c

Pistlar:

4. mars 2009 kl. 22:43

Jóna Á. Gísladóttir (jonaa.blog.is)

Heimilisþvotturinn

Þvottahúsið er daglegur viðkomustaður. Hjá fimm manna fjölskyldu er alltaf hægt að finna sér eitthvað að dunda við í þvottahúsinu.

Síðustu mánuði hefur reyndar, hægt og bítandi, þróast hefð á heimilinu, sem ég kann afskaplega vel við;

ég sé um að setja í þvottavél (það felur í sér að tölta með, nær undantekningarlaust fulla, óhreina-taus-körfuna af efri hæðina niður í þvottahús, sortera í vélina og reka svo á eftir fatnaði sem hefur af einhverjum undarlegum ástæðum endað á gólfinu í barnaherbergjunum í staðin fyrir körfunni). 

Hreini þvotturinn á sér fastan samastað í betri stofunni. Þar liggur hann í stól. Stundum í marga daga áður en einhver grípur í taumana.

Og þessi ''einhver'' er venjulega Bretinn. Þá kallar hann til krakkaskarann og skipar liðinu í samanbrot á þvotti. Úr verður hin skemmtilegasta samverustund. Glósur fljúga manna á milli vegna fatnaðar sem krökkunum finnst asnalegur, eins og síðar með tippagati eða g-strengur í eigu gömlu konunnar.

Svo er líka hægt að fylgjast með sjónvarpinu í leiðinni. Sá Einhverfi gerir reyndar meira ógagn en gagn en hann er þó farinn að bera þvottinn sinn samanbrotinn upp og ganga frá honum ofan í skúffur.

En Unglingurinn og Gelgjan verða færari í þvottafrágangi með hverri vikunni sem líður... líka Bretinn. Og það venst vel að leyfa öðrum að sjá um þennan hluta heimilisverkanna. Mjög vel.

Í kvöld var ég að rífa út úr þvottavélinni og henda í þurrkarann. Ég missti nokkrar flíkur í gólfið í hamaganginum og beygði mig niður til að taka þær upp. Fann fyrir sokk sem ég var eitt andartak, ekki viss um hvort væri blautur eða þurr og þá hvort hann tilheyrði þvottinum sem ég var að taka úr þvottvélinni eða ekki.

Án þess að hugsa mig um rak ég hann upp að nefinu og andaði djúpt og rækilega að mér. Svona eins og maður gerir þegar maður ætlar að njóta ilmsins af hreinum rúmfötum.

Ég komst að því á sekúndubroti að þessi átti heima í óhreina tauinu. Mæli ekki með þessari aðferð.

Jóna Á. Gísladóttir

Jóna Á. Gísladóttir

 

 

 Ég er nokkuð dæmigerð íslensk útivinnandi kona. Hef lokið grunnnámi í markþjálfun og gengur betur að hjálpa öðrum við markmiðasetningu en sjálfri mér. Mér lætur líka betur að stjórna öðrum en sjálfri mér. 

 netfangið mitt er jonaagisla@gmail.com

 

 

 

Meira