Haustið er að koma. Ég sé það á nokkrum gulnuðum laufum á trjánum fyrir utan eldhúsgluggann og ég finn það á kólnandi loftinu sem ég anda að mér á morgnana.
Sá Einhverfi virðist ekki finna það. Hann bara sér það á vikuplaninu sínu þar sem móðir hans hefur sett inn á hvern einasta dag eftirfarandi texta: Ian ætlar í buxur í dag.
Þannig hefur það verið í rúma viku en alltaf gengur hann út á morgnana í stuttbuxunum. Mig hefur skort viljastyrk og þrek til að fylgja fyrirmælunum eftir.
Skilaboðin hafa nú samt sem áður komist vel til skila og verið skilin... ef þannig má að orði komast. Það hefur verið greinilegt á öllum afklipptu buxnaskálmunum sem hafa fundist í ruslafötum hist og her um húsið síðustu daga.
Í morgun ákvað ég að taka málið alla leið. Lét skólabílinn fara þegar stráksi þverneitaði að klæðast síðari buxum en niður á mið læri. Hann þolir ekki þegar hann missir af rútunni. En í morgun þótti honum greinilega réttur hans til að klæðast stuttbuxum allan ársins hring, mikilvægari en að fá far með skólabílnum.
Ég sem sagt sendi skólabílinn í burtu og ákvað að leyfa Þeim Einhverfa að sitja einum í fýlu í stofunni. Fór upp á loft og sýsla og bað Gelgjuna sem var á leið niður, að fjarlægja skærin úr eldhússkúffunni. Hún gerði það samviskusamlega.
En það breytti engu. Strákskömmin varð sér úti um önnur skæri og síðustu síðbuxurnar í hans eigu breyttust í stuttbuxur í morgun, eins og aðrar hafa gert síðustu sjö daga.
Ég frétti það í gegnum reiðan Breta sem stóð á gólunum í stofunni. Ég blikkaði ekki auga. Lyfti ekki einu sinni augabrún. En Sá Einhverfi lét sér segjast og samþykkti að fara í gamlar ''kvart'' buxur sem ég fann inn í skáp.
Ég notaði svo hádegið í dag til að fara í Hagkaup og kaupa tvennar jogginbuxur á drenginn. Þær eru nú í felum inn í þvottahúsi just in case að stór og stæðilegur klippióður einhverfur drengur fari á stjá í nótt með skæri á lofti.
En eitthvað er stráksi orðinn leiður á reiðiköstum foreldranna því hann tilkynnti í kvöld, algjörlega upp úr eins manns hljóði; buxur á morgun.