Ég fékk mikil viðbrögð við pistlinum mínum um daginn þar sem ég skrifaði bréf til barnanna minna og baðst fyrirgefningar á mistökum mínum og því að hafa brugðist þeim að vissu leyti. Ég fékk meðal annars símtal frá yndislegri vinkonu sem kom með góðan punkt. Hún minnti mig góðlátlega á að ég væri allt of hörð við sjálfa mig og þegar ég hugsaði um það þá vissi ég að það var alveg rétt hjá henni. Ég reif mig kannski full harkalega niður og fannst ég ömurleg mamma en það var nú kannski ekki alveg svoleiðis í raunveruleikanum auðvitað. Þetta símtal fékk mig til að hugsa og sjá allar hliðarnar á þessu betur. það er oft svo gott að fá smá áminningu frá einhverjum á hliðarlínunni þegar maður er kannski aðeins of harður við sjálfan sig. Til að vera sanngjörn við mig þá var ég bara mamma Í erfiðum aðstæðum að reyna að gera mitt besta og það er auðvitað alveg nóg, það er allavega það eina sem maður getur gert og það gerir mig ekki að vondri móður. Það gerir mig líklega að góðri móður meira að segja að ég hafi haft þessar áhyggjur af börnunum mínum og þeirra líðan.
Hafandi sagt þetta þá hefur mér alltaf þótt skipta miklu máli að geta viðurkennt fyrir börnunum mínum þegar ég geri mistök og að segja fyrirgefðu við þau þegar mér finnst ég ekki hafa staðið mig nógu vel og að ég hefði viljað gera betur. Það er mín leið að reyna að vera góð fyrirmynd fyrir þau því það er gríðarlega mikilvægt fyrir börn að sjá að fullorðnir gera líka mistök. Eins og það er mikilvægt fyrir mann að geta beðist afsökunar á gjörðum sínum er jafnvel enn mikilvægara að geta fyrirgefið sjálfum sér held ég. Það er eitthvað sem ég held að við mömmur eigum oft afar erfitt með að gera . Ég hugsa að sjálfs ásökunin sé jafnvel enn meiri hjá mæðrum langveikra barna því maður á eitt barn sem þarf meira á manni að halda en hin börnin og maður finnur að maður verður einhvers staðar að gefa eftir þó maður vilji það ekki. Maður er með samviskubit því maður getur ekki verið alls staðar eins maður vill og getur ekki sinnt öllum börnunum eins vel. Þá kemur vanlíðunin, niðurrifið og allt vonda sjálfstalið.
Við konur og mæður erum oft svo hrikalega óvægnar við okkur sjálfar að það hálfa væri nóg. Það sem við leyfum okkur að segja við okkur sjálfar myndum við aldrei nokkurn tíma voga okkur að segja við vinkonur okkar. Við rífum okkur svoleiðis niður og lemjum okkur svo með svipunni endalaust. Ég hef oft átt erfitt með að fyrirgefa sjálfri mér en ég er að reyna það. Ég ætla að minna mig á að ég hafi gert mitt besta á hverjum tíma og einblína á hvað ég get gert betur í dag og það er nóg. Fortíðin þarf ekki að skilgreina mig en ég get lært af henni.
Ég velti því fyrir mér af hverju þetta er svona hjá okkur mömmunum? Af hverju erum við svona fljótar að dæma okkur og finnast allt vera okkur að kenna sem aflögu fer í uppeldi barnanna? Ég veit svo sem ekki svarið við því en það er svo flókið að vera móðir og kannski er maður hræddur um að þau mistök sem maður gerir muni fylgja börnunum um alla ævi? Að maður hafi skaðað þau fyrir lífstíð. Að ekkert af því góða sem maður taldi sig vera að gera muni skila einhvern tímann skila sér til þeirra.
Ég veit ekki með ykkur en hef ekki enn fundið hina fullkomnu bók um barnauppeldi, ef þið finnið hana þá endilega látið mig vita. Nú ól ég tvíburana mína upp á alveg sama hátt en þau eru gjörólík. Það sem virkaði á dóttur mína virkaði alls ekki á son minn. Auðvitað er ekki allt mér að kenna og ég þarf ekki að biðjast afsökunar á öllu sem mér finnst hafa miður farið. Lífið er einfaldlega flókið og eitt erfiðasta hlutverkið sem við fáum er að vera foreldrar. Þannig að þrátt fyrir að mér hafi fundist ég gera mistök beðist afsökunar þá ætla ég líka að vera góð við mig. Ég ætla stöðugt að minna mig á að ég gerði mitt besta, ég studdi börnin mín eins vel og ég gat, hvatti þau áfram og nærði þau á þann hátt sem ég taldi best. Ég gaf þeim hjarta mitt og mig alla og það munu þau vonandi einhvern tímann sjá og kunna að meta. Við allar mömmur þarna úti sem líður eins og þær séu ómögulegar og séu ekki að standa vil ég segja ekki vera of harðar við ykkur því að þið eruð að gera ykkar besta aldrei gleyma því og umfram allt fyrirgefið ykkur sjálfum.
Ást og kærleikur til ykkar