c

Pistlar:

11. nóvember 2021 kl. 10:31

Hulda Björk Svansdóttir (huldabjorksvansdottir.blog.is)

Kærleikurinn fyllti líf mitt

Það er svo margt sem ég hef lært eftir að Ægir greindist með Duchenne og flest er af hinu góða. Ég hef alltaf verið mikil tilfinningavera og fundið fyrir miklum kærleik innra með mér en það fór eiginlega í yfirgír þegar Ægir greindist. Allar upplifanir eru orðnar sterkari einhvern veginn, ég finn miklu meira fyrir öllu og þá sérstaklega því fallega og góða í lífinu. Ég reyni meðvitað að vera í kærleik alla daga því það færir mér svo mikla vellíðan. Það er líka svo yndislegt að gefa af sér því það kemur svo margfalt til baka skal ég segja ykkur.

Stundum finnst mér ég svo uppfull af kærleik að ég sé hreinlega að springa. Ég upplifi kærleikann svo sterkt alla daga og hann gefur mér svo ótrúlega mikinn kraft. Ég vildi óska að ég gæti sett þennan kærleik og kraft sem ég finn fyrir á flöskur og gefið ykkur með mér. Ef maður er í kærleika gerast svo fallegir hlutir nefnilega. Með því að vera í kærleikanum og setja hann út í heiminn þá kemur miklu meiri kærleikur til okkar og það er akkurat það sem hefur gerst hjá mér. Ég er endalaust að fá kærleik til mín og það er svo stórkostlegt að finna.

Það er oft talað um að maður geti laðað hluti að sér og að það sem maður hugsi um vaxi og ég get sagt að af minni reynslu er þetta alger sannleikur. Auðvitað kemur fyrir að ég á ekki góða daga og lífið er eitthvað leiðinlegt eins og allir lenda í en það er svo skrýtið að þá kemur alltaf eitthvað fallegt til mín til að hjálpa mér, falleg skilaboð frá einhverjum eða gott símtal frá vin.

Eins gott og það er að vera í kærleika og jákvæðni þá hlýtur að vera eins vont að vera í neikvæðni og biturleika því þá fær maður einmitt meira af því til sín. Maður þekkir alveg dæmi um fólk þar sem það virðist vera endalaus neikvæð orka í kringum og lífið er alltaf svo erfitt eithvað. Þegar maður fer að skoða þetta þá sér maður hvað hugarfarið skiptir miklu máli í lífinu. Við getum nefnileg stjórnað þessu mikið sjálf hvernig okkur mun farnast með góðu hugarfari því eins og ég sagði þá vex það sem við einblínum á. Þetta er ekki flókið en getur samt reynst mörgum mjög erfitt. 

Jákvætt hugarfar er svo mikilvægt í lífinu og að vera opinn fyrir kærleikanum. Ég skora á ykkur að prófa að einblína á það góða og sjá hvernig líf ykkar mun breytast og fyllast af kærleik og góðum hlutum. Lífið er núna því ekki að lifa því sem best og vera leyfa kærleikanum að umvefja okkur. Þið sjáið ekki eftir því.

Ást og kærleikur til ykkar

Hulda Björk Svansdóttir

Hulda Björk Svansdóttir

Hulda heiti ég og er tilfinningabúnt sem elskar að syngja, dansa og dunda við það að semja ljóð líka annað slagið. Ég á eiginmann til 16 ára og saman eigum við yndislega tvíbura sem eru 18 ára og 8 ára dreng sem er hetjan mín og aðal ástæða þess að ég skrifa hér. Hann þjáist af alvarlegum vöðvarýrnunarsjúkdómi sem kallast Duchenne. Mig langar að vekja vitund um hvernig það er að eiga langveikt barn og lifa með því. Ég hef brennandi ástríðu fyrir því að gleðja aðra, fá fólk til að brosa og láta gott af mér leiða.

Meira