Af því að ég ræddi síðast um það hversu krefjandi foreldrahlutverkið getur verið þá hef ég verið hálf ómöguleg síðustu daga og þið vitið hvernig það bitnar oft á manns nánustu og þá oftar en ekki börnunum. Mér er bara búið að líða eitthvað illa, ég hef verið pirruð, verið að sofa illa, með voðalega stuttan þráð og hreinlega ekki náð mér í góðan gír. Ægir var búin að vera að spyrja mig hvort við gætum ekki bakað í nokkra daga og ég var eiginlega búin að vera að humma það fram af mér því ég var ekki í neinu stuði, hafði mig ekki í neitt einhvern veginn. Jæja ég ákvað þó að reyna að kýla á þetta og búa til skemmtilegan dag með honum. Maður verður jú alltaf að vera góð mamma er það ekki?
Hann var svo spenntur, búin að velja æðislega köku og pæla mikið í hvernig kremið átti að vera og eiginlega tala stanslaust um þetta í 2 daga. Við byrjum svo á bakstrinum og voða gaman en svo tók pirringurinn yfir hjá mér. Það fór allt í taugarnar á mér, ég átti ekki matarlit og ég klúðraði kreminu fannst mér og smátt og smátt var ég farin að láta pirringinn minn bitna á Ægi. Hann greyið var svo þolinmóður við mig allan tímann og reyndi sífellt að gera það besta úr þessu sama hvað kom upp á. Ég skammaðist mín innra með mér að ég skyldi ekki ráða betur við mig og losa mig úr þessari gremju minni, ég bara réð ekkert við mig. Það er skrýtið hvernig maður getur látið ef manni líður illa en samt heldur maður áfram í hegðuninni þó maður viti betur.
Þarna var litli kúturinn minn að reyna að eiga góða stund með mömmu sinni en ekkert gekk og ég eyðilagði þessa stund sem hefði annars getað orðið svo góð. Svo varð þetta bara verra því ég var auðvitað orðin pirruð út í sjálfa mig og skammaðist mín af því að ég náði ekki stjórn á þessum pirring en langaði það svo mikið.
Allavega við kláruðum kökuna og sem betur fer var Ægir mjög ánægður með hana en mér leið enn svo illa innra með mér af því að mér fannst ég hafa verið svo ósanngjörn og leiðinleg við Ægi en ég gat ekki einu sinni beðið hann einlæglega afsökunar því andlega réð ég ekki við tilfinningarnar. Ég þurfti eitthvað svo langan tíma til að jafna mig.
Það var ekki fyrr en um kvöldið þegar ég hafði farið í göngutúr og var að fara að sofa að mér leið betur. Ég kúrði hjá Ægi og við spjölluðum um hvernig dagurinn hefði verið. Ég bað hann innilegra afsökunar á því hvað ég hefði verið pirruð við hann. Ég sagði honum að mér þætti svo leitt að ég hefði látið það bitna á honum hvað mér leið illa og að það hefði verið ósanngjarnt af mér. Elsku hjartahlýi Ægir minn knúsaði mig fast og sagði svo : það er allt í lagi mamma, ég skil þig vel, ég á líka svona daga, þetta er allt í lagi.
Ég táraðist og knúsaði hann enn fastar og þakkaði í huganum innilega fyrir að eiga þennan yndislega litla lærimeistara sem alltaf er að kenna mér eitthvað. Elsku kúturinn minn, ég held stundum að honum hafi verið gefið eitthvað sérstakt í vöggugjöf til að styðja mig í gegnum lífið. Ég ætla að reyna að vera samt ekki of hörð við sjálfa mig, ég er bara mannleg og það þarf maður að muna sem foreldri. Ég held að aðalmálið sé að horfast í augu við sjálfan sig og geta viðurkennt að maður gerði mistök. Það er svo gott að geta beðið börnin sín afsökunar og sýna þeim þannig að allir gera mistök. Mestu skiptir hvað maður lærir af þeim mistökum og hvernig maður bregst við næst þegar maður gerir mistök.
Takk elsku Ægir minn fyrir að kenna mér að verða betri manneskja.
Ást og kærleikur til ykkar