c

Pistlar:

22. apríl 2021 kl. 13:40

Hulda Björk Svansdóttir (huldabjorksvansdottir.blog.is)

Getið þið fyrirgefið mér?

Til elsku barnanna minna

Mig langar að segja fyrirgefðu við ykkur því undanfarin ár hef ég klúðrað mörgu sem viðkemur ykkur. Ég verð bara að viðurkenna það og horfast í augu við það eins erfitt og sárt og það er. Ég sé hvernig ykkur líður, ég finn hvernig samskiptin okkar hafa breyst og þið hafið fjarlægst mig, ég sé sársaukann ykkar þó þið viljið ekki alltaf viðurkenna hann. Ég finn hann í hjartanu mínu.  Mér finnst eins og það sé gjá á milli okkar sem ég hef búið til sjálf og mig langar svo mikið að brúa hana aftur og tengjast ykkur betur. Það er aldrei of seint að biðjast afsökunar og reyna að bæta sig í lífinu. Til þess að eiga möguleika á því að bæta samskiptin okkar verð ég að opna hjartað mitt enn frekar og vera heiðarleg og biðjast fyrirgefningar. Játa að ég hef verið eigingjörn og hugsað meira um Ægi en ykkur og hvað ég þarf að gera fyrir hann. Það er svo erfitt að vera mamma, það er enn erfiðara að vera mamma þegar barnið manns veikist af lífshættulegum sjúkdóm. Það fór öll athyglin á bróður ykkar og þið voruð á hliðarlínunni bara 16 ára unglingar að reyna að finna ykkar stað í lífinu og skilduð ekkert hvað var að gerast. Þetta hlýtur að hafa verið ykkur afar erfitt að sjá mig svona niðurbrotna og í þúsund molum, ég sem hafði alltaf verið til staðar fyrir ykkur.

Ég hef því miður ekki getað verið til staðar fyrir ykkur síðust ár og mér þykir það svo óendanlega leitt. Ég hef ekki sinnt ykkur nógu vel því ég hef verið svo upptekinn við að sinna Ægi og reyna að finna hjálp fyrir hann. Nánast allur minn tími og orka hefur farið í Ægi. Ég gerði það ekki meðvitað, það gerðist bara. Fyrirgefið þið, ég veit þið þurftuð líka á mér að halda en ég gat ekki gefið ykkur það sem þið þurftuð. 

Fyrirgefið þið hvað ég hef verið stjórnsöm og oft erfið í samskiptum, ég var bara að reyna að ná einhverri stjórn í lífinu mínu sem varð allt í einu stjórnlaust.  Þegar Ægir greindist missti ég algerlega fótana og mér fannst ég hafa enga stjórn. Þegar ég missti svona gjörsamlega stjórnina fannst mér ég verða að ná einhverri stjórn á því sem ég gæti þá mögulega stjórnað og því beindist þessi stjórnsemi gegn ykkur og mér þykir það óendanlega leitt.

Ég sit hér með tárin í augunumm og finnst ég vera ömurlegasta mamma í heimi því ég hef brugðist ykkur. Það eina sem ég get gert er að segja fyrigefðu  og lofa að ég muni reyna að bæta mig. Ég ætla að láta af stjórnseminni og vera til staðar fyrir ykkur þegar þið þurfið. Nú eruð þið orðin fullorðin og þurfið ekki eins mikið á mér að halda. Þið eruð að aðgreina ykkur meira og verða sjálfstæðari þannig er bara gangur lífsins. Ég vil samt að þið vitið að í huga mér verðið þið alltaf litlu yndislegu börnin mín og skiptið mig jafn miklu máli og Ægir. Ég elska ykkur af öllu hjarta og ég biðst afsökunar ef ég hef látið ykkur finnst þið vera minna elskuð og afskipt. Ég er stolt af ykkur og vona að þið getið verið stolt af mér líka. Þið vitið vonandi innst inni að ég myndi gera allt fyrir ykkur og að allt sem ég hef gert fyrir ykkur er vegna þess hvað ég elska ykkur mikið. Ég er alltaf að reyna að gera mitt besta og ég vona að þið sjáið það. Við gerum öll mistök en aðalmálið er að læra af þeim og ég er á þeirri vegferð að reyna að læra af mínum mistökum. Ég mun örugglega hrasa aftur en ég get lofað ykkur því að ég mun alltaf standa upp og reyna mitt besta fyrir ykkur.

Elska ykkur að eilífu

Ykkar dramatíska og stjórnsama móðir

Hulda Björk Svansdóttir

Hulda Björk Svansdóttir

Hulda heiti ég og er tilfinningabúnt sem elskar að syngja, dansa og dunda við það að semja ljóð líka annað slagið. Ég á eiginmann til 16 ára og saman eigum við yndislega tvíbura sem eru 18 ára og 8 ára dreng sem er hetjan mín og aðal ástæða þess að ég skrifa hér. Hann þjáist af alvarlegum vöðvarýrnunarsjúkdómi sem kallast Duchenne. Mig langar að vekja vitund um hvernig það er að eiga langveikt barn og lifa með því. Ég hef brennandi ástríðu fyrir því að gleðja aðra, fá fólk til að brosa og láta gott af mér leiða.

Meira