Öll könnumst örugglega við að hafa lent í að hafa lent í aðstæðum þar sem við erum að reyna að sýna öðrum samkennd en segjum eitthvað sem er túlkað sem óviðeigandi eða særandi. Það getur verið erfitt að vita hvað maður á að segja í vissum aðstæðum og stundum segir maður eitthvað sem kemur vissulega frá góðum stað en er ekki endilega það besta sem maður gæti hafa sagt. Ég hef heyrt marga foreldra langveikra barna tala um þetta og að þeim finnist stundum óþægilegt það sem aðrir segja við þá til huggunar.
Fólk vill auðvitað sýna samkennd með því að segja eitthvað fallegt og hughreystandi en endar kannski á að segja hluti sem geta stuðað og eru ekki hjálplegir. Hvernig á fólk líka að vita hvað á að segja? Það er auðvitað ekkert rétt í því hvað á að segja og hvað ekki og það er líka svo persónubundið hvernig fólk tekur því sem sagt er. Ég tek fram að ég er alls ekki sérfræðingur í þessu, það er svo langt í frá en mig langaði að velta þessu aðeins upp því ég hef heyrt þessa umræðu svo mikið hjá foreldrum. Þetta á auðvitað við um alls konar aðstæður í lífinu, til dæmis Þar sem fólk hefur misst ástvin eða er að ganga í gegnum erfiðleika en ég er auðvitað mest að tala um þetta út frá langveikum börnum.
Ég held að þetta geti stundum verið ástæðan fyrir því að margir foreldrar langveikra barna einangrast. Fólk veit hreinlega ekki hvað það á að segja hinum ýmsu aðstæðum í kringum langveik börn. Ég hef sjálf verið í þessum sporum og ekkert vitað hvað ég átti að segja og þá jafnvel forðast aðstæðurnar. Eins og ég hef talað um áður þá eru þetta oft viðkæmar aðstæður og það er kannski einmitt þá sem fólki finnst það þurfa að segja eitthvað huggandi. Þetta verður svo erfitt og vandræðalegt og fólk kann ekki á þetta og fer því að forðast að vera í svona aðstæðum. Hvað á að segja og hvernig á að bregðast við þegar erfiðir hlutir gerast hjá barninu sem fólk verður vitni að í heimsóknum? Þetta er ekkert auðvelt og ég skil vel að fólk reyni að segja eitthvað sem það heldur að hjálpi. Ég held að það sé gott að muna að þarf ekkert að vera að setja sig í stellingar eða eitthvað hlutverk, tala öðruvísi og reyna að segja einhverja háfleyga hluti sem maður heldur að hjálpi. Það er alltaf best að vera maður sjálfur held ég og kannski að hugsa áður en maður talar. Bara svona smá pæling frá mér út í kosmosið.
Ást og kærleikur til ykkar