Ég ákvað að sækja Þann Einhverfa í Vesturhlíð og dragnast með hann á sundæfingu (þetta heitir sko ''æfing'' eftir að kappinn tók þátt í sundmóti) kl 5 í gær. Ekki er hægt að segja að ég hafi verið hress eftir að hafa faðmað Gustavsberg óheyrilega nóttina áður.
Það var skelfilega kalt í gær og ég hefði getað sagt mér það sjálf að ég myndi lenda í vandræðum með að opna bílinn minn. En heilinn á mér var ekki vel vakandi svo ég hóf glímuna við frosnar bílhurðir heldur seint.
Bíllinn minn er station bíll og ég uppgötvaði að afturhlerinn var það eina á hjörum sem ekki var frosið fast aftur. Meira að segja læsingarnar voru pikkfastar.
Ég kallaði á Gelgjuna og skipaði henni að skríða inn eftir bílnum og starta honum og þenja miðstöðina í botn. Planið var að hita bílinn svo ég gæti opnað hurðarnar. Sá ekki alveg fyrir mér að það myndi ganga upp að láta Þann Einhverfa skríða inn og út úr bílnum.
En ég var orðin sein svo ég hafði ekki mikla þolinmæði í að bíða. Fór inn, tók saman sunddótið fyrir drenginn, dúðaði mig í úlpu og lúffur frá 66°norður, smeygði hinni ómissandi tösku minni yfir öxlina og fór út aftur. Byrjaði aftur að hjakkast á bílhurðunum og fór mikinn. Ákvað loks að það væri ekki um annað að ræða en að skríða sömu leið og Gelgjan hafði gert. Kannski gæti ég opnað hurðar með því að leggjast á þær innan frá. Og ef það brygðist þá myndi ég bara keyra niður í Vesturhlíð með allar hurðar frosnar aftur. Bíllinn hlyti að vera orðinn nógu heitur þegar niður í bæ kæmi.
Þar sem ég hef hvorki til að bera kattarhreyfingar Gelgjunnar né lítinn og petite líkama hennar þurfti ég að leggja niður aftursætin í bílnum. Annars hefði ég sennilega fest afturendann á milli topps og höfuðpúða. Svo henti ég mér á allar hurðar en engin haggaðist.
ARGH ég var orðin sveitt, pirruð, stressuð yfir tímaleysi og ógleðin lét mig ekki alveg í friði. Ég skreið aftur í bílinn, skellti hleranum í lás á eftir mér. Skreið aftur fram í bílinn. Festi læri hér og rasskinn þar. Hlussaðist að lokum í bílstjórasætið másandi og blásandi. Festi á mig beltið og ætlaði að fara að reykspóla út úr innkeyrslunni þegar mynd skaut upp í hugann á mér. Svartur sundpoki með rauðum stöfum og svört kventaska með axlaról. Hvar var nú draslið sem ég tók með mér út. Jú, lá í hvítu frostinu í innkeyrslunni. Nákvæmlega þar sem ég lagði það frá mér til að ná betra taki á hurðarhandföngum.
Ég var fangi í eigin bíl. Allar hurðir frosnar aftur nema afturhlerinn. Og hann er óopnanlegur innan frá. Enda ekki beint hannaður sem manngeng inn- eða útgönguhurð.
Hugsanirnar suðuðu hver um aðra þvera í hausnum á mér. Það eina sem mér datt í hug var að hringja í einhvern. Hringja í Gelgjuna og biðja hana að opna fyrir mér. Hringja í Vesturhlíð og segja að ég kæmi ekki eftir allt saman. Hringja í bílstjóra skólabílsins og segja að hann ætti að keyra Þann Einhverfa heim í dag, þó að ég hefði sagt annað um morguninn...
Það var aðeins eitt sem ekki gekk upp í þessu plani: síminn minn var í svörtu töskunni sem lá á jörðinni, ekki nema 30 cm frá fótum mér. Gallinn var sá að málmur skildi okkur að. Mig og töskuna mína og símann minn.
Öll ég stytta upp um síðir, stendur einhvers staðar og einhverjum tíma seinna hrundi ég út um hægri dyr að aftan eftir að hafa sett öxlina duglega í hurðina.
Við mættum korteri of seint á æfinu Sá Einhverfi og ég. Kátur drengur og marin móðir.