Af því að ég var svolítið að tala um álagið sem fylgir því að vera foreldri langveiks barns nýlega þá langar mig aðeins að halda áfram með þá umræðu.
Ég er farin að hafa áhyggjur af sjálfri mér því mér finnst ég stundum vera svo örþreytt og og svo er mig farið að verkja í líkamann líka. Ég veit svo sem hver ástæðan fyrir því er en það er að ég er ekki að næra mig rétt og er að borða óhollt, nota matinn sem huggara. Ég er viss um að margir tengja við þetta sem eru að ganga í gegnum áfall að nota mat sem huggara eða þá að fara alveg í hina áttina og borða ekki neitt. Það er svo auðvelt að falla í þessa gryfju þegar erfiðleikar steðja að en er að sama skapi svo mikilvægt að passa sig á. Ég held samt að þetta gerist allt of oft hjá manni þegar eitthvað bjátar á, þá sækir maður í fljótlegu orkuna og óhollustuna.
Maður áttar sig ekki endilega á því hvað maður lifir í mikilli streitu og hvað hún gerir manni. Hjartslátturinn minn hefur til dæmis hækkað um 10 slög í hvíld og er komin í 80 slög á mínútu sem bendir nú mjög líklega til streitu. Mér líður stundum skringilega innra með mér sem erfitt er að lýsa en það er pínulítið eins og ég titri að innan, einhver rosalegur óróleiki. Ég er farinn að hafa verulegar áhyggjur af þessu og þarf virkilega að fara að huga að því hvað ég get gert. Nú er ég búin að vera keyra á orkuna mína örugglega í nokkurn tíma og maður getur alveg keyrt nokkuð lengi á vara orkunni en það er eins gott að passa sig og hlusta á líkamann áður en í óefni kemur. Maður verður að vera góður við sjálfan sig og leyfa sér að hugsa vel um sig. Ég er komin með það á stefnuskrána hjá mér að fara í Hveragerði og taka á mínum málum en að fara þangað er nú eitthvað sem ég held að væri hollt fyrir alla að gera einu sinni á ári. Maður fer með bílinn sinn í viðhald reglulega en gleymir svo oft að gera slíkt hið sama fyrir sjálfan sig, skrýtið ekki satt?
Að lifa við langvarandi streitu er svo hættulegt. Maður heyrir alls konar sögur af hvernig heilsa fólks hrynur bókstaflega svo það er gríðarlega mikilvægt að reyna að minnka streituna eins og hægt er. Ég hef heyrt sögur af foreldrum langveikra barna sem hafa hreinlega orðið öryrkjar, fólk sem var ef til vill fullkomlega heilbrigt áður en það lenti í þessum aðstæðum. Það að eiga langveikt barn er eiginlega stanslaus streituvaldur því áfallið er endalaust. Maður er alltaf að upplifa sorgina aftur og aftur og sveiflast fram og til baka endalaust.
Ég er alveg ákveðin í því að gera betur varðandi mína streitu því ég vil vera heilbrigið og geta sinnt Ægi og fjölskyldunni minni. Ef maður hefur ekki heilsuna sína þá er mikið farið frá manni. Bara svona smá hugleiðing inn í daginn til að minna ykkur á að streita er lúmskt fyribæri og getur gert mikinn óskunda.
Þannig að hvað sem þið gerið farið vel með ykkur elskurnar og verið góð við ykkur.
Ást og kærleikur til ykkar