Sá Einhverfi kom heim úr Vesturhlið síðastliðinn föstudag, plástraður í bak og fyrir. Eða því sem næst. Þar sem hann virtist finna til í hendinni vakti plásturinn á hægra handarbaki sérstaklega forvitni mína. Ekkert var að sjá þegar hann var fjarlægður en okkur Bretanum tókst nú samt að sjá bæði vísbendingar um bruna, sem og tannaför. Nett ímyndunarveiki.
Í samskiptabókinni var ekkert að finna um nein meiðsli eða óhapp svo ég ákvað að hann hefði dottið og meitt sig örlítið. Ef stráksi finnur einhvers staðar til þá heimtar hann plástur og krem, þó að ekkert sé sárið.
Á laugardeginum sá ég að Sá Einhverfi hlífði höndinni eftir bestu getu og þegar ég þreifaði hana þá kveinkaði hann sér. En hann var nú samt skrifandi og ég gat beygt alla putta á honum o.s.frv. Ég ákvað því að ég nennti ómögulega að fara upp á bráðamóttöku, sitja þar í fleiri klukkustundir, bara til að láta segja mér að strákurinn væri tognaður og ekkert hægt að gera.
en eftir að hafa hlustað á sögur hjá vinum og vandamönnum um börn sem nánast klifu fjöll hand- og fótbrotin vegna þess að foreldrarnir ''neituðu að hlusta á þetta væl.. bara smátognun'' o.sfrv., þá ákvað ég að svo slæm móðir gæti ég ekki verið.
Það var haldið í leiðangur, Sá Einhverfi, Bretinn og ég. Með í för upp á slysavarðsstöfu var bakpoki með ferðatölvunni minni og einum 7 DVD myndum. Ég var sko viðbúin 10 tíma viðveru í Fossvoginum.
Sá Einhverfi var ótrúlega duglegur. Aðalvandamálið var að fá hann til að taka af sér vatnsþétta úrið sitt sem hann ber ávallt á hægri hendi, til að hægt væri að mynda hann.
Annað vandamál var að ég fór næstum að grenja þegar læknirinn sagði að hann ætti að vera í gifsi í tvær vikur, því Sá Einhverfi er að fara í sumarbúðirnar á sunnudaginn og þar er farið í sund á hverjum einasta degi. Hugurinn fór á flug: ég yrði að afpanta fyrri vikuna og það yrði hræðilegt fyrir hann... og mig. Geðið mitt hangir á bláþræði og sá þráður er beintengdur við nk sunnudag. Ef ég ekki ek prinsinum mínum í sveitina þann dag, þá er ég hrædd um að þráðurinn slitni og verði fyrir varanlegum skaða.
En þetta var eðallæknir því hann lofar okkur nýju gifsi á fimmtudaginn. Reimað skilst mér. Hægt að fjarlægja og setja á aftur án vandkvæða.
Það spaugilega var að allt í allt tók þetta ekki nema um eina og hálfa klukkustund. Og út gekk sá Einhverfi með gifs-spelku á brákuðum úlnlið og hann hafði ekki náð að horfa á nema bara brot af Kalla Blómkvist.
Eftir að heim var komið með gifsaðan dreng sýndi hann tilburði í þá átt að vilja plokka heftiplástur og sárabindi sem handleggurinn var vafinn með, af sér. Því ákvað ég að láta hann sofa upp í hjá mér á sunnudagsnóttina til að vakta hann. Bretann rak ég í rúm sonarins.
Ég vaknaði á sunnudagsmorguninn um sexleytið, við það að Sá Einhverfi fór framúr. Ég reis upp við dogg og horfði á hann svefndrukknum augum. Eitthvað dinglaði í hendi hans. Ég rýndi betur og grunaði strax hvers kyns var. Litla skrímslið hélt á gifsinu ásamt henglum af sárabindi og heftiplástri. Þetta hafði hann dundað sér við í rúminu við hlið móður sinnar. Varlega og ævintýralega hljóðlega.
ARGH...
Mamma róleg, sagði skrímslið.
En ég var langt frá því að vera róleg. Ég fór og keypti nýtt sárabindi og heftiplástur og barasta ''klæddi'' drenginn í allt heila klabbið aftur. Hann hefur ekki vogað sé að endurtaka leikinn. Og nú er bara einn dagur í nýtt gifs.
Ég er aftur á móti búin að ljúga að honum allan tímann að hann fái úrið sitt aftur á fimmtudaginn. Slík lýgi getur verið nauðsynleg. Eins og í þessu tilviki til að hann fáist á endurkomudeildina með mér.
Og hann staglast á sömu orðum margoft á dag: Mamma, úr á hægri fimmtudagur.
Já Ian, segi ég með lygaramerki á fingrunum. Úr á hægri á fimmtudaginn.