó ég sé ekki búin að þrífa allt húsið hátt og lágt. Ég vil miklu frekar njóta góðra samverustunda með vinum og fjölskyldu en að standa á haus í þrifum, pirruð og ómöguleg. Það eru ekki gleðileg jól fyrir neinn.

Ég hef alltaf verið mikið jólabarn og elska allt tengt jólunum. Ég hef notið jólanna enn betur eftir að ég eignaðist börnin mín og svo jafnvel enn betur eftir að Ægir kom til sögunnar. Aðventan er eiginlega uppáhaldstími hjá mér og ég elska að njóta hennar við að heimsækja vini, baka með krökkunum, horfa á jólamynd eða bara gera eitthvað saman við fjölskyldan. Ég keypti einmitt um daginn yndislegt jóladagatal frá Munum sem nefnist jóladagatal fjölskyldunnar. Þá eru á hverjum degi einhver skemmtileg verkefni sem gaman er að gera saman eins og að spila, skrifa nokkur jólakort saman, fara í jólaljósa göngutúr, allt sem ýtir undir samverustundir. Ég mæli svo sannarlega með þessu dagatali og vildi að ég hefði verið með svona þegar eldri krakkarnir mínir voru litlir. Við erum samt ekkert að stressa okkur yfir því ef dagurinn fer frá okkur og við gerðum ekki það sem stóð í dagatalinu þá er það allt í lagi. Þetta jólastress er allt í huganum hjá manni nefnilega og það er alveg óþarfi að búa til meira af því. Við getum alveg valið hvernig við viljum hafa þetta ekki satt?

Annars hef ég verið að hugsa svo mikið um jólagjafirnar og óskalistann minn þessi jólin. Ég eins og flestir hef gaman af að gefa og fá fallegar gjafir. Gjafirnar eru auðvitað ekki það sem skiptir mestu máli það vitum við flest. Margir eiga um sárt að binda eftir gríðarlega erfitt ár og ég hugsa að flest munum við kunna að meta einföldu hlutina betur um jólin og njóta þess einfaldlega að fá að vera með þeim sem við elskum. Fyrir mína parta að minnsta kosti þá er efst á óskalistanum mínum þessi jólin, besta jólagjöfin sem ég gæti fengið og það eina sem mig langar í er fá meðferð fyrir Ægi og lækningu við Duchenne. Nokkuð mikið að biðja um en engu að síður er það jólaóskin mín.

Ást og kærleikur til ykkar allra

Jólaósk mér eina á

mikils virði er mér

Ljúft það væri loksins að fá

Lækningu handa þér

             Hulda Björk ´20

 

Hulda Björk Svansdóttir

Hulda Björk Svansdóttir

Hulda heiti ég og er tilfinningabúnt sem elskar að syngja, dansa og dunda við það að semja ljóð líka annað slagið. Ég á eiginmann til 16 ára og saman eigum við yndislega tvíbura sem eru 18 ára og 8 ára dreng sem er hetjan mín og aðal ástæða þess að ég skrifa hér. Hann þjáist af alvarlegum vöðvarýrnunarsjúkdómi sem kallast Duchenne. Mig langar að vekja vitund um hvernig það er að eiga langveikt barn og lifa með því. Ég hef brennandi ástríðu fyrir því að gleðja aðra, fá fólk til að brosa og láta gott af mér leiða.

Meira