Ég fann lykt af vorinu!!
Mér hefur alltaf þótt þetta afar skáldleg setning og rómantísk setning. Hef aldrei tekið hana trúanlega samt sem áður.
Veðrið í dag hefur verið með eindæmum fallegt. Sólskin, blár himinn og mjallahvítir skýhnoðrar. En kalt kalt kalt. Eins og fallegur haustdagur.
Seinnipartinn í dag þurfti ég nauðsynlega að skjótast úr vinnunni til að skreppa í mjólkurbúðina að kaupa gullinn vökva í umbúðum sem sumir kalla belju.
Ég setti á mig hálsklútinn, klæddi mig í ullakápuna og hneppti upp í háls. Steig út fyrir dyrnar og dró andann djúpt, og veitti ekki af eftir langa setu við skrifborðið. Og þá gerðist það... lyktin sem fyllti vitin var öðruvísi en sú sem ég andaði að mér í gær og hinn og hinn. Og ég hugsaði með mér: svo það er svona sem vorið lyktar.
Og ég varð eitthvað svo glöð.
Og í kvöld, þegar ég fer að innbyrða það sem keypt var í mjólkurbúðinni, ásamt vinkonum mínum, þá verð ég jafnvel ennþá glaðari