Gelgjan og Viðhengið komu heim úr sundi í dag og hentust inn úr dyrunum með bægslagangi. Unglingurinn hafði hringt í systur sína og boðið þeim vinkonum með sér og kærustunni í bíó og þær voru eðlilega spenntar yfir því.
Sá Einhverfi espaðist allur upp við lætin og var glaður að sjá stelpurnar. Hann verður sífellt félagslyndari.
Þær byrjuðu að kasta sundbolta á milli sín í stofunni en Sá Einhverfi hljóp út á pall og kallaði á þær. Stelpur komið stelpur komið, hrópaði hann.
Þær virtu hann ekki viðlits enda tekur tíma að síast inn í hausinn á manni að stráksi er ekki lengur endilega að góla einhverja merkingalausa frasa úr bíómyndunum sínum sívinsælu, heldur á hann það virkilega til að ávarpa fólk.
Æi svarið honum, sagði mamman í vorkunnartón. Hann er svo glaður að þið skuluð vera komnar.
Gelgjan brást strax við beiðninni; hvað segirðu Ian, eigum við að koma, kallaði hún á móti og hentist út á palli og í hvarf þar sem gardínurnar voru dregnar fyrir glugga og hurð.
Svo heyrði ég hana reka upp skaðræðisöskur og Þann Einhverfa reka upp dillandi hláturroku. Viðhengið hljóp að hurðinni og rykkti gardínunum frá og ætlaði svo að leka niður í gólf af hlátri.
''Litla'' einhverfa barnið sem mömmunni þótti vera svo mikil vorkunn, beið eftir systur sinni með tvær fullhlaðnar vatnsbyssur og hóf skothríð um leið og hún birtist.
Gelgjan flúði inn í bílskúr og fyllti þar þriðju vatnsbyssuna og ætlaði að ráðast á móti bróður sínum en gikkurinn á henni var ónýtur. Stráksi hafði því töglin og haldirnar.
En stelpurnar eru betri í feluleik og eftir nokkrar ferðir í gegnum bílskúrinn og inn og út um allar mögulegar útidyrahurðir neyddist Sá Einhverfi til að hlaupa á klósettið, alveg í spreng.
Á meðan hann sat þar gargaði hann og gólaði á stelpurnar; stelpur stelpur hvar eruð þið? Og þær flissuðu einhvers staðar í felum og görguðu á hann á móti.
En þá kom Unglingurinn í hendingskasti, skipaði stelpunum út í bíl og á nokkrum sekúndum breyttist húsið og garðurinn úr háværum og úfnum sjó í lygna tjörn. Allt datt í dúnalogn. Ekkert heyrðist.
Aðeins hjáróma rödd drengs sem barst frá klósettinu: Stelpur stelpur hvar eruð þið?
Þá gleymdi mamman því samstundis að fimmtán mínútum áður var þessi strákur lævís, undirförull og útséður í því að klekkja á systur sinni, og vorkunnsemin helltist yfir hana.
Æi Ian þær eru farnar
Kannski seinna, sagði Sá Einhverfi og hysjaði upp um sig brækurnar.
Já Ian, þú getur sprautað á stelpurnar seinna.