Alveg sama hvernig lífið er og hvað er í gangi hjá manni þá er svo mikilvægt að reyna að hafa gaman. Lífið er allt of stutt til að hafa ekki gaman finnst mér, mig langar allavega ekki að eyða tímanum í eitthvað sem mér finnst leiðinlegt. Vissulega þarf maður stundum að gera hluti sem manni finnst ekki endilega skemmtilegir en ég er bara að tala um svona almennt að reyna að að gera eitthvað smá á hverjum degi sem gleður mann og nærir.
Það þarf ekki endilega að vera mikið, kannski bara syngja, hitta vin, lesa í góðri bók eða fara í göngutúr. Það skiptir engu máli hvað það er svo lengi sem það færir manni gleði. Ég er alltaf að reyna að muna eftir þessu á hverjum degi því ég trúi því að þetta sé svo mikilvægt fyrir geðheilsuna. Ef maður vill geta verið til staðar fyrir fjölskylduna sína og vini þá verður maður að vera í góðu standi er það ekki? Maður er engum til gagns ef maður er bara hálf manneskja með litla orku og ekkert til að gefa af sér.
Ég hef rekið mig á það í gegnum mitt ferðalag að þegar ég er ekki dugleg að sinna sjálfri mér þá fer að halla undan fæti hjá mér. Þá fer ég að verða pirruð og ómöguleg eiginlega og það bitnar svo aftur á mínum nánustu og enginn græðir. Ég er því farin að gera mér far um það að sinna því sem nærir mig og gleður því ég finn hvað það hefur góð áhrif í lífinu mínu.
Maður setur sjálfan sig allt of oft aftast í röðina og reynir að sinna öllum öðrum fyrst. Það gengur kannski í einhvern tíma en það kemur að því að maður krassar á því. Það er aldrei hægt að minna sjálfan sig of oft á þetta og ég er meira að segja farin að setja áminningu í dagbókina mína á hverjum degi að gera eitthvað sem mér finnst gaman til að halda mér við efnið. Ég veit að því betur sem ég hugsa um mig því betur get ég gert allt sem ég þarf að gera. Þetta er ekki flókið og við vitum þetta öll, málið er bara að fara eftir því. Það getur oft verið erfitt í dagsins önn en maður þarf þá bara að skipuleggja sig vel, kannski vakna aðeins fyrr til að geta átt tíma með sjálfum sér eða slökkva fyrr á sjónvarpinu á kvöldin. Ég er langt í frá fullkomin að halda mig við þetta en ég reyni eins og ég get því ég finn að þetta bætir lífsgæðin mín og svo verður lífið auðvitað miklu skemmtilegra.
Mig langaði bara að deila með ykkur því sem hjálpar mér og vonandi les þetta einhver sem þurfti á þessu að halda í dag. Ég vona að við getum öll gert eitthvað sem gleður okkur, við verðum bara að muna að setja okkur í fyrsta sætið.
Gerðu það sem gleði þér færir
eitthvað gott sem andann nærir
Njóttu þess hvern einasta dag
Þá allt mun ganga þér í hag
Hulda Björk
Ást og kærleikur til ykkar