Í kringum kosningar fara loforð um betri frammistöðu þeirra sem stjórna á flug. Öllu fögru er lofað um betrun og að það eigi að bæta hag þeirra sem minna mega sín, allt á að verða miklu betra. Þetta er allt gott og blessað en svo gleymast loforðin oft eftir kosningarnar því miður og eftir sitja þessir minnihlutahópar í sömu stöðu og ekkert hefur breyst.
Ég trúi því að allir sem bjóða sig fram til forystu hvort sem það er á alþingi eða til sveitastjórna starfa vilji gera sitt besta en ég geri mér líka grein fyrir að það er ekki auðvelt að breyta hlutum í kerfinu. Fólk býður sig fram með einhverja hugsjón í brjósti en er svo bundið einhverjum flokks samþykktum og stefnu flokka og þá flækjast málin. Ég vildi óska að við gætum haft það þannig að við gætum kosið fólk en ekki flokka, fólk sem er með viss áherslumál sem það vill berjast fyrir og gæti þá gert það af fullum krafti. Kannski væri hægt að skipta þessu upp þannig að þeir sem hafa áhuga á orkumálunum gætu verið í þeim, þeir sem vildu hafa áhrif á utanríkismál væru í þeim geira og þeir sem vilja láta gott af sér leiða fyrir minnihlutahópa gætu einbeitt sér að því að bæta réttindi þess hóps. Ég held að það væri miklu vænlegra til árangurs ef fólk gæti virkilega unnið að því sem það brennur fyrir. Þá gætu kannski alþingis og sveitastjórnarmenn sérhæft sig á vissum sviðum og hefðu mun betri þekkingu á málaflokkunum sem þeir væru að vinna að í stað þess að reyna að vita eitthvað um allt. Þetta er allt svo einfalt í huganum á mér eitthvað, kannski ég ætti að stofna eins manns flokkinn Huldumál bara og bjóða mig fram.
Að öllu gríni slepptu þá veit ég að þetta er ekki svona einfalt en í fullkomnum heimi að mínu mati þá væri það þannig að hver hópur í samfélaginu ætti fulltrúa sem væru að vinna á fullu í þeirra málum. Væri það ekki frábært? Eldri borgarar myndu eiga sína fulltrúa, öryrkjar, innflytjendur, langveik og fötluð börn og svo framvegis gætu átt sína fulltrúa og við myndum sjá raunverulegar breytingar til góðs fyrir alla hópa. Ég hef ekki heyrt mikið rætt um málefni langveikra barna í kosninga baráttunni en það gleður mig að sjá að tveir foreldrar langveikra barna eru að bjóða sig fram í ár. Vonandi tekst þeim að gera góða hluti og koma málefnum þessa hóps inn á borðið,ég óska þeim báðum góðs gengis.
Ég er samt ekki mjög bjartsýn þegar kemur að pólitíkinni því mér finnst einhvern veginn svo margt mega gera betur og allt gerist of hægt. Við búum í litlu land og ættum að geta unnið mun hraðar og betur að úrbótum á kerfinu til dæmis. Það er svo margt sem þarf að laga varðandi málefni langveikra barna en það gerist á hraða snigilsins. Það væri að opna hálfgert pandóru box að fara að tala um Tryggingastofnun ríkisins og Sjúkratryggingar Íslands til dæmis sem eru þær stofnanir sem foreldrar langveikra barna þurfa að leita hvað mest til. Það er eiginlega martröð foreldra langveikra barna að þurfa að kljást við það batterí með öllum sínum samþykktum og reglugerðum. Þegar maður lendir á vegg þar er manni bent á að það sé alþingi sem þurfi að breyta reglugerðum og lögum ef maður fær neitun fyrir einhverju. Þarna er einmitt þörf á mikilli vinnu til að gera breytingar en eins og ég sagði þá finnst manni lítið gerast og svo ótrúlega hægt. Málefni langveikra barna brenna á mínu hjarta en ég hef þvi miður ekki tíma til að fara í framboð því ég er í fullri vinnu að berjast fyrir barnið mitt. Ég vona að þeir sem stjórna taki slaginn fyrir þennan hóp og fari að vinna í málefnum hans.
Með ást og kærleik