c

Pistlar:

28. júní 2009 kl. 21:23

Jóna Á. Gísladóttir (jonaa.blog.is)

No búfé allowed to cross

Við keyrðum austur í sumabúðirnar í dag með Þann Einhverfa. Hann var glaður, kátur, spenntur og fullur tilhlökkunar. Sitjandi í aftursætinu með gifsspelkuna sína á hægri handlegg og fatlann hangandi um hálsinn. Hann ljómaði eins og sólin þegar húsið á Laugalandi kom í ljós. Það gladdi mig ekki lítið.

Við byrjuðum á því að kíkja á herbergið hans og losa okkur við töskuna. Svo fórum við fram í matsal og fengum okkur að borða. Svo stakk stráksi okkur af og fór niður í íþróttasalinn. Öllum hnútum kunnugur.

Þegar við komum niður var hann á harðahlaupum með bolta. það var ekki erfitt að koma auga á hann innan um allan hópinn. Svona stórglæsilegan í kóngabláu allt frá háu fótboltasokkunum, upp í derhúfuna í fánalitunum.

Við spjölluðum við Telmu sem verður hans umsjónaraðili í sumar á móti Ragnhildi. Létum hana fá allar upplýsingar um Þann Einhverfa sem okkur mögulega datt í hug.

Að því loknu var ég komin með aðskilnaðarkvíða og sagði við Bretann að best væri að kveðja og drífa sig af stað.

Við kölluðum á brosmilda drenginn okkar sem mátti í raun ekkert vera að því að tala við okkur.

Bless Ian sagði Bretinn og fékk koss. Sjáumst eftir 14 daga.

Sjáumst sagði Sá Einhverfi

Bæ ástin mín sagði ég og tók utan um hann.

Bæ sagði hann og hallaði höfðinu andartak upp að mér. Svo sneri hann sér snöggt við og gekk í burtu. Ég horfði á eftir honum því ég vissi að nokkur tár láku og hann var að fela þau.

Hann fékk sér sæti á stórri dýnu innst í salnum með bakið í okkur.

Þegar við fórum sat Telma hjá honum. Ég veit að hann hefur jafnað sig á 10 mínútum.

Kerlingin og karlinn jöfnuðu sig líka og  brenndu á veitingahúsið Fjöruborðið á Stokkseyri og borðuðu þar dásamlega humarsúpu ásamt nýju heimabökuðu brauði og hvítvínsglasi.

Á leiðinni heim vorum við í okkar venjulega gír, þ.e. tuðandi í hvort öðru. Það getur verið hin besta skemmtun. Allavega þar til öðru hvoru okkar tekst að koma svo við kauninn á hinu að úr verði alvöru rifrildi.

I will have to throw you out of the car now, sagði Bretinn skyndilega. There is no búfé allowed to cross over here. Hann benti á ímyndaða línu á veginum.

You mean no cows, sagði ég þurrlega.

Thats right, sagði Bretinn og hélt fast um stýrið. No cows allowed.

Og við sem erum rétt að hefja 2ja vikna frí saman.

Ég leyfi ykkur að heyra hvernig það gengur.

Jóna Á. Gísladóttir

Jóna Á. Gísladóttir

 

 

 Ég er nokkuð dæmigerð íslensk útivinnandi kona. Hef lokið grunnnámi í markþjálfun og gengur betur að hjálpa öðrum við markmiðasetningu en sjálfri mér. Mér lætur líka betur að stjórna öðrum en sjálfri mér. 

 netfangið mitt er jonaagisla@gmail.com

 

 

 

Meira