Ég þreytist ekki á því að segja ykkur frá því frábæra fólki sem ég hef kynnst og líka því fólki sem er þarna úti alla daga að gera heiminn betri. Ég sé svo marga vera að leggja ótrúlega mikið á sig og mér finnst að ég verði að beina kastljósinu að öllum þessum fallegu verkefnum. Þess vegna langar mig að segja ykkur aðeins meira frá einu slíku.
Þekkið þið hana Míu? Ég hef talað um hana áður en mér finnst ég verði að halda áfram að minna á hana því þetta er verkefni sem sannarlega á skilið að fá stuðning. Aðeins til að rifja upp hvað Míu verkefnið er þá er það hugarfóstur hennar Þórunnar Evu G. Pálsdóttur. Hún á heiðurinn á því að búa Míu til en Þórunn á tvo langveika drengi sem báðir þurftu að fá lyfjabrunn í sínum veikindum og út frá því varð verkefnið til. Þegar Þórunn var í námi þá var lokaverkefnið hennar að skrifa barnabók sem hugsuð var til að hjálpa börnum í gegnum það ferli að fá lyfjabrunn. Þannig varð hún Mía sem sagt til og bókin heitir einmitt Mía fær lyfjabrunn. Verkefnið óx síðan meira og meira og í dag færir Mía bæði foreldrum langveikra barna og börnunum sjálfum svokallað Míubox. Boxið er fullt af spennandi hlutum sem gleðja og næra þá sem það fá. Þetta er hugsað sem gjöf til foreldra og barna sem eru undir miklu álagi og vantar smá glaðning til að gera lífið betra. Þetta er þó ekki það eina sem Mía gerir því hún veitir líka verðlaun til heilbrigðis starfsfólks sem skarar fram úr í umönnun langveikra barna. Það sem mér finnst líka frábært við þetta er að Mía og allt í kringum hana vekur í leiðinni vitund um sjaldgæfa sjúkdóma sem er mjög nauðsynlegt. Þetta er ótrúlega fallegt verkefni og svo sannarlega þess virði að styðja við það.
Mig langaði bara að vekja athygli á þessu ef einhver fyrirtæki geta hugsað sér að leggja góðu málefni lið. Við þurfum að vera duglega að styðja við fólk sem er í svona góðgerðarstarfsemi finnst mér og það er mér ljúft og skylt að gera það sem ég get til að styðja við þetta framtak hjá Þórunni. Hún er bara mamma sem fór af stað með hugmynd sem hefur nú vaxið og er að blómstra. Þórunn sýnir okkur hvað einstaklingurinn getur gert magnaða hluti og haft áhrif til hins betra. Það ætti að vera að fjallað miklu meira um svona verkefni í fréttunum heldur en allt þetta neikvæða í heiminum. Með fleiri jákvæðum fréttum dreifum við kærleika og gleði og því fleiri sem sjá það því víðar breiðist boðskapurinn. Jákvæðni og kærleikur smitar nefnilega út frá sér því allt sem við veitum athygli vex og ég að minnsta kosti vill sjá verkefni eins og Míu vaxa og dafna. Endilega skoðið miamagic.is
Ást og kærleikur til ykkar.