c

Pistlar:

29. júní 2018 kl. 21:38

Jóna Á. Gísladóttir (jonaa.blog.is)

Gaman að sjá þig!

Neihhh hæææææj.

Augabrúnir upp að hársrótum. Ji hvað það er gaman að sjá þig. Hvað er að frétta? Ertu alltaf á sama stað?

Augu sem úr skín velvild og einlægur áhugi. Og þú hefur ekki minnstu hugmynd um hvaða manneskja þetta er. Jú þú kannast við hana en getur ómögulega staðsett hana og þig í huganum á einhvern sameiginlegan stað í fortíðinni.

Kannist þið við þetta?

Gleði þessarar ókunnugu manneskju yfir að hitta þig er svo mikil að þú hefur ekki hjarta í þér að koma með setninguna sem ætti auðvitað ekki að móðga nokkurn mann: Fyrirgefðu, ég veit ég þekki þig en ég man ómögulega hvaðan.

Samt er það nú ekki hjartahlýja mín og nærgætni sem ræður för. Meira hræðsla við að gera mig að fífli. Ég yfirleitt leyfi bara samtalinu að ganga of langt til að ég geti snúið tilbaka í fyrirgefðu-ég veit-ekki-hver-þú-ert. Og í hvert einasta skipti sem þetta gerist lofa ég mér því að næst.. næst skuli ég haga mér eins og fullorðin manneskja.

Ég lenti í ýktasta dæminu fyrir allnokkrum árum síðan. Þá beinlínis hljóp kona upp um hálsinn á mér í gleðilátunum og mig ekki svo mikið sem rámar í að hafa hitt hana, hvorki fyrr né síðar. Hvað þá að hafa verið á tárvotum, faðmlags-grundvelli með henni. Ég man ekki orð af samtali okkar, sem betur fer. Sennilega hef ég þurrkað það út af minniskubbinum. Svona eins og hugurinn á til að gera þegar hann verður fyrir áfalli eða erfiðri lífsreynslu.

Sem betur fer þá næ ég oft að átta mig eftir einhver orðaskipti. Galdurinn er að segja sem minnst sjálfur, en láta þann ókunnuga tala því yfirleitt fer fólk að tala um sameiginlega kunningja, sem aftur leiðir til eureka andartaksins. Best að kinka kolli í gríð og erg, brosa í gegnum tárin og fletta upp í öllum fælum í heilahvelinu á sama tíma. Að lokum mun eitthvað í þessa átt koma frá gleðipinnanum:

,,Ég hitti Steina sem var að vinna með okkur, um daginn.''

Aha! Ok við vorum sem sagt að vinna saman. En hvenær? Fyrir 14 árum? 25 árum? Og róðurinn þyngist auðvitað eftir því sem maður eldist. Því lengra lífshlaup, þar sem kemur við sögu maki (makar), börn, tengdaforeldrar, því fleiri eru möguleikarnir.

,,uhhh Steini?‘‘

,,Já, manstu ekki eftir Steina í mjólkurkælinum?‘‘

Bingó! Mikligarður. Fyrir hundrað-og-eitthvað-árum. Guði sé lof. Og þarna get ég farið að láta móðan mása. Þó ég hafi ekki hugmynd um hvort viðmælandi minn tilheyrði grænmetispökkuninni eða snyrtivörudeildinni. Skiptir engu, það rofar til í hausnum á mér og léttirinn er gífurlegur.

Í sjálfhverfu minni held ég hreinlega að það hafi aldrei hvarflað að mér að ég gæti verið hinum megin við borðið. Að ég gæti verið gleðipinninn. Þessi ókunnuga. Að ég hefði einhvern tíma kvatt einhvern eftir spjall, voða glöð að hafa hitt viðkomandi, og hann gengið í burtu og brotið heilann um hvaða skrítna kona þetta hefði nú verið. Þangað til um daginn.

Fyrir utan áfengisverslun. Ég að bíða eftir að elskhuganum sem er inni að kaupa bjór. Allir á hlaupum. Klukkustund í leik Íslands og Nígeríu á HM. Ég rek augun í konu sem ég hef ekki séð í fjöldamörg ár en skipti máli í lífi barnanna minna fyrir öllum þessum tíma síðan. Ég rýk út úr bílnum og upp um hálsinn á henni.

,,Ég bara varð að heilsa upp á þig‘‘ sagði ég. Gleðipinninn. Einlæglega glöð að sjá fallega andlitið hennar með milda svipnum.

Hún brosti út að eyrum með íslenska fánann málaðan á kinnarnar. ,,Ert þetta þú!‘‘ (hint hint)

,,Já þetta er ég‘‘ segi ég með glópa glott á smettinu.

Við töluðum um leikinn og ég fékk að vita að andlitsfáninn hefði orðið til í HM stemningu í vinnunni. Fá orð fóru á milli okkar enda báðar að flýta okkur. Hún sennilega meira en ég í ljósi aðstæðna.

Um leið og við setjumst upp í sitthvoran bílinn kallar hún: ,,ég bið að heilsa..‘‘

Og ég kalla á móti: ,,ég skila því‘‘

Um leið og ég skelli bílhurðinni átta ég mig á því að hún sagði ,,stelpunum.‘‘ Hvaða stelpum? ,,Ég bið að heilsa stelpunum.‘‘ Ég á stelpu og strák.

Og það rann upp fyrir mér ljós. Þessi elska hafði ekki hugmynd um hver ég var. Kannski staðsetti hún mig í huganum í barnaumhverfi en vissi bara ekki hvaða. Eða hana minnti að ég tilheyrði einhverjum kvennahópi sem hún kannaðist við. Eða hún ruglaði mér saman við einhverja aðra kvensu.

En eitt er víst; ég og hún eigum engar ,,sameiginlegar‘‘ stelpur sem ég hefði getað skilað kveðju til.

Á leiðinni heim blótaði ég sjálfri mér fyrir að hafa ekki kynnt mig í stað þess að knúsa hana. Eða bara bæði. Það má alveg kynna og knúsa. Allavega þegar manni er mætt með eins fallegu brosi og hún sendi mér.

Nú jæja, hún fékk allavega líka breitt og fallegt bros frá mér, huggaði ég sjálfa mig í huganum. Alveg þangað til ég leit í spegil og uppgötvaði spínat tægju eða annan ófögnuð á augntönnunum á mér.

Og svo töpuðum við leiknum.

trump hug

Jóna Á. Gísladóttir

Jóna Á. Gísladóttir

 

 

 Ég er nokkuð dæmigerð íslensk útivinnandi kona. Hef lokið grunnnámi í markþjálfun og gengur betur að hjálpa öðrum við markmiðasetningu en sjálfri mér. Mér lætur líka betur að stjórna öðrum en sjálfri mér. 

 netfangið mitt er jonaagisla@gmail.com

 

 

 

Meira