Í gegnum árin hafa skotið upp kollinum, ýmsar sérþarfir hjá Hinum Einhverfa. Eða sérviska eins og amma kallaði það. Þú ert agalega sérvitur, sagði amma ansi oft við mig, svo drengnum kippir klárlega í kynið.
Alls konar árátta eða æði grípur Þann Einhverfa og stendur yfir í mislangan tíma. Margt af því tengist mat. Hann borðar kannski næstum ekkert nema skyr í langan langan tíma og ísskápurinn er fylltur af skyri í hverri innkaupaferðinni á fætur annarri. Það bregst aldrei að daginn sem mega-innkaup eru gerð á þeirri dillunni sem í gangi er í það skiptið, þá ákveður hann að þetta sé orðið gott. og við sitjum uppi með fullan ísskáp/skúffu/skáp af skyri/hrísgrjónum/eplum/bönunum eða hvað það nú er í það skiptið.
Fyrir mörgum mánuðum beit hann það í sig að hann væri ekki klæddur og kominn á ról fyrr en hann væri kominn í stuttbuxur utanyfir boxer-nærbuxurnar. Það stuttbuxnaæði stendur enn yfir og sér ekki fyrir endann á því. Ég held hann eigi orðið 8 eða 9 stuttbuxur til skiptanna.
Í Englandsförinni nú um páskana keypti Bretinn ein 10 pör af boxer á drenginn. Þær eru með ívið þrengri skálmum en þær sem hann á fyrir, og mega í raun ekki vera neitt minni en þær eru, til að fitta utan um hin dásamlega þykku læri sem drengurinn hefur.
En þær eru rosalega flottar, með hermannamunstri og allavega. Og það kom í ljós í gær að Þeim Einhverfa finnst þetta klárlega of flottar buxur til að fela undir stuttbuxunum, svo hann tróð sér í hermannaboxerbuxurnar utan yfir gömlu þykku víðu boxerbuxurnar sínar.
Ian, þetta eru nærbuxur, sagði ég. Fannst múnderingin ekki benda til þess að honum gæti þótt hún neitt sérstaklega þægileg.
Hann mótmælti þvi hástöfum. Stuttbuxur skyldu þetta vera.
Og ekki ætla ég að eyða orku eða geðheilsu í að leiðrétta það. Mér gæti ekki verið meira sama þó að boxer breytist í stuttbuxur og stuttbuxur í boxer ef því er að skipta. Á meðan hann heimtar ekki að vera í hermannaboxerbuxunum utan yfir síðbuxum, þá er þetta í góðu lagi.
Annað trend hjá stráksa núna eru fótboltasokkar. Háir og þykkir alvöru fótboltasokkar. Og þeir eru sko togaðir upp á mið læri ef mögulegt er. En hann hefur þann leiða ávana að dunda sér við að finna lykkju í sokkunum og rekja þá upp. Stundum finn ég í sófa eða stól, heilan hnykil af bandi og rekst svo svo á drenginn á rölti einhvers staðar í húsinu, í hálfum sokkum.
Fótboltasokkar eru fáránlega dýrir. Reyndar þykja mér sokkar yfirhöfuð fáránlega dýrir. Þetta er orðin munaðarvara.
Ég sé ofsjónum yfir að kaupa sokkapar á 2000 kall, sem ég veit að verður fljótlega rakið upp í óendurnýtanlegt garn.
Því hækkaði ég röddina um nokkur desibil þegar ég stóð hann að verki með kóngabláan þráð í höndunum í gær.
Iiiiiiaaaaan þú MÁTT EKKI GERA ÞETTA. EF ÞÚ HÆTTIR EKKI AÐ REKJA UPP SOKKANA ÞÍNA ÞÁ TEK ÉG ÖLL SOKKAPÖRIN ÞÍN OG HENDI ÞEIM Í RUSLATUNNUNA ARGH....
Hann rétti bláa þráðinn í áttina til mín og sagði hneykslaður: MAMMA, RÓLEG!
Barnið mitt er farið að rífa kjaft við mig og mér finnst það æðislegt.