c

Pistlar:

29. júlí 2021 kl. 10:22

Hulda Björk Svansdóttir (huldabjorksvansdottir.blog.is)

Velkomin til Hollands

Þegar maður verður foreldri leggur maður af stað í eitt það skemmtilegasta, óvæntasta, erfiðasta en jafnframt yndislegasta ferðalag sem lífið býður upp á. Að eignast heilbrigt barn er það sem allir óska sér en stundum er lífið ekki þannig. Það er erfitt fyrir þá sem eiga heilbrigð börn að skilja hvað foreldrar ganga í gegnum þegar barnið þeirra fæðist ekki heilbrigt. Fyrir nokkru rakst ég á afskaplega fallegan texta sem lýsir svo vel þessu ferðalagi sem það er að vera foreldri langveiks barns. Ég tók mér því bessaleyfi og þýddi þennan texta gróflega og vona að hann veiti einhverja innsýn í þetta líf foreldris langveiks barns sem þrátt fyrir alla erfiðleikana er líka svo dásamlegt. 

Þegar maður er að fara að eignast barn mætti líkja því við það að undirbúa yndislegt ferðalag til Ítalíu. Í mörg ár hefur þú heyrt dásamlegar sögur um þetta frábæra land. Þú hefur eytt óteljandi stundum í það að láta þig dreyma um allt það stórkoslega sem þú munt upplifa þar. Þú hefur keypt þér alls konar bæklinga til að læra allt um Ítalíu. Þig hlakkar til að skoða hringleikahúsið í Róm, Sankti Péturskirkjuna og sigla á gondóla í Feneyjum. Þú hefur jafnvel lagt það á þig að læra nokkur orð í ítölsku og þetta er allt mjög spennandi.

Eftir langan undirbúning rennur ferðadagurinn upp. þú pakkar í töskurnar og stígur upp í flugvélina fullur tilhlökkunar. Eftir nokkurra klukkutíma flug lendir vélin loksins og þú heyrir í kallkerfinu að flugfreyjan býður alla velkomna til Hollands.

Hollands segir þú hissa, ég ætlaði ekki að fara til Hollands. Ég á bókaðan miða til Ítalíu, ég á að vera í Ítalíu, mig hefur dreymt um að fara til Ítalíu alla ævi.

Þér er tilkynnt að það hafi orðið breyting á flugáætluninni, vélin hafi lent í Hollandi og þar verðir þú að vera.

Jæja hugsar þú, það mikilvæga er að það var allavega ekki farið með þig á einhvern ógeðslegan stað, stað þar sem allt er skítugt og hættulegt. Þetta er bara annar staður en þú ætlaðir á. Þú verður þvi að fara út úr vélinni og kaupa þér nýja bæklinga, læra nýtt tungumál og kynna þér nýja menningu.

Eftir að hafa dvalið nokkurn tíma í Hollandi áttar þú þig á að þú hefur kynnst fullt af yndislegu fólki sem þú hefðir aldrei kynnst hefðir þú farið til Ítalíu. Þetta er kannski ekki Ítalía og hlutirnir ganga kannski hægar fyrir sig í Hollandi en eftir að hafa dregið djúpt andann og áttað þig á þessum nýja stað þá ferð þú að líta í kringum þig og ferð að sjá að það er margt gott í Hollandi líka. Í Hollandi eru kannski ekki listaverk eftir Da Vinci eða Michelangelo en þeir hafa Rembrandt. Holland hefur líka vindmyllur og túlípana sem eru svo fallegir. 

Allir í kringum þig eru uppteknir af því að koma og fara til Ítalíu og það sem eftir lifir ævi þinnar muntu segja : já ég átti að fara þangað líka. Það var það sem ég planaði að gera. En ef þú eyðir allri ævi þinni í að syrgja það að hafa ekki komist til Ítalíu muntu aldrei njóta alls þess fallega sem Holland hefur upp á að bjóða

Ást og kærleikur til ykkar.

Screenshot 2020-12-08 09.48.07

Hulda Björk Svansdóttir

Hulda Björk Svansdóttir

Hulda heiti ég og er tilfinningabúnt sem elskar að syngja, dansa og dunda við það að semja ljóð líka annað slagið. Ég á eiginmann til 16 ára og saman eigum við yndislega tvíbura sem eru 18 ára og 8 ára dreng sem er hetjan mín og aðal ástæða þess að ég skrifa hér. Hann þjáist af alvarlegum vöðvarýrnunarsjúkdómi sem kallast Duchenne. Mig langar að vekja vitund um hvernig það er að eiga langveikt barn og lifa með því. Ég hef brennandi ástríðu fyrir því að gleðja aðra, fá fólk til að brosa og láta gott af mér leiða.

Meira