c

Pistlar:

11. maí 2009 kl. 23:26

Jóna Á. Gísladóttir (jonaa.blog.is)

Heppin, heppnari, heppnust

Á einhverjum tímapunkti var trampólín veður um síðustu helgi og þau systkini, Gelgjan og Sá Einhverfi hömuðust sem mest þau máttu á ferlíkinu. Reyndar á Sá Einhverfi það til að láta systur sína um allt erfiðið. Hann sest niður með krosslagða fætur og bíður skælbrosandi eftir þjónustu. Þá tekur hún til við að hoppa hringinn í kringum hann og hann skoppar skellhlæjandi upp og niður, hendist til hliðanna og veltist um. 

Það er ótrúlegt þolið sem stúlkan hefur. Bróðir hennar er 18 kílóum þyngri en hún og ekkert lítil átök sem þarf til að skemmta honum á þennan hátt, þó ekki sé nema í 2 mínútur eða svo.

Ég stóð í stofuglugganum og fylgdist með þeim. Með væmið bros á andlitinu. Gelgjan var búin að henda teppi yfir Þann Einhverfa, svo ekki stóð svo mikið sem tásla undan því. Svo hoppaði hún eins og hún ætti lífið að leysa og teppahrúgan hentist til skellhlæjandi. Þetta var fyndin sjón.

Bíddu Ian, kallaði Gelgjan. Mér er kalt, ég ætla í peysu. Ég kem strax aftur.

Úfinn kollurinn á Þeim Einhverfa gægðist undan teppinu og augun ljómuðu.

Mér hlýnaði um hjartað.  Gerir það alltaf þegar ég sé systkinin að leik. Þá reyni ég að sjá fyrir mér hvernig lífið þeirra væri ef stráksi væri heilbrigður á sama hátt og bróðir hans og systir.

Gelgjan smeygði sér í peysu og var á leið út í garð aftur þegar hún tók eftir væmna svipnum á andlitinu á móður sinni.

Hvað? spurði hún.

Æi, svaraði ég. Ég var bara að hugsa hvernig allt væri ef Ian væri ekki einhverfur.

Án þess að hika klappaði hún mér á handlegginn og sagði ákveðnum rómi: mamma, vertu ekkert að hugsa um það.

Svo var hún rokin út til að sinna Þeim Einhverfa.

Ég hló með sjálfri mér. Þó að hún sé aðeins 12 ára er viska hennar og skynsemi mun eldri.

Fyrir um 2 vikum sat ég og virti hana fyrir mér og ég sagði henni hvað ég var að hugsa: Ég er ofsalega heppin að eiga þig Anna Mae. Svona duglega, fallega, góða og heilbrigða.

Hún greip síðasta orðið á lofti, fannst halla á yngri bróður sinn og sagði: þú ert líka ofsalega heppin að eiga hann Ian.

Og það veit ég. Jafnvel rétt á meðan ég reiti hár mitt og skegg yfir einhverju sem þau segja eða gera, þá veit ég hversu heppin ég er með þau öll þrjú. 

Jóna Á. Gísladóttir

Jóna Á. Gísladóttir

 

 

 Ég er nokkuð dæmigerð íslensk útivinnandi kona. Hef lokið grunnnámi í markþjálfun og gengur betur að hjálpa öðrum við markmiðasetningu en sjálfri mér. Mér lætur líka betur að stjórna öðrum en sjálfri mér. 

 netfangið mitt er jonaagisla@gmail.com

 

 

 

Meira