c

Pistlar:

17. júní 2009 kl. 17:46

Jóna Á. Gísladóttir (jonaa.blog.is)

Frelsi

Það var komið að hinni mánaðarlegu gistingu í Hólabergi í dag. Sá Einhverfi var afskaplega vel ballanseraður og engin mótmæli komu frá honum þegar ég tilkynnti að tími væri til kominn að fara í bílinn og keyra í Hólaberg.

Hann gekk keikur inn í húsið, fór beint með töskuna sína inn í herbergi og kom sér síðan fyrir í sófa í sjónvarpshorninu.

Ég talaði í skamma stund við starfsfólkið en fór svo að faðma drenginn minn og kyssa í kveðjuskyni.

Bless ástin min, sjáumt á morgun klukkan  klukkan átta, sagði ég.

Hann endurgalt faðmlagið. Bless ástin mín, svaraði Sá Einhverfi. Sjáumst á morgun.

Ég gekk í burtu og mér var létt. Þetta var auðveldara en ég bjóst við. Svo leit ég um öxl og sá að hugrakki strákurinn minn var að reyna að halda aftur af grátviprunum um munninn. Vildi ekki að mamma sæi hann beygja af.

Ég hjúpaði hjartað harðri skel og gekk út í sólskinið. Ég vissi að hann myndi jafna sig mjög fljótt. 

Frelsistilfinningin heltók mig þegar ég settist undir stýri og ók í burtu. Rúmlega sólarhringur framundan af algjöru áhyggjuleysi og rólegheitum.

Ég er komin svooooo langa leið frá því sem einu sinni var: Ekkert samviskubit yfir að yfirgefa barnið mitt. Ekkert samviskubit yfir að fyllast frelsistilfinningu. Ekkert samviskubit yfir að hafa ekki samviskubit.

Allavega get ég talið sjálfri mér trú um það. Og það er sigur á vissan hátt.

Jóna Á. Gísladóttir

Jóna Á. Gísladóttir

 

 

 Ég er nokkuð dæmigerð íslensk útivinnandi kona. Hef lokið grunnnámi í markþjálfun og gengur betur að hjálpa öðrum við markmiðasetningu en sjálfri mér. Mér lætur líka betur að stjórna öðrum en sjálfri mér. 

 netfangið mitt er jonaagisla@gmail.com

 

 

 

Meira