Ég vildi svo gjarnan prýða heimilið mitt með fjöldanum öllum af grænum pottaplöntum; t.d. drekatrjám (næstum ódrepandi planta) eða burknum (fjandanum viðkvæmari). Og ég hef reynt. Margoft í gegnum árin. En ef það er til eitthvað í andstæðri merkingu við ''græna fingur'' þá endilega leyfið mér að heyra. Því ég hef það.
Ein planta hefur lifað í allt að 2 ár hjá mér núna og það er lítið drekatré í hvítum potti. Ég er afar stolt af þessum grænu blöðum. Þó veit ég það er eingöngu staðsetning plöntunnar sem hefur bjargað henni frá sömu örlögum og fyrirrennurum hennar. Hún fylgist nefnilega með fjölskyldumeðlimum bursta tennur kvölds og morgna, frá borði við vaskinn á baðherberginu.
Og í hvert sinn sem ég sé að hún er farin að drjúpa höfði þá eru hæg heimatökin að skvetta á hana vatni beint úr krananum.
Aðra plöntu á ég sem er mun stærri en þessi á baðherberginu og stendur í stofunni. Hún tórir með naumindum. Það er Fríðu Brussubínu að þakka, sem aumkvar sig yfir hana öðru hvoru, vökvar og fjarlægjir dauð blöð. Klappar henni og hughreystir.
Ég er öll að vilja gerð að hugsa vel um aumingja blómið en ég á það til að gleyma að vökva. Það er að segja: þegar ég er á leið inn í eldhús að ná í vatn til að vökva með, þá gleymi ég á leiðinni hvað ég ætlaði að gera og fer að þurrka af borðum í staðinn.
-----
Fyrir nokkru síðan var ég að bardúsa eitthvað í eldhúsinu þegar Sá Einhverfi kom inn. Opnaði hvern skápinn á fætur öðrum og var klárlega að leita að einhverju.
Hvað viltu Ian, sagði ég. Ég var eiginlega viss um að hann væri að leita að hlaup-köllum. Uppáhalds sælgætinu sínu sem við reynum að fela á mismunandi stöðum. Hann finnur þá samt alltaf á endanum.
Hann svaraði mér engu en dró fram mælikönnu og fyllti hana af vatni.
Æi nei, sagði ég. Ekki fara að sulla núna.
Hann stóð og horfði á mig. Beið eftir að ég skipti um skoðun. Hann var alls ekki tilbúinn til að láta könnuna frá sér.
Ég hugsaði mig um andartak en forvitnin tók yfirhöndina; allt í lagi, þú mátt taka könnuna.
Þá gekk hann rakleiðis inn í stofu, að vesældarlegu plöntunni og hellti vatninu í blómapottinn. Svo skilaði hann könnunni aftur inn í skáp og valhoppaði að því loknu upp í herbergið sitt. Væntanlega til að sinna skriftarþörfinni.
Það má segja að ég skilji núna að ástandið er slæmt. Fyrst Þeim Einhverfa er farið að blöskra hversu mjög ég vanræki blómin þá er aðeins um tvennt að ræða: taka sig taki eða leyfa honum að sjá um þetta.