c

Pistlar:

8. júní 2009 kl. 0:17

Jóna Á. Gísladóttir (jonaa.blog.is)

Með rassinn úti

Ég á engin föt!

Ég held að við, sem tilheyrum kvenþjóðinni höfum allar með tölu, einhvern tíma á lífsleiðinni, látið þessi orð út úr okkur. Og þau eru mis-sönn þegar þau eru sögð. Kannski er réttara að segja að þau séu mismikil lýgi.

Ég ákvað fyrr í kvöld, að byrja mánudagsmorguninn á því að fara í ræktina. Og þá hefst skipulagið. Taka til íþróttafötin, nestið til að hafa með í vinnuna og svo kvölin og pínan; Velja föt úr fataskápnum til að fara í eftir spriklið og sem nota bene: þurfa að haldast utan á mér allan daginn, á þann hátt að ekki sé skömm að.

Og fyrir manneskju eins og mig, sem hefur bætt á sig kílóum en er harðákveðin í að kaupa sér ekki föt, fyrr en þau kíló eru horfin, er þetta allt annað en auðveld og/eða ánægjuleg athöfn.

Í kvöld var ég þó lukkuleg með mig. Búin að ákveða í huganum að  uppáhalds gallabuxurnar mínar (ég á tvennar (sem ég passa í)),  færu ofan í íþróttatöskuna.

Er ég tók þær fram rak ég augun í gat á rassinum. GAT. Nánar tiltekið í rassaskorunni. Neðarlega. Og svo sá ég annað gat.

Ég hefði getað farið að grenja. Gerði það þó ekki en hugsaði; það var þó allavega heppilegt að buxurnar rifnuðu ekki utan af mér á miðjum vinnudegi.

En svo datt mér í hug að kannski hefðu þær einmitt gert það síðast þegar ég var í þeim, og ég sprangað með hálfan rassinn úti, um alla skrifstofu, samstarfsfólki mínu til gleði og yndisauka.

Og þá fór ég að gráta.

Ég fæ sennilega aldrei að vita staðreyndir í því máli. En ég er að spá í hvort það borgi sig að fara með mínar heittelskuðu gallabuxur, sem eru komnar vel til ára sinna, á saumastofuna í Skeifunni og láta bæta þær.

Ég er þó ansi hrædd um að það borgi sig ekki. Við nánari eftirgrennslan sé ég að efnið er orðið öööööörþunnt á öllu rass-svæðinu, sem skýrir kannski afhverju þessar gallabuxur hafa passað á mig allan þennan tíma. Þær hafa stækkað með mér eftir bestu getu, þessar elskur. Og nú gátu þær ekki meir.

En eitt er víst; ekki fer ég og kaupi mér gallabuxur fyrir þrettánþúsundkrónur í dag, sem verða orðnar AAAAAAALLTOOOOOOF stórar á mig, bara eftir nokkrar vikur, þegar ég verð orðin Jóna Mjóna.

Jóna Á. Gísladóttir

Jóna Á. Gísladóttir

 

 

 Ég er nokkuð dæmigerð íslensk útivinnandi kona. Hef lokið grunnnámi í markþjálfun og gengur betur að hjálpa öðrum við markmiðasetningu en sjálfri mér. Mér lætur líka betur að stjórna öðrum en sjálfri mér. 

 netfangið mitt er jonaagisla@gmail.com

 

 

 

Meira