c

Pistlar:

17. mars 2022 kl. 10:04

Hulda Björk Svansdóttir (huldabjorksvansdottir.blog.is)

Skiptir máli að vera góð fyrirmynd

Þau gildi sem ég hef í hávegum eru jákvæðni og bjartsýni. Ég hef oft talað um hvað það skiptir miklu máli að vera jákvæður í þessari stöðu sem ég er. Ég þreytist ekki á því að tala um það og ég segi það satt að það að vera jákvæð og bjartsýn hefur bjargað lífi mínu. Rannsóknir sýna meira að segja að þeir sem eru bjartsýnir lifa lengur svo þar hafið þið það. 

Ég hef hugsað mikið um þetta undanfarið því ég sé hvað Ægir er jákvæður og bjartsýnn og hvað það hefur góð áhrif á hans líf. Ég er mjög glöð að sjá hvernig hann tekst á við erfiða hluti af bjartsýni og jákvæðni og ég veit að það er nokkuð sem einnig bjargar hans lífi. Ég er sannfærð um að það er ein af ástæðunum að honum gengur svona vel.

Ég sem leikskólakennari er fullmeðvituð um það hvað við foreldrar erum miklar fyrirmyndir í lífi barna okkar, hversu mótandi áhrif við höfum á börnin. Hvernig við bregðumst við í lífinu skiptir miklu máli, hvort við erum bitur og reið af því að lífið er ósanngjarnt eða hvort við reynum að einblína á það góða sama hvað og vera bjartsýn.  Við foreldrar höfum gríðarlega mikið með að segja hvernig hugsun börnin okkar tileinka sér, hvernig viðhorf þau hafa í lífinu þegar á móti blæs. Við erum þeirra stærstu fyrirmyndir.

Ef við erum neikvæð og setjum okkur í hlutverk fórnarlambsins getum við nokkurn veginn gert ráð fyrir því að börnin okkar geri slíkt hið sama. Eins og máltækið segir: Það læra börnin sem fyrir þeim er haft. Það er svo ótrúlega mikilvægt að vera góð fyrirmynd fyrir börnin því þau læra ekki endilega mest á því hvað við segjum heldur hvernig við högum okkur. Þau taka alltaf meira eftir hegðuninni, það er alveg klárt. Við getum til dæmis endalaust predikað um mikilvægi þess að vera jákvæð við börnin okkar en ef við erum svo í rauninni neikvæð og bregðumst neikvætt við aðstæðum þá er það það sem börnin læra og tileinka sér. Þetta er eins og að púa sígarettuna en vera á sama tíma með fyrirlestur við barnið sitt um óhollustu reykinga. Eða þá að þegar lítið barn dettur og horfir strax á foreldrið til að sjá viðbrögðin og ef foreldrið sýnir hræðsluviðbrögð, þá fer barnið að gráta í staðinn fyrir að foreldrið bregst við með því að brosa og gerir lítið úr þessu þá gleymir barnið þessu fljótt og heldur áfram að leika. Þetta eru engin geimvísindi, það skiptir máli hvað börnin sjá. Hvernig við bregðumst við skiptir máli.

Ég held að ég þurfi allavega ekkert að vera að setja meiri neikvæðni í líf hans Ægis míns. Alveg er nóg sem hann mun þurfa að kljást við verandi með Duchenne . Ef ég get verið jákvæð og hjálpað honum að vera það líka þrátt fyrir allt þá gerir það honum mun meira gagn heldur en að vorkenna honum og vera bitur. Ég ætla því að halda áfram að vera jákvæð og bjartsýn, fyrir mig, fyrir Ægi og fjölskylduna mína. Þannig komumst við betur í gegnum þetta saman. Jákvæðnin fleytir manni ansi langt skal ég segja ykkur.

Lífið verður líka svo miklu betra ef maður er jákvæður, jafnvel þó lífið sé erfitt á köflum. Það er svo miklu auðveldara að takast á við mótlætið með bjartsýni og jákvæðni að vopni. 

Ást og kærleikur til ykkar

Hulda Björk Svansdóttir

Hulda Björk Svansdóttir

Hulda heiti ég og er tilfinningabúnt sem elskar að syngja, dansa og dunda við það að semja ljóð líka annað slagið. Ég á eiginmann til 16 ára og saman eigum við yndislega tvíbura sem eru 18 ára og 8 ára dreng sem er hetjan mín og aðal ástæða þess að ég skrifa hér. Hann þjáist af alvarlegum vöðvarýrnunarsjúkdómi sem kallast Duchenne. Mig langar að vekja vitund um hvernig það er að eiga langveikt barn og lifa með því. Ég hef brennandi ástríðu fyrir því að gleðja aðra, fá fólk til að brosa og láta gott af mér leiða.

Meira