Ég elska tónlist og hef alltaf haft gaman af að dansa, svo mikið meira að segja að ég á það oft til að bresta í dans þegar ég heyri góða tónlist í útvarpinu. Ég ræð bara ekki við mig og ég leyfi mér bara að fara inn í það hvernig mér líður þegar ég heyri tónlistina. Ef það þýðir að hrista sig aðeins þá er það nú í fínu lagi. Ég geri þetta kannski ekki á almannafæri en allavega heima við, fjölskyldan mín veit hvort eð er hversu biluð ég er. Fyrir mér er tónlist tilfinningar og ég fyllist af þvílíkri vellíðan þegar ég heyri gott lag til dæmis. Ef mér líður eitthvað illa og það kemur gott lag í útvarpinu getur það algerlega snúið líðaninni við og gert daginn betri. Slíkur er máttur tónlistarinnar að hún lyftir andanum upp hreinlega.
Ég nota dansinn svo mikið þegar mér líður illa og alltaf líður mér betur eftir að hafa dansað. Það losnar um allt einhvern veginn, það er ekki hægt annað en að vera glaður þegar maður dansar. Ég mæli svo mikið með að gera þetta ef ykkur líður illa því þetta er í alvöru heilandi. Það hefur verið svo frábært að sjá hvað hann Ægir minn hefur gaman af því að dansa og hve mikla gleði það gefur honum. Hann er til dæmis í danskennslu í skólanum núna og það er algerlega óborganlegt að fylgjast með honum með tunguna út úr sér því hann er svo einbeittur að dansa. Hann leggur sig þvílíkt fram til að geta gert allar hreyfingarnar og gefur krökkunum sko ekkert eftir. Hann vill engan afslátt í því og ég hef eiginlega áhyggjur af því að hann ofgeri sér en ég fæ ekki af mér að láta hann sleppa þessu því hann nýtur sín svo vel.
Ein af uppáhalds stundum mínum með Ægi er til dæmis þegar við dönsum í föstudags fjörinu okkar. Fyrir þá sem ekki vita þá hef ég birt dansmyndbönd með okkur Ægi í rúmt ár á hverjum föstudegi sem við köllum einmitt föstudags fjör í þeirri von að gleðja aðra en einnig til að vekja vitund um Duchenne og sjaldgæfa sjúkdóma. Þetta hefur verið svo ótrúlega skemmtilegt og ég hlakka til í hverri viku að gera nýtt myndband. Ég elska að dansa með Ægi því það er svo gaman að sjá hvað hann hefur gaman af því að dansa. Gleðin skín út úr andlitinu á honum og við gleymum öllum okkar vandamálum um stund þannig að þetta getur ekki verið slæmt. Það hefur allavega verið lítið mál að fá hann með í föstudags dansinn því þar er hann í essinu sínu. Hann er líka oft með hugmyndir um hvernig við eigum að gera þetta og vill jafnvel leikstýra myndböndunum sem er frábært. Þetta hefur gefið okkur báðum þvílíka gleði og er ekkert nema jákvætt, það er svo dásamlegt að búa til góðar stundir og góðar minningar með Ægi.
Það er líka svo margþættur ávinningur af þessum myndöndum, bæði er frábært að fá með þessu tækifæri til að gleðja aðra og um leið að vekja vitund eins og ég talaði um hér að ofan. Það hefur líka verið svo gaman að fá allt þetta skemmtilega fólk til að dansa með okkur og ég er svo þakklát öllum sem hafa tekið þátt með okkur. Við Ægir munum halda áfram að dansa eins lengi og við getum og reyna að fá fleiri með okkur í föstudags fjörið. Ég vona að minnsta kosti að allir hafi gaman af þessu framtaki og jafnvel hristi sig aðeins með okkur. Ég vil að lokum skora á alla þá sem vilja dansa með okkur og leggja góðu málefni lið að hafa samband við mig og við hendum í eitt gott myndband og gleðjum aðra því eins og ég sagði dansinn gerir allt betra.
Ást og kærleikur til ykkar